fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Matur og vín

Annað kvöld fer ég í fyrsta matarboðið mitt á dönsku. Með hvorki meira né minna en tveimur tónlistarfræðingum og einhverju fleira fólki sem ég þekki ekkert. Það verður meiriháttar afrek ef ég lifi þetta af.

Var ég nokkuð búinn að segja ykkur að ég bý við hliðina á besta sushi-staðnum í Kaupmannahöfn? Enda er ég orðinn alvarlega háður sushi. Ég lifi varla af daginn án þess að fá mér nigiri, maki og hvað þetta nú heitir allt saman. Þessir nágrannar mínir eru mestu meistarar og gaman að horfa á hröð handtökin þegar þeir búa þetta allt saman til. Haldiði að mamma verði nokkuð pirruð ef ég bið um sushi í staðinn fyrir rjúpu á jólunum?

Ég var ekki heldur búinn að segja ykkur frá því að um daginn buðu Bo og Eva mér í kvöldmat með Peter kórstjóra og Caroline konunni hans. PP er mikill vínmaður og þegar við vorum búin að borða fór hann að gjóa augunum til Bo leyndardómsfullur á svip, og greinilegt að eitthvað mikið var í uppsiglingu. Það endaði með því að Bo fór og sótti þá allra rykföllnustu rauðvínsflösku sem ég hef séð. "Tja, þegar ég var að borða kvöldmat með Peter Lehmann í Ástralíu fyrir nokkrum árum bað ég hann um að gefa mér flösku af 1991 árganginum af (hér nefndi hann einhverja víntegund sem ég man ekki), hann hló bara og sagði að það væri allt búið, en gaf mér '92 árganginn í staðinn". Semsagt, þarna sátum við og drukkum 14 ára gamalt rauðvín sem Peter Lehmann sjálfur gaf honum! Það var verulega ljúffengt. Ekki viss um að það hefði endst mörg ár í viðbót, en já, þetta var óneitanlega nokkuð sérstakt...
|

mánudagur, nóvember 27, 2006

Í reynslubankann

Hvað sem annars má segja um gærkvöldið þá var það afar lærdómsríkt. Og gekk, að flestu leyti, býsna vel. Musica ficta er mjög fínn kór, en gæti verið ennþá betri ef Bo væri kröfuharðari á æfingum, og stokkaði upp í bassadeildinni, þar sem meðalaldur og meðalvíbrató eru í hæsta/mesta lagi.

Lærdómsríkast var að syngja Spem tvisvar, í ólíkum uppstillingum. Fyrst stjórnaði Bo okkur þar sem við stóðum í 8 kórum víðsvegar um kirkjuna, síðan stjórnaði Peter þar sem við stóðum í einum risaboga uppi við altarið.

Fimm hlutir varðandi Spem sem ég lærði í gær:

1. Það er erfiðara en maður heldur. Þótt hljómagangurinn sé einfaldur þá er rytminn stundum snúinn og línurnar mjög óeftirminnilegar. Ekki af því að Tallis hafi ekki getað samið góðar línur, heldur af því það er hægara sagt en gert að hafa enga samstígni þegar þú ert kominn með 40 raddir.

2. Maður hefði haldið að það væri erfiðara að syngja verkið dreifð út um allt, en nei. Það fer allt eftir því hvort stjórnandinn getur gefið skýrt slag. Og getiði nú, eða lesið aftur það sem stendur að ofan. Eins og Andrew sagði við danska barítóninn sem var með okkur í kór, þegar allt var á leið í vaskinn á æfingunni: Don't look, just listen....

3. Ef maður kemst í gegnum takta 50-58 getur maður andað töluvert léttar. Synkópurnar í sópran 7 eru svínslegar og geta sett allt úr skorðum. Sérstaklega ef stjórnandinn getur ekki gefið skýrt slag.

4. Taktar 108-109 minna mig óhugnanlega mikið á sjöttu sinfóníu Mahlers.

5. Um leið og maður er kominn yfir í hómófónísku kaflana, creator caeli et terrae etc., getur maður andað mikið, mikið, mikið léttar. Það er fátt sem getur klikkað þar. Jafnvel þótt stjórnandinn geti ekki gefið skýrt slag.

Ég er samt ekki viss um að Spem, jafnstórkostlegt og það nú var, hafi verið hápunktur kvöldsins. Karaoke-barinn með mestu stuðboltunum í TS var a.m.k. eitthvað sem ég gleymi aldrei. Við vorum að til 3 í nótt; Andrew tók m.a. Bohemian Rhapsody, ég tók Grease-dúetta með nýju sópranstelpunni og It's Oh So Quiet með sterkum íslenskum hreim. En nú er best að fara að trítla niður á Árnasafn og grúska dálítið, svo er aldrei að vita nema ég skelli mér á Monteverdi Vespers í kvöld. Já, þetta er indælt líf.
|

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Uppljóstranir

Við Sólveig erum búin að komast að leyndarmálinu á bak við danskar kvikmyndir. Danir eiga eina formúlu sem virðist vera algjörlega skotheld, a.m.k. að því er þeim finnst. Í fyrsta lagi: það deyr alltaf einhver í danskri kvikmynd. Í öðru lagi: það er alltaf eitt bøssepar. Svona til að sýna umheiminum hvað Danir eru nú líbó. Í þriðja lagi: það er alltaf a.m.k. ein frekar svæsin kynlífssena. Þær geta verið af ýmsum toga, t.d.: framhjáhaldið í fullum gangi (framhjáhöld eru algeng í dönskum myndum); hjónin/parið eftir að þau hafa eða eru um það bil að ná sáttum; eða bøsseparið í fullu fjöri, svona til gamans. Best er samt ef tekst að tvinna þetta allt saman á sem frumlegastan hátt. Nú þegar við höfum uppgötvað leyndarmál danskrar kvikmyndagerðar bjóðum við okkur fram í handritaskrif. Ég meina, þetta getur ekki verið svo flókið, er það nokkuð?

Önnur uppljóstrun: Það eru engir Danir í Kaupmannahöfn. Borgin er full af Svíum og Íslendingum. Maður þekkir þá í sundur með því að labba niður Strikið á sunnudagseftirmiðdegi. Svíarnir ganga rólegir um, haldast í hendur og segja skemmtilegar sögur, en Íslendingarnir hlaupa klyfjaðir milli Illum og Magasin du Nord yfirkomnir af stressi af því þeir þurfa að kaupa aðeins meira áður en þeir fara heim með kvöldvélinni.
|

föstudagur, nóvember 17, 2006

9 dagar

Ég valdi greinilega alveg rétta tímann til að flýja land, ef marka má alla tölvupóstana og sms-in undanfarið um kuldann heima. Í Kaupmannahöfn er þetta fína veður, svolítil rigning stundum, en þá grípur maður bara regnhlífina.

Það er annars útlit fyrir frekar menningarlega helgi. Ég er að spá í að fara á Mozart-ballettinn, og svo ætla ég pottþétt á Elektru. Ég hef alltaf verið hálfhræddur við þessa óperu, enda er söguþráðurinn svona í hressari kantinum. Ég hlustaði á hana einu sinni þegar ég var um tvítugt og lá andvaka í margar nætur á eftir. En maður herðist nú með árunum, er það ekki?

Enda má ég síst við því að missa svefn í næstu viku. Fyrsta kóræfing er í Glyptotekinu á miðvikudag, reyndar æfum við þar daglega fram á sunnudag og fáum bara smá hljóðprufu fyrir DR í kirkjunni fyrir tónleikana. Ég er nett spenntur, nóturnar eru í sjálfu sér ekki erfiðar en þegar maður er einn á rödd er eins gott að vera með sitt á hreinu. Með mér í kór II eru sópran, alt og tenór úr Tallis Scholars og danskur barítón. Mér finnst þetta allt mjög óraunverulegt, en ætla nú samt að reyna að njóta þess í botn...
|

mánudagur, nóvember 13, 2006

Schön sind die Träume...

Ég var að koma heim af alveg frábærum ljóðatónleikum. Vá, hvað ljóðatónleikar geta verið magnaðir. Það var Angelika Kirchschlager sem söng, alveg ótrúlega fallega, Schumann/Schubert prógramm. Og ég þekkti ekki nema nokkur lög, hún söng jú eitthvað úr op. 35 og endaði svo á An die Musik - ok, kannski smá klisja, en samt ekki þegar það er svona vel gert. Herlegheitunum verður útvarpað að hluta á P2 á fimmtudaginn kl. 20 og sunnudaginn kl. 16. Og af hverju hef ég aldrei heyrt Die Löwenbraut eftir Schumann? Skandall. Ekki lengur samt.

Annars er bara gaman að vera hérna. Danir eru fyndnir. Þeir klæða sig púkalega og tala alltof hratt, en annars eru þeir yndislegir. Maðurinn sem sat við hliðina á mér í metroinu í morgun lét sig ekki muna um að klára einn bjór á leiðinni, og í gær sá ég konu sem var úti að skokka með sígarettu í munnvikinu. Hvergi nema í Danmörku...
|

föstudagur, nóvember 10, 2006

The hills are aliiiiiveeee.....

Já, ég er kominn til Salzburg. Gaerdagurinn var ekki sá skemmtilegasti, thví ad ég sat á flugvöllum frá morgni til kvölds. En nú er ég kominn og allt komid á fullt. Á milli thess sem raett er um Bologna-samkomulagid, ECTS-einingar og Quality Assessment hámar fólk í sig Mozart-kúlur og Apfelstrudel. Skipuleggjendur hafa greinilega ákvedid ad thad vaeri besta leidin til ad halda öllum ánaegdum. Sykurbindindid mitt, sem byrjadi svo efnilega, er semsagt farid veg allrar veraldar.
Í kvöld er einhver rosa dinner í Augustinerbräu, og á morgun er veisla hjá borgarstjóranum. En nú aetla ég ad skella mér í nunnubúninginn og hlaupa syngjandi um Mirabell-gardana. Bis später!
|

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

...respice humilitatem nostram...

Ég er kominn með nótur. Við það fjölguðu fiðrildin í maganum sér um allan helming, og ég á ekki von á að þau fljúgi burt fyrr en að tónleikunum loknum. Svo þeir sem eru í Danmörku 26. nóvember mega mjög gjarnan koma í Holmens Kirke og heyra mig syngja með Tallis Scholars og Musica Ficta, sem er danskur endurreisnarkór. Ég held ég geti alveg lofað nokkuð mögnuðum tónleikum.

Prógrammið er svona:
Josquin: Vive le Roy
Ockeghem: Deo gratias (36 raddir)
Tallis: Spem in alium (40 raddir)
Tallis: Loquebantur variis linguis
Taverner: Quemadmodum
Mundy: Adoloscentulus sum ego
Byrd: Ad Dominum cum tribularer
Hlé
Brumel: úr Missa Et ecce terrae motus (12 raddir)
Tallis: Spem in alium (endurtekið)
Gombert: Credo

Ég er auðvitað fáránlega heppinn bara að fá að vera með, en sérlega heppinn með að vera í kór II í Tallis. Það þýðir að ég er að syngja mestallan tímann, og flest á mjög þægilegu raddsviði fyrir mig. Hins vegar fáum við bara fimm æfingar, og þetta er risaprógramm. Ég er farinn að æfa mig...
|

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Davs!

Thad var EKKI hluti af planinu ad thad yrdi kaldara i Kaupmannahofn en a Islandi! Eins gott ad vedurgudirnir taki sig a thegar their fretta ad eg er kominn. Annars gengur allt storvel. Frederiksberg er frabaert hverfi og Marceau og Valerie alveg indael - thau fara til Chile a morgun og tha er ibudin min! Eg er buinn ad vera nokkud duglegur; a tveimur dogum er eg buinn ad ganga fra ollu skrifraedinu, fara a koraefingu og hitta fullt af Islendingum, fara a fyrirlestur um gamla danska kirkjutonlist. Svo er eg buinn ad redda mer hjoli, eda ollu heldur Marceau aetlar ad lana mer sitt, svo nu er mer ekkert ad vanbunadi ad gerast Dani. A morgun er thad svo fyrsti dagurinn a Arnasafni, og operan annad kvold. Makropoulos-malid eftir Janacek; eg geri mer engar serstakar vonir, en madur verdur nu ad hafa sed eina Janacek-operu um aevina, ik?
PS Thid vitid ekki hvad eg var lengi ad skrifa thetta. Fronsk lyklabord eru omurleg.
|