miðvikudagur, desember 29, 2004

Letijól

Meiri en nokkru sinni fyrr, en það kemur reyndar ekki bara til af góðu. Raddleysi og almennur slappleiki halda áfram að hrjá mig, og þess vegna ákvað ég að liggja bara í rúminu þessi jólin og ná þessu úr mér í eitt skipti fyrir öll. Sem hefur reyndar gengið upp og ofan, en það er önnur saga. Meðal þess sem ég afrekaði var lestur og sjónvarpsgláp, sem skal nú tíundað í sérstökum lista:

Bækur:
Sunnan við mærin, vestur af sól.
Fyrsta bókin sem ég les eftir Murakami, sem er nettur skandall þar sem ég fékk örugglega fimm í afmælisgjöf í fyrra. Góð byrjun samt, athyglisverður höfundur.
Ellefu mínútur. Mjög skrýtin, eins konar blanda af Alkemistanum og Lilya 4-Ever. Smám saman rennur samt upp fyrir manni hvert Cuelho er að fara, og þegar upp er staðið er þetta yndislega falleg saga sem kennir manni ýmislegt um lífið og ástina. Femínistinn sem gjörsamlega slátraði þessari bók í Lesbókinni um daginn er á algjörum villigötum!
Samkvæmisleikir. Fín bók, vel skrifuð og allt það, en ég varð samt fyrir vonbrigðum. Kannski búinn að heyra of margt gott um hana, og bjóst við að slitrótt atburðarásin myndi enda í einhverri mjög óvæntri uppljóstrun á síðustu blaðsíðunum. Mér finnst alltaf gaman þegar maður áttar sig loksins á einhverju alveg undir lokin sem fær mann til að lesa alla bókina strax aftur, en það gerðist semsagt ekki hér...
The Curious Incident of the Dog in the Night Time. Snilldarverk, skrifað frá sjónarhóli fimmtán ára stráks með Asberger-heilkenni. Hins vegar er ég mjög ósáttur við heitið á íslensku þýðingunni: Furðulegt háttalag hunds um nótt er bara engan veginn nógu gott. Incident er atburður eða atvik, að þýða það sem háttalag (ens. behaviour) er alveg út í hött þar sem bókin byrjar á því að hundurinn finnst dauður! Óvænta atvikið með hundinn væri skárra, held ég. Og nú hafa lesendur kynnst málfarsfasistanum sem blundar í mér, þetta verður varla í síðasta sinn sem hann lætur ljós sitt skína.

Myndir:
Elizabeth. Sagan er auðvitað góð, og Cate Blanchett er æðisleg. En hvað voru þeir að hugsa að láta tónlistina við dramatíska lokaatriðið (þegar Elísabet ákveður að breyta um stíl og verður „The Virgin Queen“) vera Sálumessu Mozarts? Þetta er sagnfræðilegt klúður af hæstu gráðu, það munar jú heilum 200 árum og a.m.k. 1000 kílómetrum! Ég er alveg æfur, held ég gefi diskinn bara á tombólu við fyrsta tækifæri.
The Story of the Weeping Camel. Ókei, ég veit að það hljómar fáránlega, en þessi heimildarmynd um fæðingu kameldýra í eyðimörkinni í Mongólíu var alveg frábær! Ég missti af henni þegar hún var sýnd hér á einhverri kvikmyndahátíð, svo ég gaf mömmu hana í jólagjöf og hún sló alveg í gegn!
Verbier Festival Piano Extravaganza. Guð minn góður! Martha Argerich og Evgeny Kissin að spila fjórhent á píanó! Og svo horfa þau næstum ekkert á nóturnar heldur bara hvort á annað, með augnaráði sem er hreinlega á mörkum velsæmis, eins og þetta sé einhver kinkí forleikur hjá þeim. Spilamennskan er samt guðdómleg!

Ekki verður fjölyrt hér um aðra iðju mína þessi jólin, enda ekki alveg útséð með útkomuna í öllum tilfellum. Margt ætti þó að skýrast mjög snemma á nýja árinu. Var þetta ekki örugglega nógu óskiljanlegt?

Gleðilegt ár, vinir mínir nær og fjær!
|

mánudagur, desember 27, 2004

Meira en flaskan fríða...

Já, tvísöngsdiskurinn fékk þessa fínu dóma í Mogganum í dag! Ég er nú bara stoltur af því að hafa látið strákana syngja „of fallega“ (ég meina, hvað er maður oft gagnrýndur fyrir svoleiðis?). Eina sem ég er að velta fyrir mér er af hverju þeir notuðu ekki bara fermingar- myndina mína, fyrst þeir voru að nota svona eldgamla mynd á annað borð. Merkilegt.

Svo seldist diskurinn víst betur en heitar lummur (ég meina, eru þær í alvöru einhver söluvara?). Þetta er eins og mig hefur lengi grunað, miðaldirnar eru á leiðinni inn aftur, eftir nokkur ár á enginn eftir að muna eftir Bono eða Bítlunum, heldur verða allir komnir á kaf í Gregorsöng og samstígar fimmundir. Jibbí!


|

fimmtudagur, desember 23, 2004

Jólablogg

Í tilefni jólanna birtist hér í fyrsta sinn kvæði sem ég orti á jólunum þegar ég var tveggja ára, og söng í segulbandstæki móður minnar með mikilli gleði. Það verður víst seint sagt að ég hafi verið efni í skáld.

Pakkalagið (Lag: Bráðum koma blessuð jólin)
Jólapakkar, pakkar, pakkar,
jólapakkar, pakkar, pakkarnir.
Jólapakkar, pakkar, pakkar,
jólapakkar... og ég er í pökkunum.

Lesendum er í sjálfsvald sett hvernig þeir túlka hið óvænta niðurlag kvæðisins, hvort það eigi að taka bókstaflega (að drengnum hafi verið pakkað inn), eða hvort það sé lýsing á annarlegu ástandi hans, að hann hafi hreinlega óverdósað í pakkagleðinni, sbr. að vera í dópinu, vera í ruglinu, o.s.frv.

Gleðileg jól!
|

miðvikudagur, desember 22, 2004

London

Hólí mólí, hvað þetta var skemmtilegt. Þetta var ansi stíft prógramm, stundum voru æfingar allan daginn og tónleikar um kvöldið, en til þess var líka leikurinn gerður. Og þetta kemur til með að nýtast vel, þar sem ég á víst eftir að kórstjórast eitthvað á næsta ári eftir allt saman. Ekki í janúar, samt. Ég var víst búinn að lofa ferðasögu, en þar sem ég reikna með að allir séu í tímaþröng fyrir jólin (ég meðtalinn), verður þetta frekar knappt, svona „Best of London“-listi!

Tallis scholars. Þau eru auðvitað fáránlega góð, jafnvel ennþá þéttari núna en oft áður, enda nýkomin úr Ameríkuferð (13 tónleikar á 15 dögum!). Hápunktur tónleikanna þeirra var Miserere eftir Allegri, sem er fyrir tvo kóra, og sópraninn í kór 2 fer svona átta sinnum upp á háa C. Debbie fór nú létt með það, en það var ekki allt og sumt; þegar leið á stykkið fór hún að skreyta frasana með háa C-inu eins og ég veit ekki hvað. Það var alveg fáránlega flott, þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Árni Heimir var ekki alveg að tapa sér í sætinu yfir þessum ósköpum.

Julia Fischer. Þessi stelpa er hreinlega einn besti fiðluleikari sem ég hef heyrt, punktur. Hún var svo ótrúlega músíkölsk, fraseraði fallega, og kunni að taka nógan tíma og búa til fullt af áhrifaríkum „mómentum“ á stöðum þar sem rútínu-fiðlarar hefðu bara siglt framhjá. Ég held ég hafi nokkrum sinnum gleymt að anda; ef ég virka skrýtinn næst þegar þið sjáið mig er það sennilega súrefnisskortur. Og svo ég spyrji bara einu sinni enn: Af hverju er Elgar-fiðlukonsertinn ekki spilaður oftar?

17 Lowman Road. Það er auðvitað ekki á hverjum degi sem maður hefur til umráða heilt hús í London! Þetta var ferlega notalegt, sérstaklega að kúra sig með góða bók í stóra fína rúminu hans Eyva... takk fyrir lánið, strákar!

HMV. Ég meina, á ég einhverntímann eftir að geta stigið fæti inn í þessa búð án þess að kaupa eitthvað? Núna voru það allir nýjustu diskarnir hennar Mörthu ofurgyðju (þetta er sennilega besti dúó-píanódiskur allra tíma!), og svo þrjár (já, þrjár!) smáskífur með Who is it. Kórmixið er best, nema hvað!

Raphael-sýningin í National Gallery. Nei, endurreisnar-nörddómur minn þekkir engin takmörk. En þetta var flott, gaman að sjá skissurnar og endanlegu málverkin svona hlið við hlið. Svo voru líka málverk eftir Michaelangelo og da Vinci til að maður gæti séð áhrifin frá þeim. Sniðugt.

Og svo auðvitað Andrew Carwood, sem hlýtur að vera einn yndislegasti maður sem fyrirfinnst á jörðunni. Hann var bæði stórskemmtilegur og ótrúlega hjálplegur, hvort sem það var í umræðum um slagtækni eða að fara yfir hugmyndir að prógrömmum. Auk þess sagði hann mér allar kjaftasögurnar um Robert King, en þær verða ekki birtar hér af augljósum ástæðum. Segjum bara að ég hafi fengið staðfestingu á hinu og þessu. Bæjó!


|

mánudagur, desember 13, 2004

Jauchzet, frohlocket!

Já, þetta eru gleðidagar. Jafnvel þó að deitinu hafi verið frestað framyfir Lundúnaferð, og kannski framyfir jól (sorrí, Dísa!). Í gær fór ég á Jólaóratóríuna, sem kom mér í svo mikið jólaskap að það hlýtur að endast fram í mars. Þetta var alveg stórkostlegt, sérstaklega fóru gullbarkarnir Eyvi og Guðrún Edda á kostum. Ég er svo mikill barrokknörd að ég fæ alltaf fiðrildi í magann þegar söngvarar eða hljóðfæraleikarar bæta við fullt af skrauti og krúsídúllum, sem vantaði sko ekki í gær. Og trompetarnir, maður! Ég bara á ekki orð.

Síðan kom tvísöngsdiskurinn minn út hjá Smekkleysu í dag, og ég er alveg í skýjunum yfir því. Ég held að í heildina sé þetta mjög frambærilegt og gott framtak, mikið af þessari tónlist hefur alls ekki heyrst síðan sautjánhundruð og súrkál, sem er auðvitað bara rugl. Takk allir sem hjálpuðu mér, þið eigið von á eintaki bráðlega!

Og svo er það London á morgun... ég get varla beðið! Þetta verður rosalegt prógramm, æfingar og tónleikar á hverjum degi. Sem mótvægi við alla endurreisnartónlistina keypti ég mér samt miða á þessa tónleika, sem eru vægast sagt mjög spennandi. Verst að ég get ekki tekið Helgu Þóru með mér, þá myndi hún sko sannfærast um yfirburði Elgar-konsertsins!

Adios muchachos, ferðasagan kemur eftir viku!


|

föstudagur, desember 10, 2004

Í þessari viku:

...var mér boðið að stjórna mjög spennandi tónleikum, með frábærum flytjendum og flottri tónlist, í janúar. Ég sagði nei. Búinn að lofa mér í of margt á sama tíma, og sá ekki fram á að það myndi ganga upp. Vitiði, ég held að Árni Heimir sé loksins að læra að taka ekki að sér meira en hann ræður við. Eða þannig.

...fór ég á alveg magnaða tónleika með Sinfó og Osmo Vänskä. Geysir gaus, Galdra-Loftur trylltist, og svei mér ef það slitnuðu ekki bara nokkur hár á öftustu fiðlupúltunum þegar mest gekk á. Hápunktur kvöldsins var samt partýið á eftir, þar sem rauðvínið flæddi og við Hreiðar lentum á trúnó með Jórunni Viðar. Þar var allt látið flakka, skal ég segja ykkur!

...kláraði ég að fara yfir öll próf og lokaverkefni. Og ég er ekki frá því að geð- og líkamleg heilsa mín hafi beðið varanlegt tjón af þessum hörmungum. Það er einfaldlega ekkert í heiminum jafn leiðinlegt og að fara yfir próf, það skiptir ekki máli hvort þau eru góð eða vond, þetta er bara horror. Ég sé núna fyrir mér helvíti sem endalausa röð af fólki sem er tjóðrað við skrifborð og situr sveitt við að draga frá stig og gefa einkunnir, og heitir logarnir læsa sig illkvittnislega í afturendann ef maður gefur of hátt eða fer ekki nógu hratt yfir. Nei, þetta er ekkert grín.

...lagði ég drög að því að fara á stefnumót. Já ég veit, það hefði auðvitað hljómað miklu betur að geta sagt að ég hefði farið á stefnumót og síðan hefði komið mjög fjálgleg lýsing á hvað það hefði verið vel heppnað og allt það. En svona er þetta bara, góðir hlutir gerast hægt. Og þar sem einhverjir lesendur þessarar síðu þekkja til viðkomandi verður ekkert meira gefið upp að svo stöddu. Stei tjúnd.
|

mánudagur, desember 06, 2004

Spennan magnast...

Já, nú er ekki nema vika þangað til ég flýg til London og sest að í drottningarbælinu við Lowman Road. Ég er farinn að hlakka rosalega til, meira að segja búinn að panta heilan haug af kórnótum sem kemur til með að fylla pósthólfið hans Braga ástsjúka einhvern næstu daga. Maður verður að eiga nótur að þessu öllu til að geta fylgst með á æfingum; þetta eru tvær messur eftir Victoria og ein eftir Palestrina, og endalausar mótettur eftir hina og þessa. Svo er Peter svo poppaður að hann ætlar að taka nokkra jólaslagara með BBC Singers, ég á nú eftir að sjá hvernig það gengur.

Þeir eru nefnilega soldið fyndnir þessir gaurar, hvor á sinn hátt. Peter er auðvitað í guðatölu hjá mér, ég meina þetta er maðurinn sem hefur selt fleiri diska með endurreisnar-kórtónlist en nokkur annar í heiminum, og kórinn hans er svo fullkominn að það er bara ótrúlegt. En hann kann samt voðalega lítið að stjórna kór, slagið hans er alveg út úr kú, og þegar hann stendur fyrir framan amatörakór og þarf að koma með eitthvað virkilega gott komment er hann alveg ráðþrota. Hann hefur mjög takmarkaðan áhuga á textanum og hvað hann yfirleitt þýðir, og hann er sko ekkert mikið að velta fyrir sér fraseringu eða einhverjum músíkölskum atriðum almennt. Hjá honum er bara eitt sem gildir og það er sándið, þetta fullkomlega blandaða legató-sánd sem er svo ótrúlega himneskt að maður á ekki til orð.

Andrew er eiginlega allt sem Peter er ekki. Hann er í fyrsta lagi frábær tenórsöngvari, en á milli þess sem hann ferðast um heiminn og syngur Bach með náungum eins og John Eliot Gardiner er hann ýmist að syngja með Tallis Scholars eða að stjórna sínum eigin kór, sem er ekki eins góður og Tallis en samt mjög frambærilegur. Hann er frábær kórstjóri, veit nákvæmlega hvaða hreyfing hentar fyrir það sem hann vill ná fram, en svo er hann líka fyndnasti maður í heiminum. Hann er svona týpa sem þarf bara að ganga inn í herbergi til að maður komist í betra skap. Svo þetta á eftir að vera bæði lærdómsríkt og ótrúlega skemmtilegt, ég get ekki beðið.

Í öðrum fréttum er það helst að ég eignaðist eitthvað um 100 yngri systkini í síðustu viku. Sjá nánar á síðunni hans Jóa, sem er einn af mínum andlegu litlu bræðrum. Gaman að því.


|

föstudagur, desember 03, 2004

Skrýtnir dagar...

Og þá er vægt til orða tekið. Það er búinn að vera nettur súrrealismi í gangi síðustu tvo sólarhringana, ég er að vona að hann fari að líða hjá og hinn afslappaði hversdagsleiki taki við. Þetta byrjaði á þriðjudagskvöldið, þegar ég, í miðjum Bach-fyrirlestri á vegum HÍ í Norræna húsinu, missti röddina. Og nú er ég ekki að tala um eitthvað dúllulegt lítið kvef eða slæmsku í hálsi, ég gjörsamlega missti röddina, hundrað prósent. Á meðan fyrirlestrinum stóð fann ég hana fjara hægt og rólega út, valdið yfir raddböndunum varð að engu og að lokum var ég farinn að hvísla í staðinn fyrir að taka sénsinn á því að út kæmu einhver tilviljanakennd froskahljóð. Og með innan við 48 tíma fram að Magnificati var ekki um annað að ræða en að óverdósa á öllum heilsuráðunum. Nefnið það bara: sólhattur, engifer, kamillute, hómópata-fúkkalyfið með viðbjóðslega bragðinu sem bjargaði mér á Englandi í sumar, og svo auðvitað appelsínusafi. Svona eins og tólf lítrar á tveimur dögum. Mér líður eins og nýtíndri Flórída-appelsínu; ég er mest hissa á því að húðin á mér skuli ekki vera orðin skærappelsínugul eftir allt þetta þamb.


Þess vegna hefði ég alveg verið til í að vera í rúminu í gær og taka því rólega, en nei, það gekk ekki alveg upp. Ég var nefnilega beðinn að redda tónlistaratriðum á bænasamkomu vegna alþjóðlega alnæmisdagsins, sem er víst 1. desember á hverju ári. Svo ég hringdi strax í uppáhalds dívurnar mínar (vona að enginn móðgist!), Hallveigu og Sigrúnu Eðvalds, sem tóku þessu svona glimrandi vel. Nema þetta var allt skipulagt með engum fyrirvara, og endaði semsagt þannig að klukkan tvö í gær þýt ég suður í Hafnarfjörð að sækja nótur til Sigrúnar að einhverri Veracini sónötu sem ég þekkti ekki neitt. Svo var stutt rennsli klukkan fjögur, og klukkan níu stóðum við í Fríkirkjunni og spiluðum! Mér leið eins og í gamla daga þegar það var prófað í blaðlestri á stigsprófum, nema þá var enginn heimsklassafiðluleikari uppi á sviði með manni. Þetta gekk nú samt allt furðu vel, a.m.k. held ég að ég hafi komist skikkanlega frá þessu. Hápunktur kvöldsins var samt Hallveig, sem söng Kaldalóns Ave Maríuna svo stórkostlega fallega að öll kirkjan fékk gæsahúð og tár í augun. Takk fyrir hjálpina, elsku dúllurnar mínar!

Svo gekk Magnificat svona líka dúndrandi vel, allir í skýjunum og ég bara nokkuð sáttur, þótt röddin hafi bara verið í meðalformi og reyndar nokkuð minna en það á efstu tónunum. En ég gat allavega sungið, og það var gaman. Næst á dagskrá: spennufall, afslöppun, leti. Vei!


|