miðvikudagur, mars 30, 2005

Könnunin mín

Já, ég get ekki leynt því að ég er afskaplega vonsvikinn yfir niðurstöðum nýju könnunarinnar. Það að klassísk tónlist sé allt að 70% leiðinlegri en áður var talið er hreint og beint áfall. Það þýðir auðvitað ekkert lengur að ætla að hafa það að ævistarfi að uppfræða fólk um eitthvað jafn gjörsamlega ömurlegt, ætli ég innriti mig ekki bara í lögfræði í haust. Þeir sem ekki fylgjast með jafnmikilvægum tíðindum í sögu sígildrar tónlistar er bent á þessa frétt. Og sá sem svaraði því til að 9. sinfónía Beethovens væri hrúthrútleiðinleg má eiga von á heimsókn frá mér næstu daga.

Annars er alltaf gaman þegar rannsóknir manns eru teknar fyrir á jafn víðfrægum fréttavefjum. Stærsta stundin mín á þessum vettvangi var nú samt þegar ég uppgötvaði X-dúrinn. Sá gleðidagur rennur mér seint úr minni.
|

mánudagur, mars 28, 2005

Á síðustu stundu

Af hverju er ekki hægt að biðja mann um hluti með almennilegum fyrirvara? Ég þarf að vera búinn að skrifa prógrammtexta um Bach-svíturnar á morgun, og grein fyrir Nordic Sounds á miðvikudaginn. Ég var beðinn um hvort tveggja rétt fyrir páska.

Ef ég væri ekki svona rosalega kúl á því hefði ég auðvitað farið alveg á taugum yfir þessu og setið sveittur alla páskana við að fínpússa hverja einustu setningu.

Ég er ekki byrjaður.

Í staðinn eyddi ég fríinu í að lesa ævisögu Leonardos da Vinci. Og verð nú bara að segja að slúðurfréttir nútímans komast ekki í hálfkvisti við það sem gekk á í Flórens undir lok 15. aldar. Framhjáhöld, skilnaðir, hommagangur, kaldrifjuð morð, morðtilraunir og blóðugar aftökur hvert sem litið er. Hver þarf Séð og heyrt, ég bara spyr?
|

miðvikudagur, mars 23, 2005

Hið ósýnilega páskafrí

Ég vandist því snemma á Ameríkuárunum að fá ekkert páskafrí. Ég man hvað mér fannst skrýtið, fyrsta árið mitt úti, að þurfa að taka þrælerfitt hljómfræðipróf á föstudaginn langa. Síðan hætti ég mjög fljótlega að kippa mér upp við þetta. Í jafn fjölmenningarlegu samfélagi og Bandaríkin eru væri auðvitað fáránlegt að gefa frí í hvert skipti sem einhver trúarhópur heldur hátíð. Þá væri bara eintómt frí allt árið út í gegn.

En einhvern veginn bjóst ég nú við því að þegar ég flytti aftur heim á skerið fengi ég páskafrí eins og í gamla daga, þegar maður gerði ekkert annað í heila viku en að horfa á sjónvarp og borða páskaegg. En það hefur verið lítið um svoleiðis páskafrí fram að þessu. Næstu daga þarf ég að fara yfir eitthvað um 30 próf, æfa mig svo ég verði í sæmilegu formi á tónleikunum 12. apríl, og skrifa texta í næsta ársbækling Sinfóníunnar. Ég á örugglega eftir að finna tíma til að sporðrenna svona eins og einu páskaeggi, en ætli það verði nú mikið meira en það...
|

sunnudagur, mars 20, 2005

You can dance...

Brúðkaup eru alltaf eintóm hamingja. Tvær manneskjur játa hvor annarri ást sína frammi fyrir Guði og í viðurvist sinna kærustu vina og aðstandenda. Loftið er mettað af gleði og hamingjuóskum, og maður kveður slíkar stundir fullur sannfæringar um að okkur sé öllum ætlað að finna hinn eina sanna eða hina einu sönnu. Lífið virðist aldrei eins einfalt, og ástin eins fölskvalaus, og einmitt á brúðkaupsdegi.

Í gær gekk Andri Már bróðir minn að eiga sína ástkæru Völu, og það var mikið og veglegt brúðkaup eins og þeirra var von og vísa. Reyndar lét brúðurin bíða eftir sér í hálftíma og litli strákurinn þeirra var ekki alveg sáttur við allt umstangið í kirkjunni, en samt var þetta fullkomið. Ég hef reyndar aldrei verið viðstaddur brúðkaup sem mér fannst ekki vera fallegasta brúðkaup í heimi. Þannig á það bara að vera, og þannig var það í gær.

Eftir fallegt strengjakvartettsspil, ljúffenga fjórréttaða máltíð og nokkur dansspor við undirleik Milljónamæringanna var samt kominn tími til að róa á önnur mið. Fyrst var haldið í LHÍ-partý og þaðan á 22, þar sem nemendur mínir og DJ Palli stóðu sig heldur betur í stykkinu og klykktu út með því að spila Dancing Queen mér til heiðurs. „You can dance, you can jive“ – hvað er betur til þess fallið að láta mann gleyma stund og stað, og svífa alsælan upp í glitrandi himinhvolf diskólandsins? Þar með var kvöldið líka fullkomnað, og ekkert annað að gera en þakka fyrir sig og halda heim á leið.

Og nú er ég sá eini í eldri-systkinahópnum sem ekki er genginn út. Eitthvað segir mér að það sé ekkert á leiðinni að breytast á næstunni. Og ef það skyldi einhvern tímann gerast grunar mig að þar muni engin óstundvís brúður koma við sögu, hvað þá grenjandi krakki.
|

miðvikudagur, mars 16, 2005

Sniðugir strákar

Hvað er betra til að rífa mann upp úr hversdagsdoðanum en ný og fersk tónlist? Það eru jú takmörk fyrir því hvað maður getur hlustað á mikinn Bach og Beethoven, alveg eins og það eru takmörk fyrir því hvað maður getur borðað mikið súkkulaði. Það ætti ég nú að vita manna best.

Þess vegna þarf maður að vera opinn fyrir nýjungum og vera duglegur að hlusta, jafnvel þótt manni líki kannski ekki við nema brot af því sem fyrir eyru ber. Í síðustu viku kynnti ég mér tvo unga tónlistarmenn sem komu mér mjög á óvart. Sá fyrri er 24ra ára gamall og heitir Nico Muhly, nýútskrifaður frá Juilliard með mastersgráðu í tónsmíðum. Hann er í hlutverki flippaða djasspíanistans á Oceania, þ.e.a.s. í hinni stórskemmtilegu piano/vocal útgáfu (þeir sem hafa ekki heyrt hana geta nálgast brot úr henni hér). Svo er hann bara efnilegt tónskáld í þokkabót!

Rufus Wainwright er líka athyglisverður tónlistarmaður, en ég á samt dálítið erfitt með að taka mann með svona fyndið nafn alvarlega. Mér finnst að það hljóti að vera nafn á karakter í skáldsögu eftir Jane Austen eða einhvern álíka höfund. Hins vegar er Wainwright mjög athyglisvert söngvaskáld og greinilega maður á uppleið, enda varla hægt að komast neðar á botninn en að verða blindur af amfetamínneyslu, eins og hann lenti víst í fyrir nokkrum árum. Hér er fróðlegt viðtal fyrir þá sem hafa áhuga.

Góða skemmtun!
|

mánudagur, mars 14, 2005

Plögg vikunnar

er á síðunni hennar Vælu... allir að mæta!
|

miðvikudagur, mars 09, 2005

Home alone

Nú eru elskulegir foreldrar mínir á leið til New York, þar sem þau munu eyða næstu vikunni í faðmi fjölskyldunnar - að mér undanskildum, auðvitað. Já, á meðan mamma, pabbi og litla systir rölta um fimmtu breiðgötu, fara í ótal skemmtilegar búðir, sporðrenna dýrindis steikum og fá ókeypis miða á hinar og þessar Broadway-sýningar, er ég fastur á Íslandi. Ég þarf nefnilega að kenna litlu gríslingunum um aleatorík og mínímalisma, lesa svona skrilljón lokaritgerðir og spila með frú Vælu, sem er í þvílíkum ham þessa dagana.

Til að stytta mér stundirnar í þessari miklu einsemd hef ég ákveðið að breyta heimilinu í næturklúbb á kvöldin. Ó já, hér verður dansað, drukkið og sungið langt fram á nótt. Diskókúlan er komin upp, bjórinn á leið í hús og græjurnar tilbúnar. Á laugardag verður ABBA-kvöld (nema hvað?), og á sunnudagskvöld er karaoke á dagskrá. Á neðri hæðinni verður boðið upp á lifandi djass og Simpsons-maraþon inn á milli. Og jú, ég geri fastlega ráð fyrir að móðir mín fái hjartaáfall þegar hún les þetta blogg.
|

föstudagur, mars 04, 2005

Kaupæði

Ég held að ég sé nú ekki neitt sérlega kaupóður í eðli mínu, og þakka raunar fyrir að hafa ekki fengið nema brotabrot af þeim kaupgenum sem virðast grassera í ættinni, sérstaklega kvenleggnum. Hins vegar á ég mjög erfitt með að stilla mig þegar kemur að bókum, nótum eða geisladiskum. Þá liggur nærri að ég umturnist gjörsamlega, kaupæði mitt í þessa hluti er slíkt að því má eiginlega lýsa sem fíkn.

Ég heiti Árni Heimir og ég er fíkill í bækur, nótur og geisladiska.

Í dag féll ég, en bara smá. Ég fór á bókamarkaðinn í Perlunni, og ég fann um leið og ég labbaði inn um hringdyrnar að þetta myndi ekki fara vel. Það var einhver einkennileg stemmning þarna sem lýsti sér best í risavöxnum innkaupakerrunum sem biðu manns við innganginn, fyrir hina sönnu bókafíkla sem kaupa sér bækur í hundraðatali og detta svo í það yfir helgi og fram yfir þá næstu, sjást næst illa til fara og hálfvankaðir niðri í miðbæ eftir tíu daga samfelldan bóklestur. Miðað við allt þetta stóð ég mig furðu vel. Ég stóðst freistingarnar hverja eftir aðra: skáldsögurnar, fræðiritin, fornbókahornið, listaverkabækurnar. En þegar ég kom að ljóðaborðinu var styrkurinn á þrotum, ég var búinn að neita mér um of margar girnilegar bækur á of stuttum tíma. Nú ligg ég uppi í rúmi með fimm úrvals ljóðabækur og gæti varla verið ánægðari með lífið. Fer ekki annars að styttast í næsta geisladiskamarkað?
|