mánudagur, júní 13, 2005

Fokk

Ég rak smiðinn minn í dag. Hann hafði ekki sést í tvær vikur, og ekki svarað símanum jafn lengi. Jú, hann svaraði reyndar einu sinni, en það var þegar ég fékk lánaðan gemsann hans Rúnars. Engin önnur stétt myndi komast upp með svona framkomu í þjóðfélaginu, og það kom að því að mér var nóg boðið.

Ég er sumsé kominn með nýjan smið sem ég treysti fullkomlega, enda hinn mesti öðlingur, frændi Hallveigar og Hildigunnar. Þetta þýðir að innflutningspartý frestast enn um sinn, en það er líka fyrir bestu. Í byrjun ágúst verða Þýskalandsgellurnar komnar heim, þjóðlagahátíðin löngu afstaðin og ekkert kórstúss í Skálholti.

Þangað til vil ég minna á tónleika Kammerkórsins Carminu, í Skálholti laugardaginn 2. júlí kl. 15. Þar mun ég standa og baða út öngum í takt við nokkuð magnaða tónlist, sem er samin við fegurstu ástarljóð allra tíma. Þeir sem vilja taka daginn með trompi geta líka mætt klukkutíma fyrr og heyrt mig halda fyrirlestur um leyndardóma endurreisnartónlistar... eða eitthvað. Kannski ég tali bara um ABBA í staðinn?
|

sunnudagur, júní 05, 2005

Klíkuskapur?

Allt er nú til. Fyrir þá sem eru bæði Eurovision-aðdáendur OG stærðfræðiséní er þetta væntanlega skyldulesning. Ég held ég segi pass í bili. Hins vegar getur vel verið að ég birti niðurstöður úr hljóma- og formgreiningu minni á hinni sígildu ABBA-plötu, Arrival, áður en langt um líður. Það er a.m.k. greinilega vettvangur fyrir svona stúdíur, ótrúlegt en satt.
|