föstudagur, október 27, 2006

Tilvitnun dagsins

Í heimi listarinnar gegnir tónlistin miklu og göfugu hlutverki. Þeim sem lýkur upp hjarta sínu fyrir góðri tónlist opnar hún undraheima. Hún er með fangið fullt af fegurð, hún flytur hlýju þangað sem var kalt, gerir hið vonda gott, hún lýsir í myrkrinu, gerir fátækan ríkan. Það er hinn undursamlegi leyndardómur tónlistarinnar, að hún túlkar það sem hvorki verður sagt né heldur þagað um.
-- Gylfi Þ. Gíslason, 1983.
|

miðvikudagur, október 25, 2006

Sorg, sorg, sorg

Ég bara trúi því ekki að uppáhaldsbúðin mín í öllum heiminum sé farin á hausinn. Þetta var besta klassíska diskabúð sem ég veit um í heiminum, betri en HMV í London þótt það hafi nú kannski ekki munað miklu. Í Tower Records mótaðist tónlistarsmekkur minn; ég byrjaði að gramsa þar í kjallaranum þegar ég var lítill gutti, og það er ekki lengra síðan en í vor að ég drattaðist þaðan með fulla poka af DVD-diskum. Svo gat maður stundum rekist á fræga tónlistarmenn eins og Kissin eða Hvorostovsky í sömu hugleiðingum og maður sjálfur, sem gerði leiðangurinn ennþá skemmtilegri.

Það er samt eitt sem mér finnst blóðugra en að Tower sé gjaldþrota. Það er að það skuli vera rýmingarútsala í Tower og ég fastur á Íslandi!

Meiri sorg: vesalings dúfan.
|

mánudagur, október 23, 2006

En uge...

Það er ein vika þangað til ég fer. Ég ætlaði að vera búinn að horfa á allar dönsku myndirnar í Laugarásvídeói og lesa danskar bækur á hverju kvöldi, en það hefur nú ekki alveg gengið eftir. Iss, ég bjarga mér einhvernveginn.

Leikhúsið um helgina var ekki eins vel heppnað og ég hafði vonað. Myndin var a.m.k. töluvert mikið betri. Mozart stendur nú samt alltaf fyrir sínu. Og Josquin líka...
|

fimmtudagur, október 19, 2006

Undranemandinn

Ég hef verið svo heppinn að hafa marga góða nemendur síðustu árin, suma meira að segja alveg framúrskarandi. En nú held ég að hápunkti kennaraferilsins sé náð. Ég á a.m.k. erfitt með að ímynda mér að ég muni fá annað eins talent í hendurnar í framtíðinni.

Ég var nefnilega að kenna Mozart að stjórna hljómsveit. Hann er orðinn svolítið ryðgaður í þessu, enda 215 ár síðan hann stjórnaði síðast. Þetta ætti samt að verða flott hjá honum ef hann nær að æfa sig aðeins fyrir laugardaginn.

Spurning hver hringir næst? Beethoven? Schumann? Brahms?
|

sunnudagur, október 15, 2006

Little Miss Britten

Þetta er svo fyndið að ég á varla orð. Dudley Moore tekur Benjamin Britten og Peter Pears svo rækilega í nefið að annað eins hefur ekki sést. Í alvöru, lagið gæti alveg verið eftir Britten, og þetta gæti næstum því verið Pears að syngja... snilld, segi ég!
|

fimmtudagur, október 12, 2006

EDDA I

Ég held það fari bráðum að líða yfir mig af spenningi fyrir laugardaginn. Þetta verður bara svo mikið mega að ég á ekki orð. Kórinn hefði reyndar líklega þurft svona mánuð í viðbót til að æfa, en þá væru þau öll dauð núna, sem væri frekar óheppilegt. Það eru alveg klikkað flottir staðir í þessu verki, og SÍ fær ekki nema smá mínus fyrir að sleppa ocarinunni og sekkjapípunni í þetta sinn.

Hér er tilvitnun í mig varðandi Edduna á blogginu hans Alex, og hér er Lesbókargreinin mín ef einhver missti af henni um helgina. Svo getið þið heyrt mig í beinni útsendingu í Hlaupanótunni á morgun, og live á Hótel Sögu á laugardaginn. Vííí!

Nýjustu fréttir: Það verða bæði ocarina og sekkjapípa á laugardaginn. Sinfó fær stóran plús, og spennan magnast enn. Sjáumst í Háskólabíói!
|

mánudagur, október 09, 2006

Turen går til....

Ja, nu har jeg sgu fået lejlighed! Ih, hvor bliver det spændende!

Min adresse (1. november-21. desember):
Aksel Møllers Have 4,
2000 Frederiksberg

og mit telefonnummer:
+45 883 00 553

Skriv endelig til mig!

PS. Neinei, þetta blogg verður ekki framvegis á dönsku. Þetta er bara svona aðeins til að koma mér í gírinn...
|

föstudagur, október 06, 2006

Af draumum

Það er örugglega frekar algengt að fólk dreymi að það sé búið að fjárfesta í einhverjum nýjum hlut sem það hefur lengi langað í. Ég er viss um að hjá karlmönnum á fertugsaldri snúast þessir draumar yfirleitt um nýja bíla, tölvur, sjónvörp eða farsíma.

En ekki hjá mér.

Í nótt dreymdi mig að ég væri búinn að kaupa mér klavíkord.

Í alvöru, er þetta ekki of langt gengið?
|

fimmtudagur, október 05, 2006

Bravó

Í dag eiga allir að lesa bloggið hennar Önnu Kristjáns. Vel mælt!

Eins gott að ég er ekki áskrifandi að Mogganum.
Þá hefði ég nefnilega þurft að segja honum upp.
|

mánudagur, október 02, 2006

Filmfest

Það er svo gaman á kvikmyndahátíðum. Maður fer í bíó kvöld eftir kvöld og oft á einhverja mynd sem maður veit ekkert um en kemur manni skemmtilega á óvart. Svo lendir maður stundum á spjalli við leikstjóra eða kvikmyndatökumenn sem gefa alveg nýja sýn á allt saman.

Verst hvað myndirnar eru sýndar sjaldan, svo það þýðir lítið að auglýsa þær á blogginu. Pólska myndin um flökkustrákinn og vondu mömmuna var ekki bara mögnuð, heldur sannsöguleg. Heimurinn getur stundum verið svo vondur. Heimildarmyndin um Guantanamo afhjúpaði miskunnarlaust vitleysuna bak við þetta allt saman. Bandaríkin geta stundum verið svo vond. Og vitlaus.

Ef einhverjir fengu ekki nóg af Penderecki í síðustu viku er þeim bent á að mæta í Tjarnarbíó um helgina, því hann er meðal viðmælenda í nýju heimildarmyndinni um Rostropovitsj. Ég hlakka til, enda gæti þetta orðið eina myndin á hátíðinni sem ég fer ekki út af með grátstafinn í kverkunum eða miður mín yfir heimsins grimmd.
|