laugardagur, september 30, 2006

Skyldublogg

Æi það er ekkert að gerast núna. Ekki einu sinni pöddur í ávöxtunum mínum til að lífga upp á bloggið.

Og þó. Ég laumaði mér til dæmis í eftirpartýið á fimmtudaginn og spjallaði við Penderecki. Hann hefur verið í uppáhaldi hjá mér frá því ég heyrði hann stjórna Pólsku sálumessunni þegar ég var fjórtán. Og þessi píanókonsert var bara brill. Uppáhaldskaflinn minn: þegar sálmalagshljómarnir koma sem undirspil við píanóið, eins og maður sé staddur í steiktri nútímaútgáfu af Pachelbel kanóninum. „Ach ja, das Weihnachtslied,“ útskýrði hann svo fyrir mér á eftir. Sætt.

Einhverjir voru nú samt með fýlusvip eftir tónleikana. Of mikil rómantík etc. Og af hverju ekki? Maðurinn lifir ekki á clusterum einum saman. Og ég verð að tékka á áttundu sinfóníunni við tækifæri. Hvern hefði grunað að þessi brjálaði Pólverji ætti eftir að verða Mahler 21. aldarinnar?
|

fimmtudagur, september 21, 2006

The hills are alive...

Allt getur nú gerst. Nú er búið að skikka mig til að fara á ráðstefnu um háskólamál í Salzburg, af öllum stöðum.

Ég veit svosem ekkert hvort þessi ráðstefna verður skemmtileg, en staðsetningin er a.m.k. góð. Ég eyddi sumrinu í Salzburg þegar ég var 15 ára. Það voru spennandi tímar. MH rétt handan við hornið og hormónarnir á fleygiferð. Og algjör upplifun að sjá tónlistarhátíðina í allri sinni dýrð. Síðan hef ég komið þangað tvisvar, síðast með Helga Hrafni og Freyju vorið 2000, ef ég man rétt.

Og nú er ég á leiðinni þangað aftur. Best að skella Sound of Music á spilarann til að komast í réttu stemninguna...
|

þriðjudagur, september 19, 2006

Tilvitnun dagsins

Ekki geta þau lög talist þjóðlög, sem alþýða iðkar eitt eða fleiri ár, en hverfa síðan. Sjerstaklega varist menn að telja þjóðlög þann lagaleirburð, sem hvert ár í nýrri mynd geysar meðal alþjóðaskrílsins. Dásamlegt er, að hið ljelega verður sjaldan langlíft.
-- Jón Leifs, 1922.
|

föstudagur, september 15, 2006

búzt

Mér finnst fátt betra en að búa mér til frískandi ávaxtabúst í hádeginu. Banani, jarðarber, hindber, bláber, appelsínusafi, AB-mjólk og próteinduft. Hin fullkomna uppskrift. Kemur manni alltaf í gott skap og er svona líka bráðhollt.

Þar sem ég gerði mig líklegan til að skola hindberin í dag varð mér litið niður í kassann og sá þar eina feita og fremur ófrýnilega pöddu. Hún var gul, margfætt og með ógnarlanga þreifara, og gerði sig mjög heimakomna ofan á fínu hindberjunum mínum. Enda komin alla leið frá Hollandi til að drekka með mér ávaxtahræringinn minn.

Ég skutlaði hindberjunum í poka og brunaði í Kringluna, hvar ég fékk fjögurhundruðkallinn minn endurgreiddan án nokkurra vandræða.

Ég held það verði samt smábið á því að ég kaupi aftur hindber.
|

mánudagur, september 11, 2006

pæling

Stundum þarf maður allt í einu að taka stórar ákvarðanir, að hrökkva eða stökkva. Og stundum þarf maður að taka litlar ákvarðanir sem geta seinna leitt af sér stórar. Eins og núna. Á ég að sækja um prófessorsstöðuna í miðaldatónlist sem var verið að auglýsa í Bandaríkjunum? Hef ég einhverju að tapa? Og hefði ég eitthvað á móti því að flytja þangað aftur?

Ég hef verið að reyna að rifja upp af hverju ég var svona harðákveðinn í að koma heim þegar ég var búinn með námið. Starfið hljómaði vel, ég var búinn að vera úti í níu ár og kominn með bullandi heimþrá, og hér heima var ákveðin manneskja sem mig langaði að kynnast betur. Það fór nú eins og það fór.

Ég hef það auðvitað ferlega gott og allt það. En ég er ekki lengur með bullandi heimþrá, that´s for sure. Kannski ég slái bara til?
|

miðvikudagur, september 06, 2006

Meira slúður

Kannski spurning um að byrja bara með nýja slúðursíðu? Það er hvort sem er ekkert nýtt að frétta af mér þessa dagana...

Hin heimsfræga BB, sem hefur beilað á Íslendingum tvö ár í röð, hefur aflýst öllum tónleikum sínum. Ekki í mánuð, eða ár. Öllum. Punktur. Og í sömu fréttatilkynningu segir að umboðsskrifstofan hennar sjái ekki lengur um hennar mál.

Nei, hún er ekki búin að missa röddina, hún er ekki dauðvona, og henni er ekki illa við Íslendinga. Maðurinn hennar reyndist hins vegar mesti skíthæll og fór að halda við einkaritarann sinn. Þegar hann valdi skrifstofudömuna ákvað dívan að taka til sinna ráða. Gaurinn var nefnilega líka umboðsmaðurinn hennar. Hérna verður málið aðeins flóknara, kaupmálar og vesen, en allavega. Þetta er snilldarleikur, því umboðsmaðurinn fær ekkert nema hún syngi, og fyrrverandi eiginmaðurinn fær ekkert ef hún hefur engar tekjur.

Köld eru kvenna ráð.
|