laugardagur, janúar 28, 2006

Parruk

Ég er að spá í að fjárfesta í hárkollu. Nei, engar áhyggjur, ég ætla ekki að reyna fyrir mér sem dragdrottning. Hins vegar kem ég tvisvar sinnum fram sem semballeikari á næstunni, í dúndur
barokkstuði á nýja Kópavogssembalnum, með þrusufiðlurunum Gróu og Gunnhildi. Og ég ætla að taka þetta með trukki. Þetta verður ekkert hálfkák; hjartveikum er ráðlagt að sitja heima, og líka þeim sem finnst Itzhak Perlman toppurinn á Bachtúlkun 20. aldarinnar. Það verða engir útskrifaðir continuo-partar, engar penar mordenttrillur, engin slugsatempó. Þetta verður bara hardkor alla leið. Feitir hljómar, ýkt frasering og arpeggíur hægri vinstri. Og þá verð ég auðvitað að vera í rétta búningnum. Mæta í bróderuðum silkiklæðum með hvítt parruk á kollinum. Þetta gæti kannski orðið svona treidmark. Árni Heimir... æ þið vitið, þarna gaurinn með hárkolluna. Já svei mér þá, ég held ég kýli bara á þetta. Og ef ég enda í draginu fæ ég mér barokkkjól í stíl og dubba mig upp eins og Marie Antoinette. Þetta bara getur ekki klikkað.

Annars eru komnir nýir hlekkir á síðuna. Stebbi stuðbolti og Stökustjóri bætist í hópinn, sem og Kristinn Sigmundsson. Já, gott fólk, ofurbassi Íslands er farinn að blogga. Það eru að renna upp nýir og spennandi tímar, ekki nokkur vafi á því. Ég spái því að Martha verði komin með blogg áður en árið er á enda.
|

föstudagur, janúar 27, 2006

Glückwunsch

Maður verður auðvitað að óska afmælisbarni dagsins til hamingju með áfangann. 250 ár eru langur tími. Skrýtið hvernig eitthvað sem varð til í kollinum á litlum og skrýtnum Austurríkismanni fyrir svona löngu síðan skuli ennþá hafa svona mikil áhrif á okkur. Flest tónlist eldist, og það er hluti af því sem heillar okkur við hana (eða ekki). Gömul tónlist getur fært okkur til í tíma og rúmi, og hluti af aðdráttaraflinu er að hún er skrýtin á skemmtilega gamaldags hátt. En Mozart er aldrei gamaldags, þótt hann sé gamall. Hann er alltaf ferskur, alltaf hress.

Annars var ég að fatta hvað ég hef gert lítið af því að spila þennan gaur nema bara fyrir sjálfan mig. Hann hefur nú svosem ekki tapað miklu á því held ég. Kannski frekar að ég hefði grætt eitthvað á því að hanga oftar með honum. Fyrir utan að spila undir fiðlusónötu fyrir 11 árum (og aftur í hádeginu í dag), og syngja Requiem á sumarnámskeiði í Michigan þegar ég var sextán ára, höfum við bara hreint ekki átt mikla samleið. Fyrirgefðu Mozart minn, ég skal reyna að standa mig betur í þessu.

Til hamingju með daginn, öll. Við eigum öll eitthvað í honum, og hann í okkur.
|

laugardagur, janúar 21, 2006

clemenza!

Hvað er hægt að eyða miklum tíma í að skrifa um La clemenza di Tito áður en maður missir vitið? Og já, ég spyr í alvöru. Fyrst var það prógrammtexti, svo efniságrip. Núna vill Sinfónían texta sem á að leiklesa í staðinn fyrir resítatívin. Sem er svosem engin dauðasynd, því að resítatívin eru hvortsemer ekki eftir Wolfie. En það er samt súrt að þurfa að eyða föstudagskvöldinu (nóttinni?) í þetta rugl.

Myke kom í dag. Það er gaman að umgangast fólk sem er hugsanlega meiri nördar en maður sjálfur. Hann tengdi tölvuna sína við græjurnar mínar, ég greip slatta af diskum úr hillunum og svo spiluðum við tónlist hver fyrir annan fram eftir kvöldi. Nú hef ég heyrt Hoketus eftir Louis Andriessen, Khorovod eftir Julian Anderson, og margt margt fleira. Landini spilaður á bassaklarínett og víólu? Það var nú tæpast hápunkturinn.

En hvar voru tónskáldin klukkan eitt í dag? Hvers konar attítúd er það að vera í háskóla og mæta ekki þegar loksins koma almennilegir gestafyrirlestrar? Á maður kannski að koma sér upp drasllista? Ha?
|

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Ojbara

Patellar tendonosis hljómar ekki vel. Ég sé fram á nokkra mánuði hjá sjúkraþjálfara tvisvar í viku, plús allskyns teygjur og nudd sem ég á að framkvæma sjálfur daglega. Ojbara.

Þetta er samt ekki hnjánum í mér að kenna. Það eru lærvöðvarnir sem eru í algjöru rugli, ýmist of massaðir eða of linir, sem þýðir að hnéskelin er ekki alveg þar sem hún á að vera, ergo allt þetta vesen.

En bráðum hætti ég að vakna um miðjar nætur vegna sársauka. Og það er gott.

Svo spurði sjúkraþjálfarinn mig hvort ég spilaði mikið körfubolta. Ég hló.
|

föstudagur, janúar 13, 2006

Spýtílófa

Þetta var leti- og spennufallsvika par excellence. Ég gat með herkjum dröslað mér í skólann til að kenna nokkra tíma, en annars hefur mestur tíminn farið í að sofa, lesa, eða hlusta á tónlist. Smá framlenging á jólafríinu er bara af hinu góða, sérstaklega þar sem jólin drukknuðu hálfpartinn í allskonar undirbúningsstússi.

Nú er hinsvegar kominn tími til að spýta í lófana á nýjan leik. Mozart-námskeið eftir 10 daga og ég veit ekkert hvað ég ætla að gera þar. Ég get ekki kúplað mig út úr endurreisnargírnum alveg strax, ég er dottinn í Josquin og veit ekkert hvenær sú víma rennur af mér. Yfirleitt er ég svona þrjár vikur að ná mér aftur eftir Carminu-tarnir, þessi tónlist bara lætur mig ekki í friði. Sem þýðir að Mozart verður ekki massaður nema með töluverðum herkjum. Svo verð ég líka að halda áfram í grúskinu. Í gær kom reyndar óvænt breikþrú í þeim efnum, þegar ég uppgötvaði erlenda fyrirmynd að lagi sem hafði ollið mér heilabrotum nokkuð lengi. Kom í ljós eftir nokkra yfirlegu að það var frönsk tenórrödd. Nánari uppljóstrun í Skálholti í sumar.

Svo er Hugi kominn með heimasíðu, og er þ.a.l. kominn á snillingalistann. Hér getið þið til dæmis heyrt Carminu flytja útsetningu hans á lagi úr gömlu íslensku handriti. Alveg magnað stöff...
|

mánudagur, janúar 09, 2006

Vá...

Ég er orðlaus. Þetta var eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Sannaðist nú enn einu sinni að þeir sem hafa mestu hæfileikana eru líka ljúfustu manneskjurnar. Þessir söngvarar voru gjörsamlega lausir við allan hroka og leiðindi, og auðmýkt þeirra gagnvart tónlistinni var til fyrirmyndar.

Svo gekk þetta algjörlega áfallalaust fyrir sig frá upphafi til enda. Eina kvíðakastið - og það var reyndar allsvakalegt - var þegar það lék grunur á að ég hefði óvart pantað flug fyrir Tallis Scholars með kvöldvélinni á föstudaginn, en ekki síðdegisvélinni. Eftir tíu mínútna hjartsláttartruflanir og svitakast af minni hálfu kom í ljós að þetta var bara misskilningur. Að öðru leyti var þetta tóm gleði.

Ég er strax farinn að hlakka til að syngja með þeim Spe(r)m in alium í Kaupmannahöfn í nóvember. Nú ætla ég hins vegar að njóta þess í nokkra daga að vera hvorki ferðaskrifstofa, hótel, tónleikahaldari né kórstjóri. Bless á meðan.
|

miðvikudagur, janúar 04, 2006

allt að gerast

Vá, hvað ég hlakka til. Carmina er bara orðin býsna þétt eftir nokkrar æfingar og fyrsta æfingin með Tallis er á föstudaginn. Þetta verður geðveikt.

Svo er Myke snillingur að koma eftir tvær vikur og ætlar að halda fyrirlestra í LHÍ. Geri ég annars orðið nokkuð annað en að hýsa útlendinga? Á ég að opna gistiheimili og hætta þessu kennslustússi? Myke er annars frábær, var með mér í skóla og er miðaldanörd eins og ég. Hann ætlar að kippa einni svona græju með sér. Alveg nauðsynlegt fyrir Kínaferðina, held ég.

Svo er það bara helgin... eins gott að þið mætið öll!
|