föstudagur, apríl 29, 2005

Hinar erfiðu ákvarðanir

Ef það er eitt sem ég er algjörlega ófær um (ókei, fyrir utan að blístra) þá er það að taka ákvarðanir. Ég hef til dæmis aldrei getað gert almennilega upp við mig hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Þess vegna er ég alltaf að gera tvennt eða þrennt í einu, sem er auðvitað langt frá því að vera skynsamlegasti leikurinn í stöðunni. Ekki er einkalífið neitt skárra. Þar hef ég aldrei getað tekið ákvörðun varðandi nokkurn hlut, án þess að það verði rakið nánar hér. Það er bara þannig að þegar ég stend frammi fyrir tveimur valkostum, svo ég tali nú ekki um þegar þeir eru ennþá fleiri, þá tapa ég gjörsamlega áttum og hleyp ráðvilltur í burtu eins langt og fætur toga.
Nú er ég í meiriháttar klípu. Ég er búinn að þræða flestallar húsgagnaverslanir á höfuðborgarsvæðinu og möguleikarnir eru svo margir að mig svimar við tilhugsunina. Á ég að kaupa dökkt borð og ljósa stóla, eða ljóst borð og dökka stóla? Hvernig á viðurinn að vera: hvíttuð eik, kirsuber, hlynur, eða á ég kannski bara að hafa gler? Á ég að hafa bókaskápinn á ganginum og geisladiskana í skrifstofunni, eða geisladiskana á ganginum og bókaskápinn í skrifstofunni? Ég ræð ekki við svona margar ákvarðanir í einu, enda alveg óvanur því að taka ákvarðanir yfir höfuð. Ætli ég endi ekki bara í Góða hirðinum? Þá væri hvíttuð eik a.m.k. alveg út úr myndinni.
|

sunnudagur, apríl 24, 2005

Allt að gerast

Sáttur. Eftir að hafa vaknað kl. 6 til að hugleiða, tvo morgna í röð, er aðeins farið að róast í hausnum á mér. Ekki veitti af, eftir allt sem þar hefur gengið á síðustu vikur.

Glaður. Með að ég skuli hafa fengið heilan gömbukvartett til að koma til Íslands til að kenna og halda tónleika, reddað tónleikum fyrir þau í Salnum, séð um flug- og hótelpantanir, reddað blaða-, útvarps- og sjónvarpsviðtölum, keyrt þau og sótt á ólíklegustu tímum sólarhringsins, farið með þau í sund og út að borða næstum daglega, og ýmislegt fleira sem ekki verður tíundað hér. Samt glaðastur með að þau voru ánægð með dvölina og vilja koma aftur sem fyrst.

Spenntur. Ég fæ lyklana að Rauðalæknum á föstudaginn, viku fyrr en áætlað var. Draumaíbúðin verður senn að veruleika, nú er bara að leggja hausinn í bleyti og ákveða hvernig ég ætla að útfæra þetta allt saman.
|

fimmtudagur, apríl 21, 2005

PS

Fyrir þá sem ekki heyrðu sönglagatónleikana er hægt að nálgast þá hér. Tónlistin er auðvitað frábær, ekki síst brandaralögin í lokin. Flutningurinn gekk líka bara nokkuð vel. Skrýtið hvað maður á alltaf erfitt með að hrósa sjálfum sér, ekki síst svona á opinberum vettvangi. En það er í efni í aðra færslu. Góða skemmtun!
|

Om shanti

Þá er komið að því. Árni Heimir er á leiðinni upp í sveit, þar sem helginni verður eytt í hugleiðslu og pælingar um austurlenska heimspeki. Það verður enginn sími, enginn tölvupóstur, ekkert blogg. Svo þurfum við að vakna klukkan sex á morgnana til að hugleiða. Ég reikna nú frekar með að ég muni bara sofna aftur í hugleiðslunni, en gef því samt séns. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum, þá er sálarvitund alveg málið þessa dagana. Om shanti.
|

mánudagur, apríl 18, 2005

Skyndibitablogg

Útlendingar I. Larry Dreyfus er snillingur, það fer ekki milli mála. Það er alltaf hreinasta unun að fylgjast með honum kenna, hoppandi milli þess að halda fyrirlestra, spila á selló, og impróvísera undirspil við Bach-svítur á sembalinn. Svo áttum við einstaklega eftirminnilegt og ánægjulegt samtal um lífið og ástina í Árbæjarlauginni á laugardagseftirmiðdag. Hann leynir á sér, það er engin spurning.

Útlendingar II. Janna vinkona mín frá kóranámskeiði á Englandi 2001 var í bænum með kammerkór Tónlistarháskólans í Stokkhólmi. Sem hélt frábæra tónleika í Neskirkju, synd og skömm að ekki skyldi vera meira af kórfólki þar. Ekki var síður gaman hjá okkur Jönnu í gærkvöldi, þegar við þræddum skemmtistaði bæjarins af mikilli vandvirkni með hóp sænskra tónlistarnema í eftirdragi. Ef það hefði nú bara verið jafn skemmtilegt í morgun, þegar ég þurfti að vakna fyrir allar aldir til að spila á sembal í masterklassanum...

Kvikmyndahátíð. Mótorhjóladagbækurnar, Vera Drake, Kinsey, Beyond the Sea. Misgóðar eins og gengur, hefði samt ekki viljað missa af neinni.

Mea maxima culpa. Nemendur mínir eiga skilið margfalda afsökunarbeiðni fyrir hvað ég hef verið lengi að fara yfir próf og ritgerðir. Ég væri því vitaskuld manna fegnastur að vera laus við þetta allt, en það hefur bara ekki gefist tími til að klára ennþá. Ég stefni á einkunnaskil fyrir sumardaginn fyrsta; af þessari yfirlýsingu má vera ljóst að ég trúi enn á kraftaverk.
|

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Wie bin ich froh!

Það er margt sem eykur gleði mína þessi dægrin.

Ég fæ íbúðina afhenta eftir þrjár vikur. Ég er búinn að hringja í iðnaðarmenn, og nokkurn veginn leggja línurnar um hvað verður gert og hvernig. Ég er meira að segja byrjaður að kaupa húsgögn, ótrúlegt en satt.

Ég framlengdi Ameríkuferðina og verð aukahelgi í New York! Ella Sigga, Olivier, Tasha og fleira gott fólk er í startholunum, þetta verður án efa djammhelgi ársins...

Ég keypti mér tíu mynda passa á kvikmyndahátíðina, sem er eitt besta framtak í kvikmyndamálum hérlendis um langt skeið. Ef einhver þarf að finna mig næstu vikurnar er sennilega best að byrja að leita í Regnboganum.

Larry Dreyfus, gömbumeistari alheimsins, er að koma til Íslands og ég verð þess heiðurs aðnjótandi að vera hjálparhella hans í viku. Spurning hvort ég kippi honum ekki bara með í bíó?
|

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Tónleikar!

Unnendur íslenska sönglagsins geta tekið gleði sína á ný. Næstkomandi þriðjudagskvöld kl. 20 munum við Hallveig og Eyvi (sem af einhverjum ástæðum er hættur að blogga) flytja stórskemmtilegt sönglagaprógramm í Salnum í Kópavogi. Nánar um það hér. Meðal hápunktanna verða þrír glænýir dúettar eftir Hildigunni, við Vísur fyrir vonda krakka eftir Davíð Þór Jónsson, sprenghlægilegu Heimskringlulögin hans Tryggva snillings, og frumflutningur á 59 ára gömlu lagi eftir hina síspræku Jórunni Viðar. Ég er bara farinn að hlakka heilmikið til.
|

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Hver vill miðann minn?

Þessa daga heiðrar Maxim Vengerov okkur Íslendinga með nærveru sinni. Kappinn er sagður spila fantavel á fiðlu og ferðast hann um heiminn endilangan til þess arna. Þó hef ég hann grunaðan um að finnast ekkert sérlega skemmtilegt að spila á fiðluna sína, því að á milli þess sem hann heldur tónleika gerir hann ekki annað en fjasa um hvað sig langi til að keyra um Bandaríkin þver og endilöng á mótorhjóli. Og eins og til að ítreka hvað honum finnst leiðinlegt að spila á fiðlu ætlar Vengerov að dansa tangó við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöld. Allt væri þetta svosem í góðu lagi ef blessaður drengurinn kynni að dansa tangó. Frammistaða hans í sjónvarpsfréttunum vakti að minnsta kosti engar væntingar. Meira að segja gellan frá hollenska þjóðarballettinum sem hann flutti til landsins af þessu tilefni gat engu bjargað. Ég er að hugsa um að halda mig heima; ef einhvern langar í miða skal ég gefa minn með glöðu geði.

Vonandi sagði einhver góðhjörtuð sál honum frá tangókennslunni í Iðnó í kvöld. Ekki veitir af.
|

Páfahúmor

Svona til að létta aðeins stemmarann á síðunni eftir síðasta blogg... þá finnst mér þetta alveg sjúklega fyndið!
|

sunnudagur, apríl 03, 2005

Requiem aeternam...

Jæja, þá er vesalings páfinn hrokkinn upp af. Ekki skil ég hvað almenningur, fjölmiðlar og leiðtogar heimsins keppast við að mæra þennan mann sem hefur haldið kaþólsku kirkjunni í viðjum miðaldahugsunarháttar í meira en aldarfjórðung. Hann tók t.d. aldrei í mál að konur mættu vígjast til prests, eða að prestar mættu ganga í hjónaband. Hann var harðasti andstæðingur getnaðarvarna og fóstureyðinga um víða veröld. Það hefði að verulegu leyti mátt komast hjá útbreiðslu alnæmis í þriðja heiminum, t.d. í Afríku, með fræðslu um getnaðarvarnir. Í staðinn lýsti páfinn því yfir að smokkurinn væri Guði ekki þóknanlegur og fólk ætti á hættu að lenda í heitasta helvíti fyrir að nota hann. Og með því að fordæma samkynhneigð stuðlaði hann að því að viðhalda þeim vítahring sem hefur viðgengist innan kirkjunnar í aldaraðir: samkynhneigðir kaþólskir menn reyna að bæla kynhneigð sína með því að afneita holdinu og vígjast til prests, en springa svo á limminu og fara að misnota saklausa unga drengi. Enginn maður í heiminum í dag hefur haft jafn mikla möguleika á að breyta jafn miklu og Jóhannes Páll páfi. Og gert jafn lítið í því.

En maður á víst að tala fallega um fólk sem er nýdáið. Enda get ég sagt í fullri einlægni að ég vona að páfinn hvíli í friði. Og með honum sá hugmyndaheimur þröngsýni og fordóma sem hann breiddi út meðal trúaðra um allan heim.
|