mánudagur, febrúar 27, 2006

Magnetic Composers

Við vorum að tala um impressjónistana í tíma í morgun þegar Guðný spurði mig hvort Debussy hefði ekki verið frekar vondur maður. Það kom nokkuð fát á mig þar sem ég vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að svara þessu. Eins og oftast þegar slíkt á sér stað kom ég ekki út úr mér öðru en algjörri merkingarleysu, óskiljanlegri runu sérhljóða og samhljóða á stangli. En það sem ég vildi sagt hafa er eitthvað á þessa leið: Ætli Debussy hafi ekki bara verið misjafnlega ófullkominn eins og við öll?

Þetta kom aftur upp í hugann núna áðan þegar ég fékk sendingu frá minni elskulegu litlusystur, fjöldann allan af seglum (et. segull, ekki segl) með myndum frægra tónskálda: Bach, Mozart, Beethoven o.s.frv. Reyndar er Delacroix þarna líka, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. En semsagt, ég opnaði pakkann hinn glaðasti og tók strax að festa þetta á ísskápshurðina. Nú eru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Vil ég í alvöru þurfa að horfast í augu við Richard Wagner í hvert skipti sem ég fæ mér AB-mjólk á morgnana? Vil ég ekki geta fengið mér samloku án þess að þurfa að horfa upp á Gustav Mahler aðframkominn af taugaveiklun? Ég veit ekkert hvort þessi tónskáld voru góðir menn eða vondir, en ég vil samt lifa lífi mínu án þess að hafa þá fyrir augunum á hverjum degi. Þannig að ég er svona að hugsa um að taka þá niður af ísskápnum, að minnsta kosti í bili.
|

laugardagur, febrúar 25, 2006

Eftir pöntun

Ef ég væri ekki svona einhleypur myndi ég tvímælalaust notfæra mér þetta hérna:

http://www.automaticheartbreak.com/commission.html

Þessi Corey er vinur Nicos, og þannig frétti ég af síðunni. Eitthvað fyrir íslensk tónskáld að taka sér til fyrirmyndar? Hver veit, kannski gæti þetta orðið big bisness ef haldið er rétt á spöðunum. Það er a.m.k. gaman að fá tónverk að gjöf. Ekki það að ég hafi nú einhverja mikla reynslu af því, og þó. Á nítján ára afmælinu mínu fékk ég að gjöf næturljóð fyrir píanó eftir Stefán Ragnar vin minn. Nú er hann orðinn heimsfrægur flautari við Metropolitan-óperuna, svo það er aldrei að vita nema ég selji handritið einhvern daginn fyrir morð fjár.

Og kannski að einhver ástarlaganna hans Coreys komist á topp 10? Ekki amaleg tilhugsun það.
|

mánudagur, febrúar 20, 2006

Mozart kvaddur

Í kvöld er síðasti tíminn í Mozart-námskeiðinu hjá EHÍ. Sem er gott, af því ég má eiginlega ekki vera að því að standa í þessu. Ég á eftir að fara yfir helling af prófum og tónleikaskýrslum, og svo er ég á tvöfaldri ferð í grúskinu þessa dagana. Píanópartar fyrir Kína? Ekki farinn að sjá þá enn, en þeir munu þurfa einhverja yfirlegu og það fyrr en síðar.

Ég á samt eftir að sakna Mozart-námskeiðsins. Og ekki bara af því Mozart er svo yfirgengilega svalur. Það er nefnilega alveg ótrúlegur munur á að kenna gamla fólkinu í EHÍ, sem kemur á námskeið bara af því það hefur brennandi áhuga á viðfangsefninu, eða krökkunum í LHÍ, sem hafa... tja... svona mismikinn áhuga á því sem fram fer.

Og þótt mér þyki ferlega vænt um LHÍ-gengið verð ég að viðurkenna að mér finnst gaman þegar gamla fólkið hlær að bröndurunum mínum og þegar það klappar fyrir mér í lokin á hverjum tíma. Svo er líka alltaf geðveikt meðlæti í pásunum. En svona er þetta bara. Og núna get ég aftur farið að mæta í jógatíma, og á kóræfingar. Eruð þið ekki annars örugglega búin að læra Eybler utanað?
|

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Á döfinni

8.-17. apríl: Kína
17.-20. apríl: London
12.-25. maí: New York
25. maí–1. júní: Boston

Maður verður að hafa eitthvað til að hlakka til, ekki síst í miðjum prófayfirferðum.

Svo verð ég í Kaupmannahöfn í nóvember/desember. Tónleikar með Musica Ficta í Holmens Kirke og handritagrúsk í leiðinni. Eins gott að ég virðist þekkja svona um það bil heilan Íslendingakór í gamla höfuðstaðnum. Ekki ætla ég að hírast einn á Árnasafni alla daga, for fanden!
|

mánudagur, febrúar 13, 2006

Tilvitnun dagsins

Það má vel vera, Herr Sveinsson, að þegar þér snúið aftur til hinnar fögru eyjar í norðrinu munuð þér mæta einhverjum mótvindi. Látið það ekki á yður fá. Lofið mér aðeins einu. Ekki verða bitur.
Bitur manneskja getur aldrei búið til neitt fallegt.

Günther Raphael við Atla Heimi Sveinsson, ca. 1963.
|

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Básúna

You scored as trombone. Trombone.

This just means you don´t fit anywhere else.

If you were in an orchestra, what instrument would match your personality?

Ef þetta er ekki kaldhæðni örlaganna, þá bara veit ég ekki hvað.

|

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Öfund

Ég leyfi mér að fullyrða það hér og nú að öfund er sá mest óaðlaðandi eiginleiki sem mannskepnan býr yfir. Sumt fólk er alltaf tilbúið að öfunda aðra út af öllu. Heimili, vinnu, hæfileikum, velgengni; sumir finna alltaf hjá sér tilhneigingu til að vera fúlir út í náungann ef vel gengur, og glaðhlakkalegir þegar á móti blæs. Samt held ég að það sé ekki hluti af innsta eðli manneskjunnar að vera öfundsjúk. Yfirleitt held ég að með öfundinni fái fólk útrás fyrir einhverja leynda óánægju sem hefur ekkert að gera með þann sem öfundin beinist að. Öfund er ekkert náttúrulögmál. Hún er leiðindakækur sem veldur þeim sem finnur til hennar miklu meiri skaða en hinum sem hún beinist að.

Hvergi verður maður jafn áþreifanlega var við öfund í íslensku tónlistarsamfélagi og þegar farið er á kórtónleika. Maður myndi halda að íslenskir kórstjórar væru upp til hópa forvitnir um það sem kollegar þeirra eru að fást við, en sú er nú sjaldnast raunin. Þeir fáu kórstjórar sem láta svo lítið að mæta á annarra kóra tónleika sitja yfirleitt snúðugir á aftasta bekk og þjóta svo út án þess að þakka fyrir sig. Stundum fær maður meiraðsegja á tilfinninguna að kórfólk sé hálfhrætt við að mæta á tónleika hjá öðrum kórum af ótta við að fá skammir fyrir. Þetta á auðvitað ekki við um alla, en nógu marga samt.

Af hverju getum við ekki bara samglaðst hvert öðru með það sem vel gengur? Hugsið ykkur hvað lífið yrði ótrúlega leiðinlegt ef öllum gengi alltaf illa. Þess vegna segi ég: til hamingju Hallveig, Mamiko, Birna og Tumi með tónleikana í gær, til hamingju með daginn Tinna, til hamingju með laugardaginn konsertkrakkar, og til hamingju Silvía Nótt með að eiga besta Júróvisjónlagið. Til hamingju við öll, með allt.
|

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Ítalirnir hefna sín

Lífið er fyndið. Ég er ekki fyrr búinn að úthúða ítölskum óperutónskáldum í færslunni hér að neðan þegar einhver gaur frá NFS hringir í mig og vill fá mig til að gagnrýna Öskubusku eftir Rossini. Yfirleitt myndi ég nú ekki láta gabba mig út í svona lagað, en af því þetta er bara í þetta eina skipti, og þar sem ég myndi annars ekki hafa efni á að fara í óperuna, lét ég slag standa. Ef þið viljið vita hvað mér fannst skuluð þið horfa á sjónvarpið á þriðjudaginn.

Talandi um óperur, þá er eins gott að ég reyni aldrei að sýna nemendum mínum vídeó af Fást. Nei í alvöru, það var út af svona viðhorfum sem mig langaði frekar að flytja heim en að ílengjast í Bandaríkjunum. Hvernig læt ég, auðvitað hlýtur kennari sem sýnir bekknum sínum Fást að vera hómósexúal djöfladýrkandi! Og ég sem ætla að sýna Salóme á DVD í næstu viku. Þar með hlýt ég að vera orðinn nekrófíl og líklega morðingi í þokkabót. Já, það er vandlifað í þessum heimi.

Að lokum: Takk krakkar, fyrir kennslumatið sem toppaði allt. Þið eruð frábær. Og stundum er ég bara hreint ekki sem verstur heldur.
|

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Trix dagsins

Ég er smám saman að uppgötva eitt mjög mikilvægt trix við það að vera kennari. Maður þarf nefnilega bara að kenna það sem mann langar til, og ekkert annað. Lykillinn að þessu er að setja allt á námsáætlun sem maður veit að maður á að kenna á önninni. Síðan tekur maður bara „óvart“ allt of mikinn tíma í að kenna það sem manni finnst skemmtilegast, setur svo upp sorgarsvip og tilkynnir bekknum að því miður verði nú að sleppa hinu og þessu vegna tímaskorts. Þá grunar engan neitt.

Þökk sé endalausum málræpum mínum um Mozart og Beethoven tókst mér að sleppa algjörlega við að eyða einu orði á ítalska óperu. Sem er líka eins gott. Þetta rómantíska óperusull er bara vont fyrir meltinguna. Nema Wagner, hann er ágætur. En ítalska óperan er algjör djöfull. Í alvöru. Fyrir mér er helvíti staður þar sem maður er tjóðraður við borð og látinn fara yfir próf daginn út og inn, meðan kölski situr glaðhlakkalegur úti í horni og spilar geisladiska með Maríu Callas að syngja Bellini. Það bara gerist ekki verra.
|