miðvikudagur, mars 29, 2006

Requiem...

Er hægt að deyja úr BA-ritgerðum? Það hlýtur þá að koma í ljós fyrr en síðar, því hér sit ég með laglegan bunka fyrir framan mig og reyni að telja í mig kjark til að hefja lesturinn. Þegar því er lokið má ég svo fara yfir 15 tónbókmenntapróf og 11 lokaverkefni í íslenskri tónlistarsögu. Ó mig auman.

Það var greinilega ekki vel til fundið hjá mér að byrja að lesa þessa bók um helgina. Hún er snilldarvel skrifuð og öll hin athyglisverðasta, en 912 blaðsíður, ofan á þessar skrilljón sem nemendur mínir hafa verið svo elskulegir að leyfa mér að lesa? Ég held ekki.

Eins gott að sjónvarpið er ekki komið. Þá fyrst yrði þessi sitúasjón tragísk.
|

laugardagur, mars 25, 2006

Fallinn

Eins og flestir vita er ég eldgamall munkur inn við beinið, hlusta á miðaldamúsík, grúska í bókum dag og nótt, og gæti örugglega lifað furðu lengi á vatni, brauði og rauðvíni. Undanfarið hefur þó verið að saxast töluvert á munkalifnaðinn, og nú er enn eitt vígið fallið. Ég hef ákveðið að kaupa mér sjónvarp.

Reyndar hef ég næstum því ekkert horft á sjónvarp frá því ég flutti hingað, og er þess vegna ekkert inni í því hvaða þættir eru á dagskrá og á hvað maður á að vera að horfa. Ég hlýt nú samt að geta fundið út úr því. Hver veit, kannski verð ég kominn á kaf í America´s Top Model, Bachelor og Ædol áður en árið er úti? Kannski fer ég að blogga endalaust um nýjustu flétturnar í Lost eða 24? Nei, ég á örugglega eftir að finna mér einhverjar dýralífsmyndir og sænska framhaldsþætti, það er víst lítil hætta á öðru....
|

þriðjudagur, mars 21, 2006

Marinn

Sjúkraþjálfarinn fór hamförum á vinstra lærinu á mér í dag. Hann hefur líklega haldið að þetta væri nudd, en ég er meira á því að þetta hafi verið dulbúnar barsmíðar eða þaðan af verra. Hann hjakkaðist á mér í hálftíma, hnoðaði og potaði og hnoðaði meir. Að lokum tók hann fram olnbogann og lagðist af fullum krafti á lærið. Ég býst við marblettum á morgun. Fleiri en einum.

Á kvöldin sit ég svo og gef sjálfum mér raflost fyrir framan sjónvarpið. Þetta er sjúkraþjálfara-útgáfan af EasyTrim, sem ég á að nota á mitt marða læri á hverju kvöldi, til að koma upp massa í þessum eina vöðva sem er erfitt að einangra með venjulegum æfingum. Hingað til hef ég staðist freistinguna að skella tækinu á fleiri staði, t.d. magann. En það væri kannski hugmynd að hætta bara í Hreyfingu og láta raflostin nægja? Ég get hvort sem er ekki látið sjá mig þar meðan ég er allur blár og marinn. En það er semsagt mikið stuð á mér þessa dagana, þó það nú væri...
|

miðvikudagur, mars 15, 2006

Svekktur?

Já, kannski pínu. Ég er ekki að fara til Kína. Þeir beiluðu alveg á skipulaginu, það síðasta sem heyrðist frá þeim var hvort hljómsveitin frá Íslandi gæti ekki frekar komið í maí? Kína: -12 stig. Rut ákvað semsagt að draga okkur út úr þessu strax frekar en að lenda í enn meiri vandræðum seinna.

En fátt er svo með öllu illt, o.s.frv. Ég ætlaði alltaf að koma við í London í þrjá daga á heimleiðinni, en nú er ég búinn að negla niður vikuferð. Jibbí. Ekki síst þar sem ég næ tónleikum með Tallis Scholars (Victoria Requiem) og líka Jóhannesarpassíunni á föstudaginn langa, með Emmu Kirkby og öðru öndvegisfólki. Svekktur? Ekkert svo.

Ég er hins vegar verulega fúll út í rennilásinn á fínu MEXX-gallabuxunum mínum, sem er ónýtur. Hann bara rennir sér sjálfkrafa niður á methraða, svo ég er ýmist með opna buxnaklauf eða stend vandræðalegur úti í horni við að reyna að koma málunum í lag án þess að það sé of áberandi. Ætli þetta útskýri ekki allt flissið í tónbókmenntum í morgun? Fussumsvei.
|

sunnudagur, mars 12, 2006

Við mælum með:

- Pétri Gauti í Þjóðleikhúsinu. Frábær leikur, einföld en áhrifamikil sviðsmynd, og flott þýðing sem á örugglega eftir að höfða til yngri kynslóðarinnar. En ég meina það, ef ég fer á eina íslenska leikhússýningu í viðbót þar sem karlmaður er hengdur upp á löppunum, þá labba ég út. Í alvörunni, er ekki löngu komið nóg?

- Fyrst ég var nú að blogga um Seinni Vínarskólann, þá er þetta pínu fyndið. Sérstaklega búturinn með fiðlukonsertinum eftir Berg. Söguna bak við þetta getið þið fundið á blogginu hans Alex, sem er alveg bráðskemmtilegt.

- Laugardögum á Þjóðarbókhlöðunni. Laugardagar eru bestu dagarnir ef maður vill komast í gegnum svosem eins og einn vænan bréfabunka. Handritadeildin er svo gott sem tóm, sem þýðir að maður getur leyft sér ýmislegt. Í gær setti ég símann minn til dæmis ekki á silent og sat þó yfir grúskinu í fjóra tíma. Já, kæru vinir, ég lifi á yztu nöf.
|

föstudagur, mars 10, 2006

Vikulega bloggið

Æi já, ég biðst forláts. Eftir góða spretti undanfarið er ég aftur orðinn einn af vikulegu bloggurunum. Líf mitt er bara ekki meira spennandi en það, lesendur góðir.

Þessi vika fór aðallega í Jón Nordal. Notaleg heimsókn á Skeljatanga, frábært afmæli í Iðnó, magnaðir tónleikar í gærkvöldi. Og, hvað vinnuna snertir: tvö útvarpsviðtöl, sinfóprógramm, sinfókynning og Lesbókargrein. Fullmikil pressa kannski, ekki síst Lesbókargreinin sem var pöntuð af mér á mánudagskvöld og á að birtast á morgun. En ég kvarta ekki, því það eru forréttindi að fá að tjá sig um svona góða tónlist.

Svo kemur það mér alltaf dálítið á óvart hvað mér finnst gaman að kenna Seinni Vínarskólann. Hefur reyndar batnað mjög með nýju kennslubókinni, þar sem verstu tónsmíð Schönbergs (Tilbrigði fyrir hljómsveit) var skipt út fyrir eitt besta verk hans (Píanósvítuna). Svo liggur maður aðeins yfir 12-tónaröðunum, spilar smá músík, og þá er alltaf a.m.k. einn nemandi sem verður grænn og gulur í framan og fullyrðir að þetta „sé nú ekki einu sinni tónlist.“ Umræður? You bet.
|

föstudagur, mars 03, 2006

Davs

Ég er kominn með parta fyrir Kína. Þetta er alls ekki eins erfitt og ég hafði reiknað með. Grímu eftir Jón Nordal þarf ég reyndar að læra, en það er ekki sérlega flókin músík. Þjóðlagasyrpu Jóns Ásgeirssonar hef ég spilað. Að öðru leyti er prógrammið frekar skrautlegt: Radetzky-mars og Dónárvals eftir Strauss, og Blómavalsinn eftir Tsjækovskí. Ekki má heldur gleyma hinni mögnuðu tónsmíð „Reddest is the Sun - Dearest is Chairman Mao.“ Jahérna.

Svo ákvað danska ríkið að styrkja mig til handritarannsókna í nóvember og desember. Sem er gaman, nema hvað ég þarf að útvega mér danska kennitölu og skattkort. Sem er ekki nærri eins gaman. Mér finnst ekkert leiðinlegra en að standa í stappi við erlend bjúrókrasí. Ég fékk líklega nóg af því fyrir lífstíð eftir Berlínardvölina um árið. Nú er bara að vona að Danir séu blíðari á manninn en Berlínarbúar, og að mér takist að rifja sæmilega upp dönskuna fyrir haustið. Hjælp!
|