sunnudagur, janúar 30, 2005

PS

Eins og fyrra blogg ber með sér er ég alveg glataður þegar kemur að svona kynningarstússi. Ég held að það sé bara eitt starf sem eigi hugsanlega verr við mig en að vera trommari í þungarokkssveit, og það er að vinna á auglýsingastofu.
Mér dettur þetta bara svona í hug af því að mér var bent á að ég gleymdi að nefna tvö mikilvæg atriði sem gætu haft í för með sér að fólk myndi aktjúallí mæta á téða tónleika. Nefnilega stað og stund. Svo hérna hafiði það: Salurinn, Kópavogi, klukkan 20.00 á þriðjudagskvöld.

Svo vil ég hér með koma því á framfæri að ég á bestu og skemmtilegustu og sætustu litlusystur í heimi. Takk fyrir.
|

föstudagur, janúar 28, 2005

Plöggablogg

Já gott fólk, það er komið að því. Á þriðjudagskvöld munum við Nicole taka íslenska sellótónlist í nefið, svei mér þá. Þetta verður svo mikið rokk að grey tónskáldin munu hreinlega ekki vita hvaðan á þau stendur veðrið. Það er að segja þeir af tónskáldunum sem verða viðstaddir, sumir eru löngu komnir undir græna torfu svo ég á ekki von á því að þeir mæti. Það var svosem auðvitað að Árna Heimi tækist að grafa upp eitthvað gamalt og skrýtið sem enginn hefur heyrt. En þetta er massaprógramm, Úbbi, Kalli og Totti (þ.e. Victor Urbancic, Karl O. Runólfsson og Þorkell Sigurbjörnsson) eiga allir sín gullnu móment. Og kadensan mín er bara þvílíkt stuð, Rachmaninoff á sýru, eða þannig... Allir að mæta!
|

mánudagur, janúar 24, 2005

Gulrót
Þetta eru nú meiri öðlingarnir hjá Félagi heyrnarlausra, að gefa út svona fínar skýringarmyndir.

Þetta gæti nefnilega mjög auðveldlega misskilist...
|

laugardagur, janúar 22, 2005

Og þú ert...?

Ég er svo ómannglöggur að það er vandræðalegt. Til dæmis hitti ég oft konu á sinfóníutónleikum sem ég veit að ég á að vita hver er. Hún þekkir mig a.m.k. greinilega, og það bara nokkuð vel. Hún gefur sig iðulega á tal við mig, spjallar um tónleikana og svona, spyr hvað mér finnist um einleikara eða stjórnanda kvöldsins, og svo segir hún mér alltaf fréttir af syni sínum sem heitir Ragnar og hlýtur að vera á aldur við mig. Síðast þegar ég sá hana geislaði hún af ánægju því að Ragnar var nýtrúlofaður og búið að ákveða brúðkaup í sumar. Mig grunar að ég eigi að vita hver þessi Ragnar er, gamall skólafélagi kannski, hvað veit ég. Ég kinka bara ákaft kolli og þykist vera alveg með á nótunum, bið að heilsa Ragnari og forða mér í burtu við fyrsta tækifæri. Allt frekar pínlegt semsagt.

Í mínum draumaheimi ganga allir með nafnspjald í barminum.

|

miðvikudagur, janúar 19, 2005

My so-called life

Ég á mér ekkert líf. Tilvera mín snýst um skólann (sem er ágætur), píanóið (sem á sína góðu og slæmu daga) og kórinn (sem er frábær, þökk sé Arvo Pärt). Um síðustu helgi fór ég reyndar á djammið, en það var ekki beinlínis gæfulegt. Ég var ekki fyrr stiginn út á dansgólfið en fimm fílefldir lögreglumenn komu og lokuðu staðnum. Þeir voru eitthvað að blaðra um vínveitingaleyfi, en ég vissi betur. Þeir höfðu frétt að ég væri mættur á staðinn og vildu koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum að ég færi eitthvað að sletta úr klaufunum. Svo nú lýsi ég því bara yfir að ég er hópless keis, best ég fari aftur að æfa mig eða eitthvað...
|

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Í skólanum, í skólanum...

Þá er skólinn byrjaður aftur og hætt við því að bloggið verði frekar stopult næstu vikurnar. Ég hef alltof mikið að gera í þessum skóla, og það er bara sjálfum mér að kenna. Allir áfangarnir sem ég kenni eru annaðhvort skylda, eða þá að fólki þykir viðfangsefnið spennandi og skráir sig þess vegna í þá. Þetta þýðir að stundum þarf ég meira að segja að kenna tvöfalt, þar sem allar stofurnar í þessum skóla eru á stærð við skóskáp. En nú er ég loksins búinn að finna leið út úr þessari klípu. Ef ég býð bara upp á hrútleiðinlega áfanga á enginn eftir að skrá sig, og þar með er ég laus allra mála!
Þess vegna lítur kennsluskráin mín fyrir næsta ár einhvernveginn svona út:

Menúettinn í sinfóníum Haydns.
Sænsk rómantík frá Crussel til Stenhammar.
Óperur Smetana. Tékkneskukunnátta æskileg.

Þá getur maður loksins sett lappirnar upp í loft og eytt dögunum í sjónvarpsgláp og tölvuleiki. Það er nefnilega alveg ég.


|

mánudagur, janúar 10, 2005

28. sætið!

Ég get ekki að því gert, mér finnst það ógeðslega kúl að tvísöngsdiskurinn sé kominn inn á topp 30 listann. Næst á undan okkur á listanum eru Queen og Britney Spears, svo það er ekki leiðum að líkjast. Enda liggur næsta skref alveg í augum uppi: nú bætum við flottum bítum við lögin og gefum út sem „dance remix“.
Við munum sigra heiminn, það er engin spurning!
|

laugardagur, janúar 08, 2005

Loksins!

Já, loksins hefur það gerst sem ég hef beðið fullur eftirvæntingar og undirbúið af mikilli kostgæfni síðustu mánuðina: ég er orðinn gjörsamlega staurblankur og skuldum vafinn upp fyrir haus. Með öðrum orðum: ég keypti íbúð í gær. Sem þýðir að innflutningspartý sumarsins 2005 verður haldið að Rauðalæk 73 – nánar auglýst síðar...
|

föstudagur, janúar 07, 2005

26 dagar

Það eru 26 dagar í tónleika, og við Nicole fengum fyrstu blaðsíðurnar af nýja verkinu hans Huga í gær! Svona er þetta, manni hefnist fyrir að ætla að spila þessa nútímatónlist. Best að spila yfirleitt enga tónlist nema hún sé að minnsta kosti þrjúhundruð ára gömul, þá lendir maður aldrei í tímahraki. Nema það sé þá manni sjálfum að kenna. Sem betur fer er þetta nú ekkert óspilandi, a.m.k. ekki það sem er komið, ég fæ meira að segja að gera allskonar sniðugt eins og að dempa strengina með puttunum og búa til megaflotta yfirtóna.

Annars er ég bara nokkuð sáttur, enda deit kvöldsins mun betur heppnað en það síðasta. Ekki meira um það í bili samt, ég er svo óskaplega hjátrúarfullur!
|

sunnudagur, janúar 02, 2005

2005

Inni:
Nýja árið
. Fullt af dásamlegum fyrirheitum um betri tíð og blóm í haga.
Vinir mínir. Sem eru alveg frábærir, í einu orði sagt.
Vorið í Boston. Nánar tiltekið 13.-20. maí. Þökk sé Vildarklúbbi Icelandair.
Johann Sebastian Bach. Af því hann er alltaf inni, sama á hverju gengur.

Úti:
Fjölskylduboð
. Alveg þangað til um næstu jól.
Vínarprógrömm Sinfóníunnar. Með því leiðinlegasta sem maður lendir í.
Píanókadensur í sellóverkum. Ég meina, hvað á vesalings Nicole að gera af sér meðan ég sit og hamast gegnum einhverja skíterfiða kadensu í fimm mínútur?
Sumt fólk. Af því bara.
|