fimmtudagur, ágúst 31, 2006

íbúð... og skrif

Mikið er ég ótrúlega ánægður með að vera kominn með íbúð í Kaupmannahöfn. Nánar tiltekið á Friðriksbergi, litla og sæta íbúð í rólegri götu. Leigi hana af Marceau stjarneðlisfræðingi, sem ætlar að vera í Chile í nokkra mánuði. Gott hjá honum. Svona án gríns, ég var farinn að sjá fyrir mér að ég yrði heimilislaus þessa tvo mánuði, og myndi líklega enda með því að fara að rífast við einhvern gaur út af sígarettu og verða hent fyrir lest... Nei, kannski ekki.

Í gær fékk ég líka atvinnutilboð, og ég sem er orðinn svo þrautæfður í að segja nei varð svo himinlifandi og gáttaður að ég sagði bara já. Svo þið munuð innan skamms geta lesið pistla eftir mig í Fréttablaðinu. Ekki krítík, nota bene, heldur hugleiðingar um klassíska tónlist. Hálfsmánaðarlega, og þarf ekki að byrja fyrr en mér hentar. Ég meina, er hægt að neita svona boði? Kvarta og kveina um að klassísk tónlist sé á vonarvöl og nenna svo ekkert að gera í málinu? Ónei, ekki ég.
|

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

slúður

Stundum reynast sannleikskorn í jafnvel svæsnustu slúðursögum. Eins og þessari um unglega stjórnandann sem ég heyrði í London fyrir nokkrum árum, og ýjaði að í einhverju gömlu bloggi. Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist á morgun. Ég held að litlu sætu strákarnir í skólakórnum þurfi a.m.k. að hafa varann á í nóvember.
|

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

leiðrétting

„Snillingurinn ungi“? Nei, ég held að hvorugt standist nú nánari skoðun. En Hér og Nú fær samt prik fyrir góða viðleitni.

Skólinn er kominn í gang, en þar kem ég blessunarlega lítið við sögu. Enda hef ég upp á síðkastið legið yfir vel ígrunduðum, og oftast samþykktum, athugasemdum við kórbókina. Svei mér þá, hún fer kannski bara að verða tilbúin. Hin bókin er á áætlun og vel það. Og hverjum hefði dottið í hug að það væri svona yndisleg tilfinning að vera búinn að skila af sér öllum sinfótextum þangað til í janúar?

Á morgun mun ég hinsvegar líta upp úr grúskinu til að elda
góðan mat og blanda mojito í lítravís. Ó, ljúfa líf...
|

föstudagur, ágúst 18, 2006

Warum?

Af hverju gat þetta ekki komið fyrir mig? Nei í alvöru, ég get engan veginn ímyndað mér dásamlegri dauðdaga. Svo sýnist mér karlbjáninn ekki einu sinni hafa kunnað að meta þetta. Hnuss.

Annars er ég að hugsa um að gera eins og Alex, sem er líka að skrifa bók og hefur því skipt út blogginu sínu fyrir skemmtilega tengla hingað og þangað um músíkheiminn.

Hafið þið til dæmis heyrt Britten tala? Frekar fyndið. Og Youtube heldur áfram að koma á óvart, nú síðast með Music for Solo Performer (1964) eftir Alvin Lucier.

Svo er Konstansa víst ekki Konstansa eftir allt saman. O seisei og bittinú.
|

mánudagur, ágúst 14, 2006

Tilvitnun dagsins (x2)

Það hefur hver sinn djöful að draga
og við höfum Gunnar í Krossinum.
-- Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Það er ekki vandamál samkynhneigðra ef Kirkjan á ekki annað erindi við þá en að segja þeim að leita sér lækninga við þeim kvilla að vera þeir sjálfir.
-- Guðmundur Andri Thorsson
|

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Afrek

Afrek mannanna eru margskonar, og þau geta verið lítil eða stór eftir því hvernig á málin er litið. Ég tel mig hinn mesta afreksmann þessa stundina, því ég hef sannað að með viljastyrknum er hægt að sigrast á hverju sem er.

Ég keypti semsagt engin föt í London. Ef þið eigið erfitt með að skilja hvílík dýpt er fólgin í þessari setningu, hversu magnþrungið orðið "ekkert" er í þessu samhengi, þá býð ég ykkur í heimsókn til að skoða afraksturinn af síðustu Lundúnareisum mínum.

Þetta var samt merkilega auðvelt þegar á hólminn var komið. Ég bara hélt mig í góðri fjarlægð frá öllum fatabúðum, vitandi að ef ég stigi þar fæti innfyrir dyr yrði það dýrt fall og ljótt. Þar af leiðandi fór ég aldrei í Covent Garden - af því þar eru Mexx og Diesel - og gekk ávallt austanmegin á Regent Street - af því French connection er vestantil. Og þetta, börnin góð, var afrek vikunnar, ef ekki mánaðarins.

Annars var þetta feiknagóð ferð, með tilheyrandi Promsi, leikhúsi, hittingum og djammi. En það eru góðir dagar framundan á Íslandi líka. Veisla, brúðkaup, gleðiganga, matarboð, messa. Og í næstu viku verður byrjað á bók. Hvort hún verður meira afrek en fatabindindið í London er hinsvegar alveg óvíst.
|