föstudagur, maí 27, 2005

Partý, en ekki strax

Æ, hvað það hefði verið gaman að geta tilkynnt að innflutningspartý ársins væri alveg á næsta leiti. En það frestast víst, og það töluvert. Helsti vandinn hefur verið að ná í smiðinn. Hann mætti fyrir svona mánuði síðan og byrjaði á flestu sem hann átti að gera, en kláraði ekkert af því. Síðan tók hann upp á því að hætta að svara þegar ég hringdi. Þangað til mér datt í hug það snjallræði að hringja úr heimasímanum... þá svaraði hann eins og skot! En bara einu sinni. Síðan hef ég fengið hina og þessa fjölskyldumeðlimi í lið með mér svo að ég þurfi aldrei að hringja úr sama símanum tvisvar. Nú fer ég hins vegar að verða uppiskroppa með velviljaðar frænkur, svo ef ég rýk á ykkur og ríf af ykkur símann skuluð þið ekki láta ykkur bregða.

Það er nú samt útlit fyrir að flutningar geti a.m.k. hafist bráðum. En þegar þeim lýkur verða nokkrir öðlingar farnir í kórferðalag, og svo fer ég til Vestmannaeyja og í Skálholt. Þess vegna mun innflutningsteitið dragast fram í júlí - já ég veit, þetta er alveg glatað. Ég bið ykkur hérmeð um að taka frá laugardagskvöldið 9. júlí. Það verður biðinnar virði, ég lofa ykkur því!
|

mánudagur, maí 23, 2005

Sagan af Spamalot

Við systkinin látum ekki slá okkur auðveldlega út af laginu. Mig dauðlangaði að sjá Spamalot, sem er söngleikur byggður á Monty Python and the Holy Grail. Þetta er aðalstykkið á Broadway, með 14 Tony-tilnefningar og uppselt næstu árin að mér skilst. Eina leiðin til að fá miða er að vera mættur í biðröð þegar miðasalan opnar; þeir selja miða í stæði samdægurs á 20 dollara stykkið.

Í gær vöknuðum við ES klukkan átta og drifum okkur niður á Broadway. Við trúðum ekki okkar eigin augum þegar við komum að leikhúsinu - engin röð! Við vorum í sæluvímu. Þetta var svo auðvelt, mikið voðalega vorum við klár og allir hinir vitlausir að láta sér ekki detta þetta í hug. En eftir nokkrar mínútur varð okkur litið handan við hornið og sáum að biðröðin byrjaði þar, og svona 50 manns á undan okkur! Þeir fremstu voru í svefnpokum og höfðu greinilega gist um nóttina. Við röltum niðurlút aftast í röðina og biðum milli vonar og ótta þangað til miðasalan opnaði. Það voru 30 miðar seldir, en við vorum alltof aftarlega og fengum ekkert.

En við létum ekki þar við sitja, heldur vöknuðum klukkan SEX í morgun og þegar við mættum á staðinn vorum við fjórðu í röðinni. Við tókum að sjálfsögðu útilegustemmarann á þetta, mættum með teppi og heitt kakó, dúðuð í allskonar trefla og húfur, með góðar bækur að lesa, bunka af dagblöðum undir rassinn, og þegar við vorum orðin svöng fór ég og keypti pizzu. Miðasalan opnaði klukkan tólf, og eftirá að hyggja voru þessir sex tímar ekkert alltof lengi að líða. Ég var aðallega hissa á því að þar sem við systkinin röltum heim á leið skyldi enginn láta svo lítið að gauka að okkur nokkrum smápeningum, þessum tveimur þreyttu, guggnu og mjög líklega heimilislausu manneskjum sem gengu upp 9th Avenue í hádegissólinni dúðuð úlpum og húfum, með teppi og poka í farteskinu.

Þetta var samt algjörlega þess virði. Spamalot er sennilega fyndnasti söngleikur sem ég hef séð, og hef ég séð þá þó nokkra. Tim Curry, Hank Azaria og David Hyde Pierce fóru á þvílíkum kostum að ég er ennþá aumur eftir allan hláturinn. Svo höfðu vinkonurnar Nicole Kidman og Naomi Watts ákveðið að skella sér í leikhús með okkur systkinunum. Ég vissi ekki fyrr en Nicole kom labbandi beint í áttina til mín; fyrst hélt ég að hún ætlaði að bjóða mér í mat, en þá var hún víst bara á leiðinni að kaupa nammi. Iss, við Ella Sigga vorum búin að plana kvöldið hvort sem var.
|

laugardagur, maí 21, 2005

New York

Eins og margir vita hef ég alltaf borið blendnar tilfinningar í garð Bandaríkjanna. Það var svo ótal margt sem ég gat aldrei sætt mig við þessi níu ár sem ég bjó hérna: byssueign, hafnarbolti, George Bush, Valentínusardagur, popp með smjöri. Mér fannst það einhvern veginn alveg sjálfgefið að ég myndi aldrei setjast hérna að fyrir fullt og fast. Ísland, best í heimi og allt það.

En það er bara búið að vera svo skemmtilegt hérna þessa vikuna að nú eru farnar að renna á mig tvær grímur. Voru það mistök að flytja heim og reyna ekki að fá vinnu hérna? Ég meina, ekki misskilja mig, það er ekki eins og mér finnist eitthvað leiðinlegt að búa á Íslandi. En í New York er svo mikið úrval af öllu: tónlist, leikhúsi, mat, fólki; hér er svo mikið af óvenjulegu fólki að það er enginn sem er beinlínis venjulegur, og engin pressa að passa inn í eitthvað norm sem hentar manni engan veginn. Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera auðveldara fyrir svona furðufugl eins og mig að finna aðra á svipuðu reki í svona milljónaborg heldur en í litlu Reykjavík.

Kannski er þetta bara til marks um að þetta hefur verið alveg einstaklega vel heppnuð ferð. Stjarna vikunnar er tvímælalaust Ella Sigga, sem hefur sýnt snilldartakta í gestrisni og skemmtilegheitum eins og við var að búast. Hún toppaði þó allt með einstöku úthaldi á djamminu með okkur Johnny í gær, á skemmtistöðum þar sem hún telst tæplega til aðalmarkhópsins... þið vitið hvað ég meina!

Ég held áfram að hugsa þetta New York-mál aðeins betur, einhvernveginn grunar mig að það líði ekki ár þangað til ég kem hingað næst.
|

sunnudagur, maí 08, 2005

Hlé, en ekki strax

Þá fer að styttast í að ég taki mér mitt fyrsta sumarfrí sem bloggari. Þó ekki alveg strax, því það verður a.m.k. ferðasaga að lokinni Ameríkuferð, og svo tilkynning um innflutningspartý, vonandi ekki mjög löngu síðar.

Ég er satt að segja steinhissa hversu margir hafa lagt leið sína hingað í vetur. Þetta blogg hefur fyrst og fremst verið hugsað sjálfum mér til dundurs, en ég vona nú samt að þið hafið haft nokkuð gaman af. Ég reikna með að taka aftur upp þráðinn þegar fer að hausta, en þó lofa ég engu. Eins og Víkingur hefur stundum bent á er blogg í eðli sínu óneitanlega nokkuð sjálfhverft fyrirbæri. Að því leyti er það í ákveðinni mótsögn við jógað sem ég er farinn að iðka og gengur út á að minnka egóið en ekki blása það út. Við sjáum bara til.

Að lokum langar mig að vitna í gullkorn sem ég rifjaði upp um daginn, mér til mikillar gleði. Svona yrkja menn ekki nema þeir séu bæði snillingar og góðar manneskjur.

The quality of mercy is not strain’d,
It droppeth as the gentle rain from heaven
Upon the place beneath: it is twice blest;
It blesseth him that gives and him that takes.
|

miðvikudagur, maí 04, 2005

Fordæming Medúllusar

Ég hef selt djöflinum sál mína. Nei, kannski ekki í bókstaflegum skilningi, en ég hef svikið um það bil öll prinsipp mín sem prófessjónal tónlistarmaður. Það þó helst að taka aldrei neitt að mér nema það veiti mér einhverja listræna gleði, þ.e. að gera aldrei neitt bara fyrir peninga.

Í fyrrakvöld fékk ég símtal frá kunningja mínum sem spurði hvort ég gæti spilað undir hjá ónafngreindum tenór (ekki þó þeim útblásna á Ítalíu) í afmæli frænda síns. Ég sá strax fyrir mér nokkrar Verdi-aríur og íslensk sönglög, sungin og spiluð á gljáfægðan flygil í virðulegum veislusal. Eftir að hafa rætt við afmælisbarnið og tenórinn, og fengið í hendur nótur að öllu saman, fóru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Í kvöld mun ég semsagt leika á hljómborð (nokkuð sem ég hef aldrei látið hafa mig út í á ævinni) fimm frumsamin lög eftir afmælisbarnið! Sem er stærðfræðingur, nota bene, og á eftir öllu að dæma nokkuð langt í að geta sótt um inngöngu í Tónskáldafélagið. (Smá hint til kórfélaga: í samanburði við tónsmíðarnar sem ég mun flytja í kvöld er Skógurinn kallar eftir AHS ódauðlegt meistaraverk.)

En ég fæ borgað, og það skiptir mestu máli þessa dagana. Ég er að komast að því að iðnaðarmenn eru með skrambi gott tímakaup, og mér veitir ekkert af því að hafa alla anga úti. Ef þið eigið frændfólk sem finnst gaman að semja lög í tómstundum, segið þeim endilega frá mér.
|