miðvikudagur, október 26, 2005

kitlikitl

Caveat lector:
Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að maður getur ekki haldið kúlinu og um leið tekið þátt í öllum alnetsins klukkleikjum. En þar sem ég fyrir mína parta hef ávallt lagt meira upp úr samviskusemi en kúli finnst mér vel við hæfi að svara umræddum spurningum. Helga Þóra og Elfa Rún eru hér með kitlaðar; ég legg ekki í að afla mér frekari óvinsælda með því að kitla fleiri en þær tvær.

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
- ferðast til Balí
- kaupa mér sembal
- ganga Laugaveginn
- skrifa nokkrar bækur
- syngja með besta kór í heimi
- búa á Ítalíu yfir vetrartímann
- lesa nýju útgáfuna af Oxford History of Music (öll fimm bindin)

Sjö hlutir sem ég get:
- spilað á píanó
- bakkað í stæði
- hlaupið nokkuð hratt
- vélritað mjög hratt
- haldið lífi í orkídeu
- búið til fjári gott creme brulée
- borðað súkkulaði þangað til mér verður óglatt

Sjö hlutir sem ég get ekki:
- blístrað
- farið á skauta
- dansað ballett
- borðað salthnetur
- staðið á höndum
- gert flottar slaufur
- horft á kvikmyndir með Adam Sandler

Sjö hlutir sem heilla mig við... eh... :
- útgeislun
- augu
- bros
- gáfur
- kímnigáfa
- falleg rithönd
- hæfilegur metnaður

Sjö þekktar sem heilla:
- Martha Argerich
- Audrey Hepburn
- Julie Andrews
- Anne Sofie von Otter
- Emma Kirkby
- Emma Thompson
- Judi Dench

Sjö orð/setningar sem ég segi oft:
- hæ
- æði
- sjitt
- ertu ekki að djóka?
- flettið upp á blaðsíðu...
- hermipunktur
- því miður, ég hef ekki tíma

Sjö hlutir sem ég sé núna:
- nótur
- tölvuskjár
- geisladiskur
- ljósprent af handritum
- nokkrar bækur um Bach
- La pendule á l´aile bleue eftir Chagall
- aragrúi gulra minnismiða sem eiga að hjálpa mér að muna það sem ég þarf að gera fyrir morgundaginn
|

mánudagur, október 24, 2005

Gott og vont

Litla systir mín er sannfærð um að okkur mannanna börnum sé öllum úthlutað sama skammti af hamingju og óhamingju í lífinu. Þeir sem njóti meiri peninga, gleði, valda o.s.frv. þurfi líka að upplifa hið gagnstæða fyrr eða síðar. Karma-lögmálið gengur í rauninni út á það sama, nema hvað það einskorðast ekki við eitt líf. Sá sem er konungur í einu lífi er betlari í því næsta. Svo man ég ekki betur en að Hóras hafi verið með svipaðar pælingar, Saepius ventis o.s.frv.

Ég er skíthræddur við þennan hugsunarhátt. Ekki síst þegar ég fæ fréttir sem eru svo góðar að mér hreinlega fallast hendur. Eins og í dag. Mér hefur sumsé verið boðið að syngja með Musica ficta, sem er besti endurreisnarkór Danmerkur, á tónleikum í Holmens kirke í Kaupmannahöfn 26. nóvember á næsta ári. Á efnisskránni er m.a. Spem in alium, sem hefur verið draumastykkið mitt frá því ég heyrði það fyrst í tónlistarsögu í Tónó fyrir, tja... líklega svona 16 árum.

Ég bara veit ekki hvað ég á að halda. Á meðan ég reyni að ná áttum bíð ég eftir loftsteini, eldingu eða öðru sem gæti sannað að litla systir og Hóras hafi á réttu að standa.
|

föstudagur, október 21, 2005

1, 2, 3...

Í fyrsta lagi: Mér er kalt. Meirihluta kvöldsins var eytt í biðraðir til að komast inn á Airwaves-tónleika. Þar af leiðir að minnihluta kvöldsins var eytt í að hlusta á tónleika. Ég er ekki alveg sáttur. Það hlýtur að segja sig sjálft að flestir þessir staðir eru of litlir til að það sé hægt að réttlæta það að selja 5000 miða á hátíðina. Ég missti m.a. af Daníel Ágústi, en náði nokkrum lögum hjá José Gonzales í stappfullum, sjóðheitum og loftlausum Þjóðleikhúskjallara. Biðröðin þangað inn var hinsvegar ekkert slor; takk Sigga, Inga et al. fyrir kaffi og góða stemningu.

Í öðru lagi: Það er alltof mikil vinna að svara svona kitli, svo það bíður a.m.k. þangað til í næstu viku. Byrjaði Þorbjörn á þessu, eða hvað?

Í þriðja lagi: Ég mæli eindregið, og þá meina ég alveg absolút fullkomlega, með því að fólk drífi sig í óperuna til að sjá Tökin hert. Frábær tónlist (alltílagi, hún þarf kannski meira en eina hlustun), fínn söngur, góð sviðsmynd: svona á þetta að vera. Ég hef aldrei skilið afhverju Íslenska óperan finnur sig knúna til að setja upp Aidur og Toscur þegar það sér hver heilvita maður að svoleiðis sýningar passa ekki í þetta litla hús. Íslenska óperan á að einbeita sér að flottum kammeróperum og niðurgreiða frekar miða í Covent Garden fyrir íslenska Verdi- og Puccini-fíkla. Það myndi örugglega borga sig þegar upp er staðið.
P.S. Áhugasömum bendi ég á þetta hér, ekki síst í ljósi kynjafræði-pælinga síðustu daga, sem nota bene hafa fengið sérlega góðar viðtökur. Sniðugt.
|

þriðjudagur, október 18, 2005

Jóla...

Þetta hér er jólagjöfin í ár. Það er bara ekki flóknara en það.
|

fimmtudagur, október 13, 2005

Botninum náð

Um daginn var ég í sakleysi mínu að skoða blogg, eins og gengur og gerist, og ráfa inn á síðu hjá einum nemanda mínum í LHÍ. Þetta var skemmtilegt blogg svo ég hélt áfram að lesa nokkrar síðustu færslur, þangað til áfallið kom. Ein færslan byrjar eitthvað á þessa leið: „Jæja, nú er ég í tíma hjá Árna Heimi...“!!! Já, kæru vinir, ef einhverntímann er ástæða til að nota þrefalt upphrópunarmerki þá er það einmitt núna. Gríslingarnir nota semsagt tímana mína til að blogga og msn-ast hver í kapp við annan. Ég á ekki til orð.

Nú er botninum náð á kennaraferli mínum og spurning um að snúa sér bara að einhverju allt öðru. Kannski ég sæki um á MacDonalds? Þá fengi ég líka loksins Ipod - ég meina, eftir hverju er ég að bíða?

(P.S. Vonbrigði mín hér að ofan eru dálítið ýkt, en bara vegna þess að umræddur nemandi stendur sig í rauninni mjög vel og ég treysti því að þetta hafi verið einstakt tilvik. En ég er nú samt að hugsa um að ráðfæra mig við tölvudeildina í LHÍ og sjá hvort það er hægt að blokka nettenginguna í fyrirlestrarsalnum, svona til vonar og vara... sá hlær best sem síðast hlær, hehehe.)
|

sunnudagur, október 09, 2005

Gaman

Já, gleði og eftirvænting ráða ríkjum.

Eftir rúma viku kemur mjög skemmtilegur tónlistarstrákur til Íslands, ekki til mín persónulega en það verður gaman að hitta hann. Meira um það seinna.

Svo er ég kominn í nefnd. Á vegum menntamálaráðuneytisins, no less. Ójá, nú er komið að því að maður láti til sín taka í þjóðþrifamálunum.

Það er líka komið að því að ég láti til mín taka í kynjafræðunum. Já, ég veit, ég átti ekki heldur von á þessu. En það er semsagt í bígerð að ég kenni kúrs næsta haust sem verður einhver pæling um B- og C-tónskáldin, þ.e. Britten, Barber, Bernstein, Copland og Cage. Sem áttu fleira sameiginlegt en B-in og C-in, sjáið þið til...

Og mér tókst að klára að fara yfir prófin og skila þeim á réttum tíma. Það var meira að segja ekki eins slæmt og ég bjóst við. Held að ferðalög og almennt batnandi skap síðustu daga eigi ekki lítinn þátt í því.
|

föstudagur, október 07, 2005

Af prófum

Þrátt fyrir að vera nýbyrjuð í skólanum hafa nemendur mínir á 1. ári gert nokkrar stórmerkar uppgötvanir það sem af er önninni. Til dæmis hafa þau haft uppi á tveimur áður óþekktum messum eftir Johannes Ockeghem. Önnur heitir Missa pulchridium, en hin ber yfirskriftina Missa profundica. Enn á hins vegar eftir að rannsaka hvort einhver tengsl eru á milli þeirra og Missa prolationum, sem er frægasta messan sem Ockeghem samdi og var einmitt á hlustunarprófi í síðustu viku.

Þá hefur enn einn nemandinn haft uppi á óþekktum hymna eftir Dufay og heitir sá Qui condictus siderum. Þetta er allt mjög spennandi.

Já, ég veit að ég er kvikindislegur. En það eru svona hlutir sem hjálpa mér að halda geðheilsunni í því hörmungarinnar kvalræði sem kallast prófayfirferð. Annars var þetta þrælerfitt próf, og þess vegna enn gleðilegra að sumir stóðu sig bara býsna vel. Sumir...
|

mánudagur, október 03, 2005

Frau Petra

Við Eyvi skelltum okkur í óperuna á laugardagskvöldið. Það var um tvennt að velja: La fanciulla del West í Covent Garden, og nýja óperu í ENO. Þar sem mér hefur alltaf þótt Puccini og Villta vestrið frekar vafasamur kokteill var stefnan tekin á The Bitter Tears of Petra von Kant. Hún er víst byggð á Fassbaender-mynd sem ég hef aldrei augum litið. Í stuttu máli gengur óperan út á það að tveir kvenmenn (elskendur) öskra hvor á aðra í tvo klukkutíma, og eiga um leið í sadísku sambandi við þá þriðju, sem rekur ekki upp bofs allt verkið í gegn. Tónlistin náði mjög vel að undirstrika geðsýkina: hún var alltaf sterk og gróf, en aldrei falleg. Ég vona að brassleikararnir hafi fengið vel borgað því þeir höfðu nóg að gera, tónskáldinu þykir greinilega einhver geðveiki fólgin í því að láta brassið spila fortissimo á ýlfrandi háu tónsviði eins mikið og hægt er. Sumsé: sækó-lessu-nútímaópera dauðans. Ef einhver skyldi hafa áhuga þá er um að gera að drífa sig til London, það eru held ég bara nokkrar sýningar eftir. Skrýtið?
|

laugardagur, október 01, 2005

Hmmm...

bergsoldier
You are Berg's ridiculously complicated Chamber
Concerto. No one will ever figure you out and
when they do, it probably won't be right.

What major work of Alban Berg are you!?!?!
brought to you by Quizilla

Vitiði, þetta er kannski ekki svo vitlaust. Allavega betra en að vera Wozzeck... er það ekki?
|