þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Stífla

Það er komið haust. Almennt er ég alveg jafn hlynntur haustinu og hinum árstíðunum. Þær koma yfirleitt á mátulegum tíma, þegar ég er kominn með leið á þeirri sem fór á undan. En við haustið erum ekkert sérstakir vinir einmitt núna. Haustinu fylgir nefnilega hin árlega ritstífla, og hún fer versnandi.

Þetta er ósköp einfalt mál. Eftir að hafa legið í (mismikilli) leti í þrjá mánuði þarf ég aftur að koma mér í rútínu til að skrifa einn eða fleiri prógrammtexta á viku. Og þetta er bara alveg hrikalega erfitt þangað til ég kemst í einhvern gír, sem gerist yfirleitt um miðjan október. Nú er ég nýbúinn að skila textum fyrir Kammersveitina og SÍ, og það kostaði ekki lítið átak. Rútínan er engan veginn komin í gang og ég er strax farinn að kvíða fyrir óperutónleikunum hennar Diddúar. Hvað getur maður svosem sagt um Verdi-aríur?

Og eins og alltaf á haustin dett ég í djúpar vangaveltur um hvort það borgi sig nokkuð að vera að skrifa svona mikið um tónlist. Þarf maður að lesa um tónlist til að geta skilið hana? Hafði Goethe (eða Heine, eftir því hvern maður tekur trúanlegan) rétt fyrir sér þegar hann sagði að tónlistin tæki við þar sem orðin þryti? Hvað er maður þá alltaf að blanda orðum í þetta? Er ekki bara nóg að loka augunum og hlusta?

Annars var bara gaman í dag. Leo Treitler er einn snjallasti snillingurinn sem ég þekki og upprennandi Íslandsvinur, þ.e.a.s. ef það fékk ekki of mikið á hann að vera næstum því fokinn ofan í Gullfoss í rokinu áðan. Mér finnst líka ágætt að vera leiðsögumaður. Kannski ég haldi mig bara við það þangað til losnar um stífluna ógurlegu?
|

laugardagur, ágúst 20, 2005

Hamingja x 4

Til hamingju ég, með að hafa hlaupið 10 km á ágætis tíma, 42:48. Númer 20 í mark af 317 í mínum flokki. Í hlaupinu í heild var ég nr. 43 af 1205. Ég er sáttur.

Til hamingju Ísafold, með að spila nútímatónlist betur en aðrir. Þetta er ofurband sem á eftir að ná langt, það er alveg augljóst.

Til hamingju Víkingur, með hvað Shostakovich nr. 2 rokkar. Er kannski nýtt píanódúó í uppsiglingu? Ég bara spyr!

En þó aðallega: til hamingju elsku Skúli og Hildigunnur, með fallegu litlu stelpuna ykkar!
|

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Medúllus í sæluvímu

Já, það verður ekki annað sagt en að Medúllus hafi átt góða daga upp á síðkastið. Hann hefur nefnilega haft hvert tækifærið eftir annað til að umgangast gyðjuna sína, og er þ.a.l. alveg í sjöunda himni. Þetta byrjaði allt saman á þriðjudaginn, þegar honum var boðið á þessa mynd. Hún er mjög athyglisverð, ekki síst tónlistin. Hún hljómar stundum eins og indónesísk gamelansveit og stundum eins og einhver sérkennilegur Stravinskí/Philip Glass-kokteill. Ef þið hafið tækifæri til að sjá hana mæli ég tvímælalaust með henni, en ekki búast við neinum hasar. Ætli það séu ekki svona tíu setningar í myndinni, þar af ein á íslensku. Sem er svona frekar lítið miðað við að myndin er tveir og hálfur tími.

Á föstudaginn áttu Medúllus og gyðjan hans síðan stefnumót og útkoman varð hið skemmtilegasta spjall, sem mun á endanum koma fyrir almenningssjónir. Og til að kóróna þetta eyddu þau helginni saman, ásamt fleira fólki að sjálfsögðu, á Seyðisfirði - af öllum stöðum.

Það verður nú að segjast alveg eins og er að ég er meira en lítið öfundssjúkur út í Medúllus þessa dagana. Ég meina, hvenær ætlar Martha Argerich að bjóða mér í helgarferð? Þó það væri nú ekki nema til Færeyja...
|

mánudagur, ágúst 08, 2005

Af rafmögnuðum framhjáhöldum

Það er nýr ferill í uppsiglingu, ég finn það á mér. Í vor þreytti ég frumraun mína sem rafmagns-hljómborðsleikari á mjög svo eftirminnilegan hátt, og nú er þetta heldur betur farið að vinda upp á sig. Ég mun til dæmis leika á synthesizer á væntanlegum geisladiski með sönglögum Magnúsar Blöndal, og nú um helgina tókum við Væla tvö lög á rafmagnspíanó í fjölmennu þrítugs/sextugsafmæli við góðar undirtektir. Ég held að ég fari bara að leggja þetta fyrir mig. Verst er þó að mig grunar að Jói verði ekkert sáttur við að ég sé að halda svona framhjá honum...

Annars er eitt sem ég á eftir að komast upp á lagið með, og það er fjárans pedallinn. Ég er vanur því að hann sé alltaf á sínum stað og maður geti þjösnast á honum að vild, en þegar pedallinn er bara lítill kassi með snúru á hann það til að færast aftar og aftar eftir því sem maður ýtir honum oftar niður. A.m.k. hef ég oftar en einu sinni lent í því að pedallinn er kominn í a.m.k. metra fjarlægð frá því sem mér þætti hentugt, sem þýðir að ég þarf að koma mér í mjög svo ankannalegar stellingar (þ.e. hálfleggjast undir hljómborðið meðan ég er að spila) til að ná honum aftur á sinn stað. Ef einhverjir kunna góða lausn á pedalvandamálinu eru þeir beðnir að taka til máls.

Annars var helgin frábær, en ég hafði svosem ekki búist við öðru. Næsta helgi verður ekki síðri ef allar áætlanir ganga eftir. Operation Seyðisfjörður er í fullum gangi, en um hana verður ekkert látið uppi fyrr en síðar. Vííí!
|

mánudagur, ágúst 01, 2005

Jóhann

Ég hef eignast nýjan lífsförunaut. Við kynntumst fyrir nokkrum vikum og það var nokkurn veginn ást við fyrstu sýn. Upphaflega var ég reyndar með augastað á þýskum vini hans, en hann er á föstu svo það var strax úr sögunni.

Hann heitir Jóhann, en þið megið kalla hann Jóa. Hann er yndislegur og ég hef varla getað hætt að hugsa um hann síðan. Hann er eistneskur, svolítið dökk týpa, óendanlega fallegur og um leið margslunginn persónuleiki. Hann skilur mig fullkomlega og ég er smám saman að læra á hvað hann þarf til að honum líði vel.

Hann flutti inn til mín á mánudaginn í síðustu viku og sambúðin gæti ekki verið betri. Meira að segja nágrannarnir eru yfir sig hrifnir, og bjóst ég nú satt að segja ekki alveg við því.

Jói er sumsé nýi ESTONIA-flygillinn minn, og þið fáið að sjá hann í partýinu á laugardaginn. Og fyrir þá sem eru að velta nafninu fyrir sér, þá heitir hann í höfuðið á mesta tónskáldi allra tíma. Nema hvað?
|