föstudagur, apríl 28, 2006

Blablabla

Ég var að klára texta fyrir BIS, sem eru að gefa út nýjan geisladisk með tónlist Hauks Tómassonar. Ég átti að skila honum fyrir ári síðan. Er ég að verða algjör trassi? Ég sem var einu sinni svo pottþéttur að ég hefði getað dáið úr samviskusemi? Já, kannski er ég að þroskast aðeins, svei mér þá. Ég er nú mest hissa á því að þeir skuli ekki hafa gefist upp á mér og beðið einhvern annan, en svona er þetta.

Tvær vikur. Og nú segist Nico sæti vera með einhver crazy plön sem ég má ekki vita af. Úlala, ég segi ekki meir.

Hver vill annars gefa mér sembal? Nei svona án djóks, er ég búinn að vera að spila á vitlaust hljóðfæri í öll þessi ár?
|

mánudagur, apríl 24, 2006

Spenntur

Af því sumarið er að koma. Held ég. Ætli það verði hætt að snjóa í júní?

Af því ég á miða á Rodelindu. Renée Fleming og Andreas Scholl að syngja Händel, er til nokkuð flottara? Svo á ég líka miða á Sweeney Todd, sem Kristinn og fleiri eru búnir að lofa í hástert.

Af því það er alltaf gaman að spila á sembal. Sem ég mun gera á sunnudagskvöldið kl. 20 í Salnum. Og líka annan föstudag á sama tíma. Þeir sem fíla ekki Corelli eru bara lúserar.
|

mánudagur, apríl 17, 2006

Eitt svívirt smáblóm

Aldrei hefði mér dottið í hug að Herbert von Karajan og Berlínarfýlan hefðu hljóðritað íslenska þjóðsönginn.

Ég er samt ekki sáttur. Tempóið er í hraðasta lagi. Það vantar cymbalcrashið sem er eina afsökunin fyrir að spila þjóðsönginn í hljómsveitarútgáfu yfirhöfuð. Og svo er „Anonymous“ skrifaður fyrir öllu saman. Ég legg til að við slítum allt stjórnmálasamband við Þýskaland þangað til Sveinbjörn gamli hefur fengið uppreisn æru. Styrjaldir hafa verið háðar af minna tilefni.

Hnuss.
|

BBC3

Smá viðbót við færsluna á undan: ef ykkur langar að heyra Jóhannesarpassíuna með Stephen Layton, með smá Mozart forspili á la Víkingur Heiðar, þá er þetta slóðin. Tóngæðin eru reyndar ekki fyrsta flokks, því miður. Veljið "all BBC classical music..." og svo St. John Passion... góða skemmtun!
|

laugardagur, apríl 15, 2006

Kominn

Hápunktur ferðarinnar: Oxford. Ég fékk gestaprófessorsíbúðina í Magdalen college, sem var stútfull af antíkhúsgögnum og með einhverju því ótrúlegasta útsýni sem ég hef séð. Ekkert nema 500 ára meistaraverk í byggingarlist hvert sem litið var. Svo var farið með mig í skoðunarferð um skólann. Meðal hápunktanna eru nokkur ítölsk málverk frá 14. og 15. öld, stærsta safn af Turner-skissum í einkaeigu, og vínkjallari sem liggur undir allri heimavistinni og hefur að geyma áfengi fyrir eitthvað rúmlega milljón pund. Ójá.

Ekki það að London hafi verið neitt leiðinleg. Í dag fór ég t.d. á þá flottustu Jóhannesarpassíu sem ég hef nokkurntímann séð eða heyrt. Kórinn heitir Polyphony og var hreinasta dúndur. Stephen Layton er greinilega frábær kórstjóri. Ég gæti talið upp endalaus lítil smáatriði sem létu mann heyra verkið eins og það væri í fyrsta sinn, en samt án þess að það væri nokkurn tímann tilgerðarlegt. Áhrifamest: þegar kórinn söng endurtekningarnar á sálmalögunum a cappella. Líklega hæpið út frá sögulegu sjónarmiði, en þegar kórinn er svona góður er maður bara feginn að heyra hann syngja án undirleiks. Svo, ef þið hafið tækifæri til að sjá Stephen Layton stjórna kór, eða bara standa á höndum eða bora í nefið - ekki missa af því. Maðurinn er snillingur og ég hugsa að hann geri þetta allt með jafn miklum bravúr og innlifun.

Smá viðbót: Tónleikunum var útvarpað á BBC3 og mamma hlustaði í beinni heima á Íslandi. Sem er nú ekki í frásögur færandi nema vegna þess að beint á undan tónleikunum var leikin píanósónata eftir Mozart, sem var afkynnt með þeim orðum að þarna hefði leikið íslenski píanistinn Víkingur Heiðar Ólafsson... gaman að því.

Og nú: ritgerðir og próf, seinni hluti. Ó mig auman.
|

föstudagur, apríl 07, 2006

Farinn

Hvað var ég að spá að ætla bara að vera fimm daga í London? Þetta er allt of stuttur tími: ég þarf a.m.k. tvo daga í British Library og einn í Oxford, á miða á eina tónleika og eitt leikhús, og þarf að hitta svona tíu manns þar fyrir utan. Og eins og allir vita þarf ég að minnsta kosti hálfan dag í HMV. Jæja, þetta hlýtur að ganga upp einhvernveginn. Og ef ekki, þá er það bara góð afsökun fyrir að fara aftur til London seinna í vor. Það gæti verið verra.

Annars er París alveg málið núna. Ég væri að minnsta kosti alveg til í að fara í Bastilluna og heyra þessa óperu...
|

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Herra Utanviðsig

Fyrir um tveimur vikum var ég að keyra heim úr skólanum og datt í hug að það væri sniðugt að taka bensín á bílinn. Ég dæli og dæli, fer svo inn á stöðina og ætla að borga. Kemur þá í ljós að ég er ekki með veskið mitt á mér. Engan pening. Niente. Alveg staurblankur. Ég fór auðvitað í algjöran mínus, en það vildi hins vegar svo vel til að bensínstöðin er beint á móti Rauðalæknum. Ég stamaði því upp úr mér að ég ætti heima rétt hjá og hvort ég mætti ekki bara hlaupa heim og sækja veskið, ég yrði kominn aftur eftir tvær mínútur. Afgreiðslufólkið samþykkti þetta en fannst ég nú heldur fyndinn með þetta allt saman.

Í gærkvöldi var aftur komið að því að taka bensín. Þar sem ég labba inn á bensínstöðina tekur á móti mér afgreiðslustúlka með íbyggið glott á vör. „Jæja, mundirðu eftir veskinu núna?“

Ég er semsagt orðinn frægur á bensínstöðvum Reykjavíkur. Gaurinn sem gleymdi veskinu sínu heima. Þetta fer beina leið í Utanviðsig-annálana, ásamt því þegar ég gekk í ósamstæðum skóm heilan dag, fór í vitlaust bíó á kvikmyndahátíð og þurfti að lauma mér út meðan leikstjóri myndarinnar hélt hátíðarræðu, og þegar ég hélt heilan fyrirlestur með opna buxnaklauf. Það síðastnefnda var nú buxunum að kenna en ekki mér. Garg!
|