mánudagur, maí 29, 2006

Heim... í bili

Ég held að það þurfi að setja mig í farbann. Ég er varla kominn heim og næsta ferðalag er rétt handan við hornið. Ég er semsagt á leið í ítölsku sólina. Þetta verður algjör afslöppun: sólböð, sjávarbusl, rauðvínsdrykkja og pizzuát.

Eins og sönnum nörd sæmir tókst mér þó að troða menningu inn í ferð sem átti annars að vera laus við allt svoleiðis. Ég er semsagt að fara að sjá Rostropovitsj stjórna Sinfóníu nr. 11 eftir Sjostakovitsj, í Ravenna af öllum stöðum. Skrýtið að heyra nr. 11 tvisvar á tveimur vikum, því hún er eiginlega aldrei spiluð. Sem minnir mig á að ég verð að skrifa prógrammtextann og það strax.

Svo er ég bara sæmilega sáttur við úrslitin á laugardaginn. Og ég er bjartsýnni á meirihlutaviðræður en ég var í gær.

P.S. Neineinei, hvað á þetta að þýða? Sjálfstæðisflokkur með Vinstri-grænum hefði verið meira en ásættanlegt, en ex-bé? Kommon!
|

sunnudagur, maí 21, 2006

O lame movie!

Það er í alvöru fólk með mótmælaspjöld fyrir utan bíóin hérna. Spurning hvort þau komu af sjálfsdáðum eða voru ráðin af markaðsfræðingum myndarinnar?

Bókin var betri. Miklu betri.

Rútan bíður, eða réttara sagt bíður ekki, svo ég þarf að koma mér af stað. Næstu daga verð ég á bókasafninu fram á kvöld, sem er ekki jafn leiðinlegt og það hljómar þegar bókasafnið er jafn gott. En það er hætt við að ég bloggi lítið á meðan. Yfir og út.
|

fimmtudagur, maí 18, 2006

Silvíunæturblogg

Ég hafði nú ætlað að gera annað í New York en að blogga um Silvíu Nótt. En ég gat ekki staðist freistinguna að horfa á söngvakeppnina á netinu. Og varð fyrir vonbrigðum. Ekki þó með úrslitin, heldur með íslenska framlagið.

Látum vera að hún stóð sig verr en hún gerði heima á Íslandi. Hún var greinilega stressuð, andstutt og átti í vandræðum með að syngja hreint. Ég hefði líka verið stressaður að syngja þarna, vitandi að svona margt fólk um alla Evrópu hugsaði mér þegjandi þörfina.

Ég held líka að þessi aukna tilgerð hennar á sviðinu - líklega einhvers konar last-minute tilraun til að gera áhorfendum ljóst að hún væri "bara karakter" - hafi ekki náð í gegn. Af sömu ástæðu og hún náði ekki í gegn dagana á undan.

Vandinn við Silvíu Nótt er að hún er hvorki né. Hugmyndafræðin bak við persónuna hefur aldrei verið útfærð nægilega vel til að við - eða hún - vitum um hvað málið snýst í raun og veru. Jú, gott og vel, hún getur verið "ádeila" á heimóttarlega Íslendinga sem halda að þeir viti og kunni allt. Hún getur verið ádeila á fræga fólkið í útlöndum sem er bara frægt fyrir að vera frægt. En einhvers staðar í miðju ferlinu er eins og markaðsfræðingarnir - eða græðgin - hafi gripið í taumana og rústað annars góðu konsepti. "Þú græðir meira á því að vera vinsæl hjá 8-14 ára stelpum". "Þú verður ennþá frægari ef þú kemst í Eurovision".

Þar með var leikurinn úti. Ádeilan var aldrei hugsuð fyrir Eurovision, eða 8-14 ára stelpur. Stelpurnar fara - skiljanlega - að skæla þegar Silvía mætir ekki á einhverja bensínstöð til að árita nýja geisladiskinn sinn. Og fyrir Evrópu er Silvía Nótt bara dónaleg stelpa sem ætti að senda aftur á ísjakann sinn með næstu flugvél. Enginn skilur "ádeiluna" af því að Silvía er sjálf löngu búin að gleyma henni í glamúrnum sem fylgir því að vera stjarna.

Og ég verð bara að viðurkenna - þrátt fyrir alla þjóðerniskennd - að ég var ánægður með þá sem púuðu í Aþenu í kvöld. Það sýndi að sumstaðar skipta kurteisi, heiðarleiki og hæfileikar ennþá máli. Vonandi að 8-14 ára stelpurnar á Íslandi læri lexíuna og finni sér ný átrúnaðargoð sem fyrst.
|

þriðjudagur, maí 16, 2006

Óperufíkill í New York

Rodelinda var bara ðe sjitt. Ég held ég hafi aldrei upplifað jafn gjörsamlega fullkomna óperusýningu. Það var ekki einn einasti veikur hlekkur, en auðvitað voru Renée og Andreas alveg einstaklega guðdómleg. Efirminnilegustu sekúndurnar á öllum mínum óperuferðum voru þegar þau voru að klára dúettinn í 2. þætti og héngu óendanlega lengi á næstsíðasta tónbilinu. Ég á hreinlega aldrei eftir að gleyma þessu: 4000 manns héldu niðri í sér andanum og vonuðu að þessi sjöund myndi aldrei leysast.

Ég ætla semsagt AFTUR á Rodelindu á föstudagskvöldið. Já ég veit, ég er snarbilaður. En svona söng heyrir maður ekkert alltof oft á ævinni, svo ég ætla að njóta þess út í ystu æsar. Svo er Andreas Scholl bara alveg geðveikt sexý náungi, og alveg peninganna virði einn og sér.

Merkilegt annars, að þegar ég steig út úr flugvélinni fékk ég þessa "ég er kominn heim"-tilfinningu. Hvað ætli ég þurfi að búa lengi á Íslandi til að hætta að fá heimkomufiðring þegar ég kem hingað?
|

þriðjudagur, maí 09, 2006

Der kritische Musicus

Er eftirsóknarvert að vera gagnrýnandi? Maður fær vissulega borgað fyrir að fara á tónleika, en maður þarf líka að geta tjáð skoðanir sínar á afgerandi hátt. Bestu gagnrýnendurnir eru þeir sem þora að tala tæpitungulaust, slá jafnvel um sig með stríðsfyrirsögnum, en hafa um leið innsæi og næmni og tekst alltaf að hitta naglann á höfuðið. Og gera sig skiljanlega á mannamáli.

Er eftirsóknarvert að vera gagnrýnandi á Íslandi? Við erum jú ógnvekjandi lítið samfélag tónlistarmanna. Allir eru ýmist ættingjar einhvers, giftir einhverjum eða hafa verið það, hafa haldið tónleika með manni, eru vinir eða óvinir þessa eða hins, o.s.frv. Það er erfitt að vera hlutlaus í smábæ. Og Reykjavík er að þessu leyti óttalegur smábær. Svo er íslenskt tónlistarfólk kannski hörundsárara en annarsstaðar, út af nálægðinni. Ég man ekki eftir því að hafa séð undirskriftasafnanir í New York Times til höfuðs Bernard Holland eða Tony Tomassini þótt þeir gefi ekki öllum góða krítík.

Í dag var ég beðinn um að vera þriðji tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins. Ég sagði nei. Það er bara ekkert starf í tónlistargeiranum sem mér finnst jafn lítið spennandi. Mér finnst nefnilega alltof gaman að fara á tónleika til að ég þori að eyðileggja það með því að gera það að vinnunni minni.
|

mánudagur, maí 08, 2006

1601 orð

Hvað er það með mig og málræpu? Þegar ég kenni er ég stundum hálfhræddur við að opna munninn, af því ég veit að þá fer bara af stað einhver romsa sem ég veit ekkert hvar endar eða hvort ég mun nokkurntímann geta stöðvað. Það yrðu nú í meira lagi dapurleg endalok. Tónlistarfræðingurinn sem gat ekki hætt að tala. Hvað haldið þið að yrði gert við mig?

En já, hann er semsagt aðeins lengri en þrjú orð. Þeir sem nenna að lesa hann geta gert það hér. Svo er auðvitað alltaf hægt að mæta bara og hlusta á tónlistina án þess að láta segja sér neitt, enda þarf enginn að taka prógramm eða lesa það frekar en hann vill.

„Dauði og djöfull“ hefði samt verið kúl.
|

föstudagur, maí 05, 2006

Mahler 6

Á fimmtudaginn kemur flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands hina magnþrungnu sjöttu sinfóníu Gustavs Mahlers.

Í þetta sinn er ég spá í að láta prógrammtextann bara vera þrjú orð:

Dauði og djöfull.

Mér finnst þetta segja allt sem segja þarf.
|

miðvikudagur, maí 03, 2006

Þegar stórt er spurt...

Í dag náði nörddómur minn nýjum hæðum. Vísindavefurinn bað mig að svara spurningu um tónlist. Er hægt að komast lengra á framabraut vísindanna? Enda sagði ég strax já. En 500 orða hámark? Fyrir svona spurningu? Guð hjálpi mér.

„Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er?“

Hmm. Hvar á ég að byrja?

Annars er ég himinlifandi yfir því að þessi bók skuli loksins vera komin út. Ég er búinn að bíða í sex ár eftir framhaldinu, því fyrra bindið er ein allra besta tónskáldaævisaga sem ég hef lesið. Og já, ég hef lesið þær nokkrar. Stravinskí er bara svo mikill töffari að ég gæti bráðnað.
|