þriðjudagur, september 27, 2005

Klukk

Jæja, það hlaut að koma að því.

1. Mér finnst leiðinlegt að æfa mig, en gaman að músísera. Þess vegna varð sólóferill minn með eindæmum skammlífur, en ég virðist ætla að endast eitthvað betur í kammermúsík.

2. Ég veit ekkert skemmtilegra en að syngja endurreisnartónlist. Og mér finnast það hræðileg örlög að ég skuli ekki hafa fæðst í London og verið látinn syngja drengjasópran frá barnæsku.

3. Ég trúi á ástina, en er líklega of mikill ídealisti til að verða ástfanginn. Að minnsta kosti hefur það ekki gerst nema tvisvar.

4. Eftir veturinn 2003-4 – sem var ömurlegur, og skammdegið hjálpaði ekkert til – lofaði ég sjálfum mér að ég myndi aldrei aftur vera heilan vetur á Íslandi. Undanfarna daga hef ég heldur betur staðið við þetta loforð mitt.

5. Ég get verið mjög viðutan. Einu sinni gekk ég um heilan dag í einum bláum skó og einum svörtum. Einu sinni gleymdi ég kjólfötum í flugvél bæði til og frá Egilsstöðum, þar sem ég var að spila á tónleikum. Ég er líka lesblindur á tölur, sem getur verið afar vandræðalegt.

Klukk: Árni Björn, Brynjar, Dísa, Gunnar Hrafn og Helga Þóra!
|

sunnudagur, september 25, 2005

Boston

Plúsar:
- Veðrið. Gæti verið töluvert mikið verra en 30 stiga hiti og sól.
- Frábærir fyrirlestrar. Ekki allir, en margir.
- Flottir tónleikar, og flottar veislur eftir tónleika, í hverjum maður minglar við gamla kennara og vini.
- Útlendingar sem lesa bloggið mitt. Sérstaklega Myke, sem fær snillingahlekk í tilefni dagsins.

Mínusar:
- Veðrið. 30 stiga hiti og sól er fullmikið af því góða þegar maður þarf að vera í jakkafötum allan daginn.
- Leiðinlegir fyrirlestrar. Ekki margir, en nokkrir. Að horfa yfir salinn og sjá 200 manns dotta samtímis á Tartini-fyrirlestrinum var samt svolítið fyndið (og nei, ég er ekki að grínast, það var í alvöru fyrirlestur um Tartini).
- Þröngsýnir, fordómafullir repúblikanar. Sem betur fer þekki ég ekki marga.
- Mánudagur. Ég þarf að fara beint í skólann af flugvellinum, og kenna allan daginn. Úff.

Svo er það London á fimmtudaginn. Rugl.
|

sunnudagur, september 18, 2005

The Bathroom Mystery

Nú stend ég frammi fyrir einu magno mysterio. Þannig er mál með vexti að á baðherberginu mínu hefur, frá því skömmu eftir að ég flutti hér inn, verið baðdót ýmiskonar sem ég kannast ekki við að eiga. Um er að ræða SURE MEN svitalyktareyði, blátt ADIDAS sturtugel, tannbursta og tannkrem. Þetta er í meira lagi dularfullt, enda bý ég einn og næturgestir eru ekki daglegt brauð á heimilinu.

Upphaflega féll grunurinn á vini mína frá Englandi, Edward og Andrew, sem gistu hér í byrjun júlí. Og þar sem leið mín mun innan skamms liggja á þeirra heimaslóðir spurði ég hvort þeir könnuðust við að hafa gleymt baðdóti á Íslandi, og hvort þeir vildu fá það aftur. Þeir brugðust hinir verstu við og sögðust ekki kannast við neitt. Þannig að nú veit ég ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í þessu. Mér finnst eiginlega frekar óþægilegt að það skuli vera tannbursti inni á baði sem ég veit ekki hver á eða hvernig hann komst þangað.

Ég er helst farinn að hallast að því að Medúllus sé að færa sig upp á skaftið og stefni smám saman að því að taka völdin hér á heimilinu. Ef það næsta sem ég finn óvænt inni í skáp er svanakjóllinn hennar Bjarkar er ég viss í minni sök. Hingað og ekki lengra, segi ég!
|

fimmtudagur, september 15, 2005

You only live twice

or so it seems,
one life for yourself
and one for your dreams...

Þetta er alveg fríkað. Mér hefði aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að finna eitthvað sem gæti tengt áhuga minn á James Bond-lögum (sem reyndar náði hámarki þegar ég var tólf ára) og aðdáun mína á Björk. En hér er það semsagt. Nú þarf bara einhver að plata hana til að taka Dancing Queen, þá get ég dáið hamingjusamur.

Svo er ég byrjaður að æfa píanópartinn í Oceania. Hann er svo erfiður að það þurfti að skrifa hann út fyrir þrjú píanó. Sem gæti þýtt að ég þyrfti að sleppa svona eins og nokkrum nótum...
|

föstudagur, september 09, 2005

Smiður á uppleið

Mér brá heldur en ekki í brún þegar ég fletti sjónvarpsdagskránni um daginn. Þar rak ég augun í heilsíðuauglýsingu fyrir Dale Carnegie námskeið, með flennistórri mynd af ungum manni sem brosti sínu blíðasta. Þar var sumsé kominn enginn annar en smiðurinn minn fyrrverandi, sá sem klúðraði u.þ.b. öllu sem klúðrast gat sakir tímaleysis, hroðvirkni og almenns fúsks. Þangað til ég gafst upp og fékk nýjan, sem kláraði verkið á einum degi.

En nú er téður smiður sumsé orðinn posterboy fyrir Dale Carnegie. Segir m.a. að námskeiðið hafi breytt lífi sínu, og að hann hafi tekið slíkum framförum í skipulagningu og mannlegum samskiptum að kraftaverk geti talist. Ég samgleðst honum innilega. Nú þarf hann bara að drífa sig á smíðanámskeið, þá verður kannski eitthvað úr þessu hjá honum.

Annars hef ég verið að hlusta á nýja diskinn með Sigur Rós, þennan sem kemur út á mánudaginn. Og hann er góður. Töluvert jarðbundnari en (), sem er bara ágætt, held ég. Líklega of snemmt að segja til um uppáhaldslög, en Mílanó og Andvari eru ofarlega á blaði. Hoppípolla er samt skemmtilegasta lagið, en það segir sig auðvitað sjálft. Brilljant.
|

laugardagur, september 03, 2005

Bull og vitleysa

Draumfarir mínar eru orðnar svo skemmtilega flippaðar að ég eyði dögunum meira og minna í hláturskasti yfir því sem gerðist nóttina áður. Um daginn var ég til dæmis að fara að taka inntökupróf í mastersnám í Juilliard... á fiðlu. Einhvern veginn fannst mér ég ekki geta hætt við, jafnvel þótt ég kunni auðvitað ekkert á fiðlu. Þannig að ég eyddi síðustu klukkutímunum fyrir prófið í að læra að spila nokkra tóna og gera víbrató. Sem betur fer vaknaði ég áður en röðin var komin að mér...

Svo dreymdi mig í nótt að ég var að fara að gifta mig í Hallgrímskirkju, hvorki meira né minna. Það var svona lokaæfing daginn áður, Þorgerður mætt með kórinn og allt, og einhver var búinn að semja tónverk í tilefni dagsins, fyrir söngvara og strengi. Sem hljómaði raunar mjög vel, ég var með það í eyrunum löngu eftir að ég vaknaði. Hinsvegar fer verulega í taugarnar á mér að ég skuli ómögulega geta munað hverjum ég var að fara að giftast. Damn!
|