mánudagur, febrúar 28, 2005

Hinir grimmu mánuðir

Ég er virkilega sár. Undanfarna daga hefur mér fundist vorið vera alveg á næsta leiti; hlýindin og gróðurilmurinn voru farin að gefa ljúffeng fyrirheit um að mestu vetrarhörkurnar væru um garð gengnar. Ég var farinn að draga fram stuttermaboli, sólgleraugu og hlaupagalla í þeirri vissu að þetta væri allt saman klappað og klárt, vorið væri komið og grundirnar farnar að gróa.

En nei. Nú ætla veðurguðirnir sannarlega að hefna sín fyrir þessa nokkru vordaga sem við fengum svona gjörsamlega óverðskuldað, með því að senda á okkur frosthörkur og norðangadd sem aldrei fyrr. Verst er samt að vita að svona verður þetta næstu mánuðina. Væntingarnar glæðast en eru svo kramdar ofan í svaðið með enn einu kuldakastinu, og svona gengur þetta fram og til baka alveg þangað til í júní, þetta „að vera eða vera ekki”–tímabil sem við Íslendingar köllum vor.

Sumarfötin eru semsagt komin aftur inn í skáp, og sólgleraugun ofan í skúffu. T.S. Eliot hafði svo sannarlega rangt fyrir sér: apríl er ekki grimmasti mánuðurinn, a.m.k. ekki á landi elds og ísa. Þar eiga febrúar og mars pottþétt vinninginn.
|

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Medúllus

Eins og sumir lesendur vita á ég mér „alter ego,” þ.e. svona týpu sem stendur fyrir ákveðinn hluta af persónuleika mínum. Ég kalla hann Medúllus, og hann hefur gaman af því að hlusta á ABBA og Sigur Rós, leika sér í vatnsrennibrautum og horfa á Simpsons og ER. Medúllus er líka harðsvíraður Bjarkar-aðdáandi, enda nafnið dregið af nýjustu plötu stjörnunnar.

Í dag var mikill gleðidagur fyrir Medúllus. Fyrir nokkrum vikum var hann beðinn að sitja í dómnefnd um menningarverðlaun hér í bæ, og það þarf ekki að spyrja að því hvernig það fór. Björk gleypti verðlaunin með húð og hári; klassíski geirinn átti hreinlega ekki séns gegn meistaraverki ársins 2004, síst af öllu meðan Björk hafði jafn ötulan talsmann og Medúllus í dómnefndinni. Í dag var svo verðlaunaafhending. Medúllus hefur ekki lifað aðra eins gleðistund og að standa í anddyrinu í Iðnó með rauðvínsglas í hendi, spjallandi við gyðjuna sína um daginn og veginn. Sameiginlegir vinir í Ameríku komu m.a. við sögu, líka músíkgrúsk og Igor Stravinskí. Jibbí!
|

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Nýtt plan

Ég vil byrja á því að þakka fyrir hvatningarorðin, en Martha verður að bíða betri tíma. Það er nefnilega komið nýtt plan: Operation Rimini! Já, ég er á leið til fyrirheitna landsins eftir allt of langt hlé. Í júlímánuði mun ég flatmaga vikulangt í Miðjarðarhafssólinni, ásamt Hallveigu, Hildigunni, og öðru góðu fólki. Einnig er í bígerð menningarferð til Flórens og matarferð til Bologna. Og þar sem fjárhagurinn hefur oft verið betri er Mörthu hér með slegið á frest.

Og fyrir ykkur sem beiluðuð á Myrkum músíkdögum verða tónleikarnir með Nicole í útvarpinu á mánudaginn. Ég er búinn að heyra upptökuna og er bara nokkuð sáttur, nema mér finnst stundum heyrast of mikið í mér. En það er auðvitað bara krónískt undirleikarasyndróm, ekki satt?
|

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Freisting mánaðarins

Þeir sem þekkja mig vel vita að ég get verið hinn mesti meinlætamaður þegar svo ber undir. Það blundar í mér munkur sem fær útrás annað slagið, t.d. þegar ég neita mér um eitthvað í mat, drykk eða veraldlegum þægindum af ýmsum toga. Fjölskylda mín hefur líka uppi ákveðnar kenningar um að líkamsræktaráráttu mína, og þá ekki síst maraþontilþrif, megi flokka undir sjálfspyntingarhvöt sem ætti helst heima í einhverju afbrigðilegu sértrúarklaustri. Og í þau tvö skipti sem ég hef heimsótt alvöru klaustur hefur mér fundist ég vera á mjög svipaðri bylgjulengd og munkarnir, nema hvað ég er ekki kaþólskur og geng aldrei í öllu svörtu.

En sumar freistingar er erfitt að standast. Eins og þegar Martha píanódýrlingurinn minn heldur tónleika í sömu heimsálfu og ég er staddur í þá stundina. Ég hef tvisvar ferðast frá Boston til New York bara til að heyra hana spila, og hún var fullkomlega þess virði. Nú var ég að frétta frá vini mínum í Kaupmannahöfn að hún ætli að halda tónleika í útvarpshúsinu 5. mars. Sem er laugardagur, og það þýðir að ég gæti tekið Iceland Express á föstudegi og verið kominn aftur á sunnudegi. Ég get staðist allar heimsins rjómakökur, áfengi, tóbak, pizzur og kók. En nú reynir virkilega á viljastyrkinn...
|

mánudagur, febrúar 14, 2005

Í tilefni dagsins:

BAH! HUMBUG!

Og hananú.
|

föstudagur, febrúar 11, 2005

Vinnuferðin ógurlega

Þegar mér var sagt að ég ætti að fara í stefnumótunar-vinnuferð út á land með öðrum kennurum í LHÍ var mér vægast sagt lítið skemmt. Ég sá fyrir mér óhrjálegan veiðikofa lengst uppi á öræfum þar sem við myndum hírast í kulda og vosbúð, og mjög líklega deyja úr leiðindum. En nei, það var nú eitthvað annað. Veiðihúsið við Grímsá er hreinasti lúxus, við vorum þarna í góðu yfirlæti með tvo kokka sem röðuðu ofan í okkur kræsingunum á meðan við sátum og funduðum. Þess á milli var spjallað um heima og geima; það er heilmikið af hæfileikafólki sem kennir við skólann og gaman að geta talað við þessa sérfræðinga um leiklist, myndlist og arkítektúr. Að loknum kvöldmat með tilheyrandi drykkju var farið í heitu pottana. Það var stjörnubjartur himinn og fossinn í Grímsá var lýstur upp, smekklega þó, svo að umhverfið var hreinlega guðdómlegt. Eftir því sem drykkjan færðist í aukana fór hitt og þetta að gerast, og var ýmislegt svona frekar í skrautlegri kantinum. Ég frábið mér frekari lýsingar á atburðum næturinnar, en í morgun var sumsé keyrt með einn deildarforseta og einn prófessor á slysó í Borgarnesi. Sem betur fer var það nú ekkert alvarlegt, skurður á fæti og handleggur í fatla. Hvað leggur maður ekki á sig fyrir þennan skóla?

Annars er ég frekar svekktur. Ég er með eldrauða bólu á nefinu og það er sko engin smábóla. Það eru komnir þrír dagar og samt held ég að hún sé öll að færast í aukana. Mér finnst hreinlega ekki sanngjarnt að fólk sem er komið yfir þrítugt skuli ennþá þurfa að kljást við bólur og fílapensla. Það er nú nóg á okkur lagt samt.
|

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Úje!

Já góðir hálsar, það er hér með orðið opinbert. Farið bara inn á þessa síðu og tékkið á gleðinni. Þið þurfið að fara neðarlega, nánar tiltekið 7. janúar 2006. Spurning hvort maður eigi eitthvað að kenna þeim að stafsetja Reykjavík, mér finnst þetta reyndar bara sætt. Svo er prógrammið ennþá alveg galopið, ég tek við óskalögum fyrir þeirra hönd ef fólk vill leggja eitthvað til málanna. Tallis og Byrd verða þó væntanlega aðalgaurarnir á staðnum, enda báðir heví flottir.

Hvar finnst ykkur svo að við eigum að halda tónleikana? Er ekki bara málið að rokka þetta dáldið upp og fá Egilshöll undir liðið?
|

föstudagur, febrúar 04, 2005

I would like to thank...

Ég legg til að allir íslenskir tónlistarmenn verði sendir á ræðu- og framkomunámskeið. Ég gafst upp á að horfa á tónlistarverðlaunin á miðvikudaginn, mér fannst svo átakanlegt að sjá allt þetta hæfileika- ríka fólk koma upp á svið hvert á fætur öðru, muldra „takk fyrir“ ofan í barminn og ráfa svo aftur í sætið sitt.

Ég meina, kommon! Ef við ætlum að halda svona hátíð í beinni útsendingu í sjónvarpi og taka þetta allt á einhverjum Hollywood-stælum verðum við að geta staðið undir því. Hvar var allt dramað? Allar magnþrungnu þakkarræðurnar? Ég vildi sjá Helgu Ingólfs falla í yfirlið þegar salurinn stóð á fætur. Ég vildi sjá Bryndísi Höllu missa legvatnið þegar hún staulaðist upp í seinna skiptið. Ég vildi sjá Palla Rósinkrans fyllast heilögum anda og halda fjallræðu okkar tíma á sviðinu í Þjóðleikhúsinu.

Meira drama takk, annars getum við bara haldið þessa afhendingu í stofunni heima hjá Einari Bárðarsyni og sleppt öllu tilstandinu.
|