laugardagur, júní 24, 2006

Skálholt

Jæja, þá fer þetta allt að bresta á. Ég fer í Skálholt á þriðjudaginn með Carminu, og við höldum tónleika þar laugardaginn 1. júlí kl. 15. Þetta verður alveg frábært, Andrew snillingur ætlar að stjórna okkur, og svo fáum við þrjá enska söngvara og raddþjálfara í þokkabót. Við Íslendingarnir erum búnir að hittast nokkrum sinnum og kunnum þetta orðið nógu vel til að keppa við ensku blaðlestrarfríkin. Efnisskráin samanstendur af eintómum gullmolum, harmljóðum eftir Josquin, Victoria, Byrd og fleiri meistara. Gunnar Eyjólfsson ætlar að lesa viðeigandi texta milli verkanna, og Andrew heldur fyrirlestur á undan tónleikunum.

Það er bara ekkert skemmtilegra en að syngja endurreisnartónlist. Ekki einu sinni að spila á sembal.

Og ef þetta var ekki nördalegasta yfirlýsing í heimi, þá veit ég ekki hvað.
|

fimmtudagur, júní 22, 2006

Forza Italia!

Áfram Rimini. Af því þar er alltaf sól og 30 stiga hiti, ef það er eitthvað að marka síðustu viku. Áfram Ravenna. Þrátt fyrir að Rostropovitsj hafi verið á spítala, því að Temirkanov stóð sig bara nokkuð vel. Og af því ég tek Tíundu fram yfir Elleftu hvenær sem er. Áfram HM. Af því það er svo miklu skemmtilegra að horfa á fótbolta á Ítalíu. Áfram mojitos. Það bara segir sig sjálft.

Áfram Mummi. Af því San Vitale var alveg þess virði.

Og, þótt það komi þessari færslu annars ekkert við: Áfram Amadeus. Vísindavefurinn er búinn að birta svarið mitt við spurningunni „Hversu sannsöguleg er myndin Amadeus?“ Kannski ekki alveg, en hún er drullugóð samt. Buona lettura!
|

miðvikudagur, júní 14, 2006

Massacre du printemps

Ég er vonandi ekki einn um það – ég er nú nógu skrýtinn samt – að óska mér þess að ég hefði getað verið viðstaddur ýmsa merkis- viðburði tónlistarsögunnar. Ef ég hefði aðgang að tímavél veit ég svona nokkurnveginn hvar ég myndi byrja. Apríl 1724 hefði verið góður tími til að vera í Leipzig (Jóhannesarpassían), í október 1787 hefði ég viljað vera í Prag (Don Giovanni) og Vínarborg 1824 er líka ofarlega á listanum (9. sinfónían).

Hvergi hefði ég þó frekar viljað vera en í París 29. maí 1913. Og nú get ég hætt að láta mig dreyma, því að BBC er búið að gera bíómynd um þetta örlagaríka kvöld í Thêatre des Champs-Elysées. Og það verður bara að segjast þeim til hróss að þetta er nokkurn veginn eins sagnfræðilega pottþétt og hugsast getur: dansinn og búningarnir, gleraugun hans Ígors, Sergei uppi á stólnum að telja – meira að segja tannlæknakommentið fékk að fljóta með. Auðvitað hefur fólkið ekki ragnast og bölsótast á ensku, og það er ekki séns að hljómsveitin hafi spilað svona vel. En þetta er samt sniðugt. Og á meðan herlegheitin eru ekki enn komin út á DVD getið þið tékkað á þeim hér og hér (1. hluti) og hér og hér (2. hluti)...
|

þriðjudagur, júní 13, 2006

In memoriam

Györgi Ligeti, eitt mesta tónskáld 20. aldarinnar, lést í morgun. Ég ætla ekkert að fjölyrða um hans miklu snilligáfu eða meistaraverk sem ekki gleymast. Maðurinn var ótæmandi náma innblásturs og frumleika, eins og Atmosphéres, fiðlu-og píanókonsertarnir, píanóetýðurnar, og ótal mörg önnur verk bera vitni um. Hér er opinbera yfirlýsingin frá útgefandanum; hér er yndisleg grein eftir Alex Ross, sem tekst eins og venjulega að komast nær kjarnanum en flestum öðrum tónlistarskríbentum.

Það er ekki laust við að maður fari að sofa með trega í hjarta.
|

mánudagur, júní 12, 2006

Tilvitnun dagsins

„Satt er það, að Íslendíngar eru sem heild fremur ósívilisérað fólk, t.d. í samanburði við mandarína í Kínlandi, en þá er bara að ímynda sér, að maður sé staddur í Angmagsalik eða Ivigtut, og þá undrast maður yfir því hvað fólk hér er sívilisérað.“
(HKL, 1930)

Hamingjuóskir dagsins fara svo til litlusystur, sem fékk atvinnuleyfið endurnýjað og er því hvorki á leið til Reykjavíkur né Angmagsalik í bráð.
|

fimmtudagur, júní 08, 2006

Bleh

Það er bara eitt jákvætt við að vera búinn að skrifa prógrammtexta fyrir Tsjajkofskíj 4.

Ég þarf aldrei að gera það aftur.

Annars er ég búinn að segja nei við fyrirlestraferð til Ameríku. Ég meina, Kansas City? Ekki nógu spennandi. Held hún sé jafnvel leiðinlegri en Columbus, og þá er nú mikið sagt. Og LA er bara of langt í burtu til að ég geti verið að þvælast þangað á miðri önn.

Svo þið sjáið að ég er að læra að segja nei. Enda eins gott. Ég skal klára þessa bók fyrir jól, sama hvað hver segir. Svo ef þið þurfið að biðja mig um eitthvað er svarið Nei. Eða a.m.k. Nei, ekki fyrr en í janúar...
|

fimmtudagur, júní 01, 2006

Í skotskóna

Játning: ég er ömurlegur í fótbolta. Og öllum boltaíþróttum yfirleitt. Það var fljótt ljóst hvert stefndi: ég eyddi æsku minni í að glamra á píanó og hlusta á söngleiki, og þegar það var valið í lið í leikfimi eða frímínútum var ég iðulega valinn síðastur. Tja, næstsíðastur allavega.

Ég hef verið að reyna að rifja upp hvenær ég fór síðast í fótbolta.
Ég held það hafi verið sumarið 1993, í kórferðalagi í Bergen. Við bjuggum á stúdentagarði og þar var ágætis völlur sem var notaður í hópeflisleiki á kvöldin eftir æfingar. Þetta var góður kór og vel heppnuð ferð og það var öllum sama þótt ég væri ömurlegur í fótbolta.

En nú lítur út fyrir að nýtt tímabil sé að hefjast í lífi mínu. Ég hef verið boðaður á fótboltaæfingu á Miklatúni á sunnudaginn. Fyrstu viðbrögðin voru reyndar að Haffi hlyti að hafa sent sms í vitlaust númer, en þegar ég athugaði málið kom í ljós að svo var ekki.

Það á semsagt að safna saman gaurum sem eru með mér í liði – í yfirfærðri merkingu, nota bene. Og eftir því sem ég hugsa meira um þetta, þeim mun sannfærðari er ég um að ég hljóti að koma nokkuð vel út úr þessum samanburði. Jafnvel þótt þetta verði ekki bara tómar dragdrottningar, þá hlýt ég samt að vera fyrir ofan meðallag í svona hópi. Nú er komið að því að sýna hvað í mér býr. Ég verð að setja mér skýr markmið fyrir sunnudaginn. Framherji? Fyrirliði? Markakóngur? Við fótboltaheiminn hef ég aðeins eitt að segja:
Minn tími er kominn.
|