föstudagur, júlí 28, 2006

Komið að því

Já gott fólk, það er komið að stóru stundinni. Þriðjudagskvöldið
1. ágúst kl. 20.30 munum við Nicole troða upp í Listasafni Sigurjóns. Heiðursgestur kvöldsins: Johann Sebastian Bach, sem samdi þrjár megaflottar gömbusónötur. Og ýmislegt annað sem ekki er slæmt heldur. Saraböndur og allemöndur fá að fljóta með svona upp á grín. Ég lofa hvorki hárkollu né bróderuðum silkiklæðum, en tónlistin er flott og það nægir okkur a.m.k. Og ef einhverjir eru orðnir leiðir á tónleikaplöggi má hugga þá með því að þetta verða síðustu tónleikarnir mínir á árinu. Nú taka við önnur verkefni, og þótt þau séu ekki endilega skemmtilegri en að spila Bach, þá eru þau samt forvitnileg og hafa legið í salti of lengi. Góða helgi!
|

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Af nöfnum

Ég hef alltaf verið frekar ánægður með nafnið mitt. Jafnvel þótt krakkarnir í Æfingaskólanum hafi á endanum fundið upp á lítt skemmtilegum rímorðum („vatnsgeymir“ er eftirminnilegast), og þótt blessaðir Ameríkanarnir hafi aldrei skilið hvernig d-hljóðið kemur málinu við. Nafnið mitt er tvímælalaust það skásta af þeim sem stóðu til boða, og það veit ég af því ég á miðann sem foreldrarnir krotuðu á hinar ýmsu tillögur sem ekkert varð svo úr.

Ég hef líka alltaf verið ánægður með að það er enginn annar sem heitir nákvæmlega sama nafni og ég. Og bara þrír aðrir sem hétu fyrstu tveimur nöfnunum; reyndar fækkaði okkur um einn nú í vikunni. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að fólk ruglaðist, og það oft, á mér og hinum ýmsu hálfnöfnum mínum í tónlistargeiranum. Atli Heimir, Árni Heiðar, Atli Ingólfsson... ég skil það ósköp vel að fólk fái ekki botn í þetta allt saman. Árni Heiðar fékk einkunnirnar mínar í Tónó í mörg ár, og það er ekki lengra síðan en í janúar að ég var kallaður tónskáld í beinni útsendingu á Rás 2. Sem kemur held ég líka til af því að „venjulegt“ fólk á mjög erfitt með að skilja nákvæmlega hvað tónlistarfræðingar gera. Flestum finnst að það hljóti að fela í sér einhvers konar tónsmíðavinnu. Ojæja.

Í dag brá mér samt heldur en ekki í brún þegar ég fékk tölvupóst frá Árna Heimi Ingimundarsyni. Þetta leit fyrst út eins og einhver furðulegur brandari: var búið að bræða okkur Jónas saman í eina manneskju? En nei, þá er þetta yngri nafni minn sem hefur áhuga á sembalspili. Skrýtin tilviljun? Ég er a.m.k. forvitinn að vita meira um hann. Ef hann getur nefnt allar ABBA-plöturnar og horfir á Sound of Music í laumi þá er eitthvað MJÖG furðulegt í gangi...
|

mánudagur, júlí 17, 2006

Heppinn

Einhver þau dapurlegustu örlög sem ég veit er þegar tónlistar- fræðingar eyða lífinu í rannsóknir á tónlist sem þeir fá svo aldrei að heyra flutta. Það er bara of mikið af tónlist til í heiminum, og þótt grúppurnar sem sérhæfa sig í gamalli tónlist væru helmingi fleiri myndu þær aldrei komast yfir helminginn. Einn prófessor í Princeton hefur t.d. skrifað upp fleiri tugi af endurreisnarmessum, en heyrir þær aldrei nema sem MIDI-fæla á tölvunni sinni. Ömurlegt.

Þess vegna finnst mér ég vera algjör hamingjuhrólfur, eins og minn gamli píanókennari orðaði það einu sinni, að hafa aðgang að öllu þessu flinka fólki sem er tilbúið að eyða tíma og kröftum í að æfa það sem ég hef upp úr grúskinu. Þetta var alveg stórskemmtilegt og allir í banastuði. Nú er bara að vona að upptökurnar takist jafn vel.

En það eru fleiri hamingjuhrólfar en ég. Reyndar er gleðin bara úti um allt þessa dagana. Vinir manns að verða ástfangnir, vinir manns að vinna keppnir, vinir manns á leið á kóramót, vinir manns á leið aftur heim til Íslands. Gott stöff.

London eða Reykjavík um verslunarmannahelgina?

Æi, hvern er ég svosem að reyna að plata? Ég er löngu búinn að ákveða mig...
|

laugardagur, júlí 08, 2006

Skrekkur

Það er ekki laust við að um mig fari nettur hrollur þegar ég hugsa til þess að eftir þrjár vikur mun ég koma fram sem sembalsólisti í annað skiptið á ævinni. Fyrra skiptið var sko í Michigan sumarið 1991. Svo það er hætt við að maður hafi ryðgað eitthvað aðeins síðan þá. Og ég er ekki einu sinni kominn með lyklana að Stekk. Æ, þetta verður samt skemmtilegt.

Svo verða allir að mæta í Skálholt um næstu helgi. Nokkrir vinir mínir úr Carminu, ásamt tveimur frábærum gestasöngvurum (Mörtu Halldórs og Vigni) og barokksveit ætla að flytja lög úr Melódíu, íslensku handriti sem ég er búinn að vera að grúska í síðustu árin. Þarna verða m.a. sungnir madrígalar, lútusöngvar og annað góðgæti. Hvað sem hver segir þá var Ísland bara alveg með á nótunum á 17. öld, tónlistarlega séð. Jæja, ókei, a.m.k. ekki meira en svona 50 árum á eftir...
|

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Tilvitnun dagsins

Af mér er alt sæmilegt að frétta - eg er heimskur annan daginn og dálítið gáfaður hinn, eins og eg hefi altaf verið, og með þessu móti smáþroskast maður nær hinu langþráða marki: að hafa skrifað bók! Ef maður væri skáld á hverjum degi, frá morgni til kvölds - þá væri gaman að lifa!
En ástandið í heila mínum er jafnbreytilegt (og jafnóviðráðanlegt) og loftslagið í Reykjavík: Einn dagurinn byrjar með gráum himni - en undir kvöld verður heiðskírt með norðurljósum, annan daginn drungi í lofti frá morgni til kvölds, hinn þriðji rennur upp bjartur og fagur - o.s.frv. Heima segja þeir fyrir um veðrið næstu 24 stundir - en eg veit aldrei fyrirfram hvort hausinn á mér verður í lagi næsta klukkutíma.
- Kristján Albertsson, 1929.
|

mánudagur, júlí 03, 2006

Þetta var magnað. Það eru algjör forréttindi að fá að vinna með svona fólki: frábærir söngvarar og einstök ljúfmenni í þokkabót. Enda er Andrew búinn að panta að koma aftur. Sem og hinir Englendingarnir. Það fer að verða spurning um að kaupa ráðandi hlut í Iceland Express með þessu áframhaldi...

Annars var ég næstum búinn að kaupa farseðla fyrir Carminu til Englands núna í morgun. Andrew fékk símtal þar sem við vorum að kaupa kort í Rammagerðinni: rússneskur kór fékk ekki vegabréfs- áritun á einhverja tónlistarhátíð, var með bókaða tónleika núna á laugardaginn, gæti kórinn hans Andrews hlaupið í skarðið? Það gekk ekki upp en hann mælti með okkur í staðinn, og í svona hálftíma gengu spennuþrungin símtöl fram og til baka milli Reykjavíkur og London til að sjá hvort þetta gæti orðið að veruleika. En einhverjir voru með löngu bókaðar æfingar/tónleika svo það verður ekkert úr Englandsferð fyrr en næsta sumar. Pottþétt, og með meira en fimm daga fyrirvara.
|