miðvikudagur, desember 28, 2005

Best of 2005

- flottasta íbúðin: Rauðalækur 73. Ég trúi því varla ennþá hvað ég var heppinn.
- mesta hjálparhellan: Mamma, fyrir hjálpina við flutninginn.
- mesti leiðindagaurinn: Smiðurinn (sá fyrri).
- besti vinurinn: Hreiðar, sem verður sárt saknað næstu mánuðina.
- besta bókin: The Cave eftir José Saramago.
- besta myndin: Hotel Rwanda / Der Untergang (jafnt).
- eftirminnilegustu tónleikarnir:
--- eigin: Carmina í Skálholti og Kristskirkju.
--- klassík: Pacifica-kvartettinn, Black Angels á Listahátíð.
--- popp: Sigur Rós í Höllinni / Antony í Fríkirkjunni (jafnt).
- mestu vonbrigðin: Iceland Airwaves.
- lengsta biðröðin: að fá miða á Spamalot.
- mesta nálægð við stórstjörnu: Nicole Kidman og Naomi Watts á Spamalot.
- besta ströndin: Rimini.
- besta ráðstefnan: The Century of Bach and Mozart.
- besta viðtalið: Bjarkarviðtalið fyrir Nordic Sounds.
- óvæntasta matarboðið: Medúllus og Nico í hádegismat á Ægissíðunni.
- furðulegustu gullhamrarnir: „Þú hefur alveg einstaklega fallegt höfuðlag!“ (ókunnug kona í veislu hjá Tónskáldafélaginu í september. Ég er ennþá að brjóta heilann um þetta...).

Annars verður lítið bloggað næstu daga, því innrásin frá Englandi hefst á morgun. Ég lofa geðveikum tónleikum í Langholtskirkju 7. og 8. janúar, og bloggi 9. janúar ef allt gengur að óskum.

Og já, ég er að fara til Kína. Þó ekki alveg strax.

Gleðilegt ár!
|

þriðjudagur, desember 27, 2005

JólaBach, frh.

|

fimmtudagur, desember 22, 2005

JólaBach

BBC er sniðug útvarpsstöð. Hvað er betur til þess fallið að koma fólki í jólaskap en að útvarpa Bach eins og hann leggur sig á níu dögum fyrir jól?

Mér finnst samt alltaf jafn fyndið þegar fólk heldur að maður geti í alvörunni ekki heyrt hvenær tónverk er samið af tölvu og hvenær ekki. Mér fannst þessi hérna getraun að minnsta kosti alveg skítdrullulétt. Og þar sem ég bý ekki í Bretlandi og má þessvegna ekki taka þátt fáið þið bara að lesa svörin mín í staðinn.

1. Tölva. Einhver hefur slegið inn Invensjón í F-dúr BWV 779 og sagt henni að gera eitthvað svipað, í Es-dúr þó. Fyrstu sex taktarnir eru næstum alveg eins, nema mótívið er aðeins viðsnúið og sekvensarnir fara upp en ekki niður. Annars finnst mér þetta einstaklega vélrænt og lítið spennandi verk. Undir lokin fer hægri hendin upp á þrístrikað g, sem enginn með snefil af þekkingu á hljómborðsmúsík frá barokktímanum myndi leyfa sér að gera. Bach fer sjálfur sjaldan upp fyrir tvístrikað c, og maður þarf ekki nema líta snöggt yfir lyklaborðið á venjulegum sembal til að sjá hvers vegna.

2. Invensjón í G-dúr BWV 781.

3. Maður. Ekki það að þetta sé eitthvað ótrúlega frumlegt (þ.e.a.s. á þann hátt sem Bach var yfirleitt frumlegur), en þetta er samt nokkuð vel gert. Kontrapunkturinn er snyrtilegur en sekvensarnir stundum óþarflega fyrirsjáanlegir. Og þótt fullminnkaði hljómurinn í lokakadensinum sé kannski ekkert sérstaklega snilldarlegur er hann þó hljómrænt djarfari en nokkuð það sem gerist í fyrsta dæminu.

Ég held því semsagt fram að það sé auðvelt að greina muninn á manni og tölvu. En nú hefur Jói líka hlustað á tóndæmin, og fengið út önnur svör en ég. Jói, sem er ekki bara einhver plebbi úti í bæ, heldur vel menntaður og klár ungur tónlistarmaður. Hvað segir þetta okkur, gott fólk?

Og já, meðan ég man, gleðileg jól.
|

sunnudagur, desember 18, 2005

Überfreude

Það er yfir mörgu að gleðjast.

Ég er kominn í jólafrí. Og búinn að kaupa allar jólagjafir, jólatré, skrifa á jólakort, og gera hreint. Svona nokkurnveginn gera hreint. Það vill brenna við að tiltektir mínar endist ekki nema stutta stund, þá er allt komið í sama farið á ný. Bækur og blöð um allt, og eldhúsið í rúst. Sysifos, það er ég.

Ég þarf ekki að kenna klukkan átta á mánudagsmorgnum næstu önn. Ég er ekki sama A-manneskjan og ég var fyrir nokkrum árum, og nú er ég hættur að þykjast. Ætli því yrði tekið illa ef ég bæði um að fá að kenna á kvöldin?

Ég verð í „rannsóknaleyfi“ næsta haust, sem þýðir að ég hef tíma til að skrifa bókina mína. Gæsalappirnar koma til af því ég þarf að kenna eitthvað til málamynda, þó alls ekki mikið.

Tallis-tónleikarnir eru eftir þrjár vikur. Við byrjum að æfa eftir tíu daga. Ég er búinn að ganga frá öllu: flugmiðar, gisting, rúta, þýðingar, prógramm í prentun. Og það fer hver að verða síðastur að kaupa miða. Ég held ég hafi bara aldrei hlakkað jafn mikið til þess að koma fram á tónleikum.

Mesta gleðiefnið er nú samt að ég skuli fá að halda jólin með þeim sem mér þykir vænt um, og að þeim hinum sömu líði vel og séu við góða heilsu. Freude, Freude, Überfreude, eins og skáldið sagði.

P.S. Þetta er auðvitað bara kúl. Áfram Bach!
|

fimmtudagur, desember 15, 2005

Nochmal

Æi já, ég er víst búinn að falla fyrir þessu á annarra manna bloggum, og því ekki seinna vænna að birta þetta hér. Enda hef ég í alvörunni ekki frá neinu að segja. Endalausir fundir, grúsk og undirbúningur fyrir megatónleikana í janúar. Ég er farinn að hlakka allsvakalega til. En já, þangað til fáið þið þetta. Ég lofa því að næst kemur alvöru blogg. Kannski. Eða þannig. Ekki vera feimin við að skrifa nöfnin ykkar í kómentadálkinn!

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara sens fyrir mig og þig.
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig.
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.
|

mánudagur, desember 12, 2005

hin gömlu kynni...

Stærsta overraskelse helgarinnar var að sjá Söru DeCorso sitja á pallinum í Hallgrímskirkju með barokkfiðlu í hendi. Við vorum skólafélagar þegar ég kom fyrst til Ameríku, unnum bæði á bókasafninu og vorum ágætis kunningjar. Hún er alveg sérlega indæl og skemmtileg stelpa, og þrususpilari í ofanálag. Hún útskrifaðist 1996, sem þýðir að það eru bráðum tíu ár síðan við sáumst síðast. Sjæse, hvað tíminn líður hratt.

Við tókum auðvitað góða Kaffitársrispu, rifjuðum upp hvað orðið hafði af öðrum skólafélögum og plönuðum framtíðina. Kammertónleikar eru ofarlega á blaði, obbligatosónöturnar eftir Bach eru t.d. ekkert slor. Maður þekkir aldrei of mikið af góðum barokkfiðluleikurum, það er sko alveg á hreinu.

Annars er hún ennþá í skóla í Amsterdam, og ég öfunda hana dauðans til. Ætli ég geti ekki sótt um eitthvað sembalprógramm?
|

föstudagur, desember 09, 2005

snilld

Þetta hér (Nóbelsræða Pinters) er snilld. Heimspeki, fagurfræði, og einhver flottasta samantekt á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna sem ég hef lesið. Verst að fjölmiðlar í Bandaríkjunum afgreiða Pinter einfaldlega sem „left-wing,“ en eins og allir vita er ekkert mark takandi á svoleiðis furðufuglum. Djöfuls.

Tónleikarnir í gær voru snilld. Af hverju er ekki hægt að gera svona á hverju fimmtudagskvöldi? Ég legg til að Sinfónían geri það að reglu að bjóða upp á kampavín í hléi og ótakmarkað rauðvín eftir tónleika. Ég er viss um að miðasalan tæki kipp.
|

þriðjudagur, desember 06, 2005

Warum?

Hvers vegna, elsku Björn, þarftu að strá salti í sárin?

Hvers vegna er fólk að biðja um fundi með mér núna, einmitt þegar mig langar að vera kominn í frí?

Og hvers vegna er ég ekki enn búinn að fá Sinfóplanið fyrir næsta ár?

Mér er spurn.

Annars er ég að lesa fantagóða bók eftir Nick Hornby. Hún fjallar um náunga sem lifir fyrir tónlist, og fyrir risavaxið plötusafnið sitt. Ég held að hún sé um mig. Að minnsta kosti stundum.

„It seems to me that if you place music at the centre of your being, then you can´t afford to sort out your love life, start to think of it as the finished product. You´ve got to pick at it, keep it alive and in turmoil, you´ve got to pick at it and unravel it until it all comes apart and you´re compelled to start all over again. Maybe we all live life at too high a pitch, those of us who absorb emotional things all day, and as a consequence we can never feel merely content: we have to be unhappy, or ecstatically, head-over-heels happy...“ (High fidelity, 130-31).
|

sunnudagur, desember 04, 2005

búinn

Þið megið óska mér til hamingju. Ég er búinn að fara yfir allar ritgerðir, og gefa einkunnir. Þetta hafðist að lokum, ótrúlegt en satt. Sérstakar þakkir fá nemendur í tónbókmenntum sem báðust undan því að fá skriflegar umsagnir; það sparar mér a.m.k. klukkutíma, og það sérlega leiðinlegan.

Fyrir utan tónleika og einn námsskrárfund er ég því kominn í jólafrí. Eða þannig. Næstu tvær vikur ætla ég að vera með eindæmum duglegur á handritadeildinni, enda er ýmislegt í bígerð og því eins gott að spýta hressilega í lófana. Svo þarf ég að lesa nokkrar bækur um Mozart. Og byrja að æfa nokkrar sónötur fyrir næsta vor: Bach, Britten, Mozart. Mér leiðist allavega ekki á meðan.

Tenglalistinn minn tekur stöðugum breytingum þessa dagana. Bæði vegna þess að gamlir vinir eru skyndilega farnir að blogga, og hefði ég aldrei trúað því upp á þá suma, og vegna þess að ég hef kynnst öðrum sem ég hafði lesið áður en aldrei hitt. Gaman að þessu.
|

föstudagur, desember 02, 2005

afskaplega frábært...

Nei nei, ég er ekkert hættur að blogga. Það hefur bara verið svo einstaklega mikið að gera undanfarið og ekki nærri því nógu margir klukkutímar í sólarhringnum. Af hverju er ég annars alltaf svona lengi að fara yfir próf? Nú á ég þrjár ritgerðir eftir, og ég sem ætlaði að vera búinn að þessu öllu í síðustu viku. En það hefur ýmislegt orðið til þess að tefja mig: fundahöld á ýmsum vígstöðvum, tónleikastúss á hverju kvöldi, og miklar vangaveltur um hvernig sé best að skreyta íbúðina mína þannig að naumhyggjan fái að halda sér. Þannig að þið afsakið þessa stuttu bloggpásu mína; ég skal reyna að standa mig betur í desember.

Annars hef ég svosem ekki frá neinu að segja... eða þannig.
|