Ég mun sakna:
-- Stresslausa lífsins. Það er allt svo miklu afslappaðra hérna. Sem auðvitað kemur líka til af því að ég er ekki að stússast í tíuþúsund hlutum eins og á Íslandi. Og nú veit ég það: tveggja mánaða afslöppun er nóg til að laga jafnvel svæsnustu vöðvabólgu.
-- Óperunnar. Það er bara svo gaman að komast í almennilega óperu. Ég er meira að segja búinn að sjá Elektru tvisvar! Já, ég er sko kaldur kall.
-- Danska útvarpsins. P2 er alveg frábær útvarpsstöð. Bara létt snakk, klassísk tónlist á daginn og djass á kvöldin. Og á sunnudagskvöldum er sniðugur þáttur þar sem eru bornar saman sex útgáfur af sama verkinu og þrír sérfræðingar velja þá bestu í útsláttarkeppni. Af hverju er ekki hægt að hafa svona útvarpsstöð heima?
Ég mun ekki sakna:
-- Rigningarinnar. Það er búið að rigna svolítið mikið hérna, og þið vitið hvað ég HAAATA rigningu!
-- Dönskunnar. Eða réttara sagt fólk sem talar dönsku of hratt. Sem eru eiginlega allir. Annars hef ég ekkert á móti dönsku, hún er bara fín. Nema hún er aðeins of lík þýsku. Það hefur verið stærsti höfuðverkurinn að muna hvað er þýska og hvað er danska. Svo asnaðist ég á þýska bíómynd um daginn (Das Leben der Anderen, mæli með henni) og var marga daga að ná áttum aftur.
-- Sturtunnar minnar. Hún er svo fáránleg að ég þyrfti helst að taka mynd af henni áður en ég fer. En mér skilst að dönsk baðherbergi séu oft frekar skrautleg...
Svo er ég ekki frá því að ég hlakki bara til þess að byrja aftur að kenna. Enda byrjar janúar á Monteverdi og Britten - það gerist nú ekki mikið betra.