þriðjudagur, nóvember 29, 2005

infrared love...

Stundum er lífið of gott til að maður nenni að blogga. Pís át.
|

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Jólin koma!

Aðventutónleikar í Norræna húsinu miðvikudaginn 30. nóvember kl. 12:30 - jólatónlist eftir Richard Trunk, Hugo Wolf og Frank Martin, plús þrjár splunkunýjar útsetningar á gömlum jólasálmum eftir Önnu, Þóru og Hildigunni. Við Hallveig og Berglind lofum að vera í góðu formi og reynum að koma öllum í jólaskap. Jibbí!
|

mánudagur, nóvember 21, 2005

Seisei jú, mikil ósköp...Skáldajötunn

Þú ert nýjungagjarn, tilfinningaríkur innipúki.
Skáldajötunninn er svo opinn fyrir nýjungum á sviði lista og menningar að honum tekst að sjá list út úr óbreyttri skranhrúgu eða einmana slettu á striga. Skáldajötunninn tekur til í herberginu sínu og kallar það listrænan gjörning. Hann er mjög líklega með óskrifaða skáldsögu í hausnum eða óútgefna bók í skrifborðsskúffunni, þ.e. ef hann hefur ekki þegar fengið bók sína útgefna.

Skáldajötunninn lifir fyrir listina og myndi frekar kaupa blek fyrir fjaðurstafinn sinn heldur en brauðhleif þótt hann hefði farið án matar svo dögum skipti. Hann unir sér vel einn með eigin hyldjúpu hugsunum.

Hvaða tröll ert þú?

---
P.S. Held þetta sé nú nokkuð nærri lagi, með einni smábreytingu þó. Hvað segið þið um þetta: Skáldajötunninn tekur EKKI til í herberginu sínu heldur horfir stoltur yfir draslhrúgurnar og kallar þær listrænan gjörning. Já, þarna kannast ég við mig.
|

föstudagur, nóvember 18, 2005

Hlunnindi lífsins

Ég er margyfirlýstur nörd, eins og lesendur þessarar síðu vita mætavel. Ég veit ekkert ánægjulegra en að lesa mig til um staðreyndir sem ég veit vel að öðrum finnast hálftilgangslausar, svosem eins og um heimildatengsl nótnahandrita á 13. öld, eða hvernig tegundir af pappír Bach notaði þegar hann samdi kantötur sínar.

Þess vegna brosti ég út að eyrum þegar ég las viðtalið við David Attenborough í Lesbókinni um síðustu helgi. „Það er gott að vera upplýstur, og að afla sér þekkingar er í sjálfu sér ánægjuleg reynsla; það eru ein mestu hlunnindi lífsins að fá að leita þekkingar á því hvernig hlutir ganga fyrir sig.“ Vel mælt.

Samt verð ég að viðurkenna að ég hló upphátt þegar ég las þessa frétt. Ég veit að ég hef ekkert efni á því að hlæja að þessu, en einhvernveginn finnst mér aldursgreining á risaeðlusaur alveg einstaklega lítið spennandi. Ég myndi allavega ekki vilja skipta á mínu starfi og þeirra, það er alveg á hreinu.
|

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Dagur íslenskrar tungu

Forsíða Blaðsins í dag:

* A STAR IS BORN *

[Mynd af Sylvíu Nótt]

Ævi og ástir Sylvíu Nóttar


Til hamingju með daginn, people.
|

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Helgin

Woyzeck: **** Nei, þessi sýning fær ekki fimm stjörnur, því hvað fengi þá gamli Berg? Aðalleikarinn kemst samt nærri því að næla sér í fimmtu stjörnuna fyrir að leika meirihlutann af leikritinu á engu nema blautum nærbuxunum. Úlala, hann er enginn smá kroppur. Nei, án gríns, þetta er verulega flott uppfærsla. Endirinn er hinsvegar hálfsnubbóttur fyrir þá sem þekkja Wozzeck, því litli krakkinn er alveg klipptur út. Schade.

Turn of the Screw: ***** Eftir að hafa séð fimm sýningar af sex á ég varla orð til að lýsa ánægju minni á þessu framtaki öllu. Þvílík saga, þvílík tónlist, þvílík uppfærsla! Og einhverntímann ætla ég að fara í rannsóknarleiðangur hingað.

Helgardjammið: *** Í ágætu meðallagi. Það að ég var skyndilega kominn í flasið á Quentin Tarantino hefði hinsvegar verið minna vandræðalegt ef ég hefði verið búinn að sjá myndina hans, eins og allir hinir í VIP-partýinu á Rex. Reyndar grunar mig að ég hafi ekki séð eina einustu mynd eftir hann, enda var ég fljótur að forða mér og koma mér þannig hjá klaufalegum samræðum. Kaffi Reykjavík var líka nokkuð gott, þótt ég hefði alveg verið til í að dansa meira. En af hverju þekkti ég ekki fleira fólk þar? Mér er spurn...

Ísbúðin Faxafeni: ***** Ég lagði þangað leið mína til að hengja upp plakat. Þar sem ég er að vandræðast með límbandið og allt er á leiðinni í vaskinn kemur eigandinn til mín og býður mér upp á ís með heitri súkkulaðisósu. Sem er það besta sem ég veit, nota bene. Héðan í frá ætla ég að föndra sniðug plaköt í hverri viku, sérstaklega fyrir góða ísbúðareigandann.

Svo er Rás 1 útvarpsstöð vikunnar og sprengir skalann með því að fá 10 stjörnur. Þar er nefnilega hægt að heyra þetta, og líka þetta. Geri aðrir betur, segi ég nú bara!
|

mánudagur, nóvember 07, 2005

Impromptu

Nú leyf mér finna handar þinnar yl,
því mýkri er hún en yngismeyja brjóst,
og heitari en koddar kinna þeirra,
og ríkari en augna þeirra fylling,
og sterkari en hjartna þeirra funi.

Með lögun fegri en limir dansarans,
og litarhátt sem fjall í ljósaskiptum;
með ilman eins og fölvað næturblóm,
og fersk sem ástin ung, sem jörð í dögun.

Minn fagri, gef mér hönd þína um sinn,
að megi’ eg bæði finna hana og líf þitt,
og kyssa hana, eins og særinn ströndu,
og elska, líkt og sólin elskar jörð.

Æ! leyf mér horfa lengi í augu þín,
sem dýpri eru en hugsananna hylur,
og háloftunum hreinni eftir regn,
og magnaðri en mánans hreyfikraftur,
og meiri en allt ástríðunnar djúp.

Barn, leyf mér sjá og þekkja þessi augu!
Eldur þeirra er sem rúbíns reiði;
skugginn eins og skógarhjartað kyrrt.

Þau fanga mig sem stjarna aðra smærri,
sem ljós sem skína handan þessa lífs,
með kennd sem mennskur maður varla finnur,
og signa mig með sælu handan Guðs.
---Wilfred Owen/þýð. ÁHI
|

laugardagur, nóvember 05, 2005

Nörd

Ljóðakvöld eru stórhættulegur andskoti. Er til eitthvað hommalegra en að sitja með rauðvínsglas á reykfylltu kaffihúsi og hlusta andaktugur á hálærða leikara smjatta á lystilega þýddum kveðlingum heimsbókmenntanna? Ég held ekki.

Ljóðakvöld draga menn niður í hyldýpi nörddómsins. Ég var orðinn svo uppleystur í andanum eftir kveðskaparfyllerí gærkvöldsins að ég linnti ekki látum fyrr en ég hafði sjálfur snarað einu yndislegu ástarljóði. Á föstudagskvöldi, nota bene.

Ég ætla að halda mig frá ljóðakvöldum í framtíðinni, og bara til að tryggja að þetta gerist ekki aftur ætla ég að gefa skít í menninguna í kvöld og horfa á Monty Python í staðinn. Allt hefur nú sín takmörk.
|

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

heima

Ég get nú ekki nema varpað öndinni léttar núna þegar október hefur runnið sitt skeið á enda. Undanfarin þrjú ár hefur október nefnilega slegið öll met þegar kemur að dramatískum lífsuppgjörum. Og ef einhver skyldi hafa haldið annað, þá er ég ekkert sérlega mikið fyrir dramatísk lífsuppgjör. Ég vil bara fá að spila á píanóið mitt og lesa góðar bækur í friði, takk kærlega fyrir.

Og ég held svei mér þá að ég sé líka bara nokkuð ánægður með að það skuli ekki vera fleiri farseðlar á skrifborðinu mínu í bili. Ráðstefnan í DC var samt býsna góð, enda lærist manni smám saman að fara ekki á fleiri fyrirlestra en heilsan þolir. Það er ekkert sem steypir manni skjótar niður í pytt örvæntingarinnar en að hlusta á tíu tónvísindafyrirlestra á dag. Þannig að ég sneri bara öllu upp í kæruleysi á föstudaginn og fór og keypti mér föt í staðinn.

Það var bara eitt sem pirraði mig örlítið: að ég skyldi ekki hafa verið með 8 milljónir í vasanum. Það var nefnilega verið að selja skissu að c-moll messu Mozarts. Þetta var eitt lítið blað með blýantskroti, varla nema 20x15cm, en bar samt höfuð og herðar yfir hin handritin sem voru til sölu (m.a. sönglag eftir Ravel og píanóstykki eftir Liszt). Ef ég hefði átt 130,000 dollara hefði ég látið vaða, það er ekki nokkur spurning.
|