Nú leyf mér finna handar þinnar yl,
því mýkri er hún en yngismeyja brjóst,
og heitari en koddar kinna þeirra,
og ríkari en augna þeirra fylling,
og sterkari en hjartna þeirra funi.
Með lögun fegri en limir dansarans,
og litarhátt sem fjall í ljósaskiptum;
með ilman eins og fölvað næturblóm,
og fersk sem ástin ung, sem jörð í dögun.
Minn fagri, gef mér hönd þína um sinn,
að megi’ eg bæði finna hana og líf þitt,
og kyssa hana, eins og særinn ströndu,
og elska, líkt og sólin elskar jörð.
Æ! leyf mér horfa lengi í augu þín,
sem dýpri eru en hugsananna hylur,
og háloftunum hreinni eftir regn,
og magnaðri en mánans hreyfikraftur,
og meiri en allt ástríðunnar djúp.
Barn, leyf mér sjá og þekkja þessi augu!
Eldur þeirra er sem rúbíns reiði;
skugginn eins og skógarhjartað kyrrt.
Þau fanga mig sem stjarna aðra smærri,
sem ljós sem skína handan þessa lífs,
með kennd sem mennskur maður varla finnur,
og signa mig með sælu handan Guðs.
---Wilfred Owen/þýð. ÁHI