Letijól
Bækur:
Sunnan við mærin, vestur af sól. Fyrsta bókin sem ég les eftir Murakami, sem er nettur skandall þar sem ég fékk örugglega fimm í afmælisgjöf í fyrra. Góð byrjun samt, athyglisverður höfundur.
Ellefu mínútur. Mjög skrýtin, eins konar blanda af Alkemistanum og Lilya 4-Ever. Smám saman rennur samt upp fyrir manni hvert Cuelho er að fara, og þegar upp er staðið er þetta yndislega falleg saga sem kennir manni ýmislegt um lífið og ástina. Femínistinn sem gjörsamlega slátraði þessari bók í Lesbókinni um daginn er á algjörum villigötum!
Samkvæmisleikir. Fín bók, vel skrifuð og allt það, en ég varð samt fyrir vonbrigðum. Kannski búinn að heyra of margt gott um hana, og bjóst við að slitrótt atburðarásin myndi enda í einhverri mjög óvæntri uppljóstrun á síðustu blaðsíðunum. Mér finnst alltaf gaman þegar maður áttar sig loksins á einhverju alveg undir lokin sem fær mann til að lesa alla bókina strax aftur, en það gerðist semsagt ekki hér...
The Curious Incident of the Dog in the Night Time. Snilldarverk, skrifað frá sjónarhóli fimmtán ára stráks með Asberger-heilkenni. Hins vegar er ég mjög ósáttur við heitið á íslensku þýðingunni: Furðulegt háttalag hunds um nótt er bara engan veginn nógu gott. Incident er atburður eða atvik, að þýða það sem háttalag (ens. behaviour) er alveg út í hött þar sem bókin byrjar á því að hundurinn finnst dauður! Óvænta atvikið með hundinn væri skárra, held ég. Og nú hafa lesendur kynnst málfarsfasistanum sem blundar í mér, þetta verður varla í síðasta sinn sem hann lætur ljós sitt skína.
Myndir:
Elizabeth. Sagan er auðvitað góð, og Cate Blanchett er æðisleg. En hvað voru þeir að hugsa að láta tónlistina við dramatíska lokaatriðið (þegar Elísabet ákveður að breyta um stíl og verður „The Virgin Queen“) vera Sálumessu Mozarts? Þetta er sagnfræðilegt klúður af hæstu gráðu, það munar jú heilum 200 árum og a.m.k. 1000 kílómetrum! Ég er alveg æfur, held ég gefi diskinn bara á tombólu við fyrsta tækifæri.
The Story of the Weeping Camel. Ókei, ég veit að það hljómar fáránlega, en þessi heimildarmynd um fæðingu kameldýra í eyðimörkinni í Mongólíu var alveg frábær! Ég missti af henni þegar hún var sýnd hér á einhverri kvikmyndahátíð, svo ég gaf mömmu hana í jólagjöf og hún sló alveg í gegn!
Verbier Festival Piano Extravaganza. Guð minn góður! Martha Argerich og Evgeny Kissin að spila fjórhent á píanó! Og svo horfa þau næstum ekkert á nóturnar heldur bara hvort á annað, með augnaráði sem er hreinlega á mörkum velsæmis, eins og þetta sé einhver kinkí forleikur hjá þeim. Spilamennskan er samt guðdómleg!
Ekki verður fjölyrt hér um aðra iðju mína þessi jólin, enda ekki alveg útséð með útkomuna í öllum tilfellum. Margt ætti þó að skýrast mjög snemma á nýja árinu. Var þetta ekki örugglega nógu óskiljanlegt?
Gleðilegt ár, vinir mínir nær og fjær!