mánudagur, nóvember 29, 2004

Magnificat, magnificat!

Nei, þetta blogg á ekki að verða vettvangur tónleikaplöggs í framtíðinni, en það er auðvitað algjör skylda að fara í Háskólabíó á fimmtudaginn að heyra okkur taka gamla Bach í nefið. Reyndar er þetta alveg óþyrmilega mikið af nótum sem maður er látinn syngja, og þar sem ég hef ekki gert annað en að spila á píanó á æfingum undanfarnar vikur veit ég nú ekki hvort allir sextándupartarnir eiga eftir að gera sig hjá mér á hljómsveitaræfingunni í fyrramálið. En það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnandinn á eftir að fíla okkur í kvöld. Ég fór á æfingu í morgun og gaurinn er alveg dúndurhress, mjög flinkur, en með alveg ömurlega lélegan húmor. Einn brandarinn gekk út á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna, og annar var eitthvað með að stinga hendinni ofan í spaghettí... þeir voru of skrýtnir til að ég nenni að rifja þá upp. Og hljómsveitin hló bara að honum, ekki að bröndurunum per se... Þetta verður feikna stuð.

Sem betur fer er farið að saxast svolítið á prófin. Ég held að næsta vika verði bara frekar afslöppuð, og síðan er ég farinn til London að kórstjórast í viku. Peter og Andrew, þessir miklu snillingar (sjá hérna til hægri) voru svo elskulegir að leyfa mér að koma og fylgjast með sér, þ.e. ég fæ að elta þá eins og skugginn í heila viku, fer með þeim á æfingar, tónleika, fer í tíma til þeirra o.s.frv. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri, Peter er bæði að stjórna tónleikum með Tallis Scholars og BBC Singers, og kórinn hans Andrews er með jólatónleika, allt í sömu vikunni. Ég er í rauninni orðinn svona endurreisnarkóra-grúppía, sem sannar enn og aftur að ég á ekkert heima í 21. öldinni; ég lýsi frati á digital sjónvarp og myndasíma, gefið mér bara minn Josquin og Byrd og ég er í himnasælu.


|

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

I will survive...

Ég ætti að vera að fara yfir próf. Það er nú nógu mikið pappírsflóð hérna í herberginu undir venjulegum kringumstæðum, en nú er það virkilega slæmt. Próf og ritgerðir hrannast upp og það gengur alls ekki nógu hratt að fara yfir þetta allt. Ég er farinn að halda að ég þurfi að taka afganginn með mér til London, sem væri auðvitað alveg glatað.

Ég ætti líka að vera að æfa mig. Ekki síst vegna þess að á laugardaginn tek ég upp geisladisk með Rúnari klarínettusnillingi og Kristjönu flautupæju, og það er sko enginn Gamli Nói sem við erum að spila, ónei það er sko hardkor íslensk nútímatónlist, hvorki meira né minna. Svo verð ég æfingapíanisti hjá Robert King á mánudagskvöldið, og mér veitti satt að segja ekkert af að renna yfir Omnes generationes svona eins og einu sinni. Eða þrisvar. Hmm.

En ég er ekki að æfa mig, og ég er ekki að fara yfir próf. Nei gott fólk, nú sit ég sveittur við að læra dægurlagatexta utanað. Eins og þið getið ímyndað ykkur kann ég alveg skammarlega lítið af svoleiðis textum, sem háir mér nú ekkert mikið svona dags daglega, en er mjög vandræðalegt þegar ég fer út á djammið og get ekki sungið með. Það er alveg sama hvað ég reyni, ég bara kann ekki þessa texta og ef ég reyni eitthvað að feika það verð ég bara ennþá hallærislegri. Undanfarnar tvær helgar hafa ekki komið nema tvö lög sem ég kunni alveg hundrað prósent: Waterloo og Dancing Queen, enda er ég ABBA-drottning dauðans ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum. En Hreiðar neitar semsagt að láta sjá sig aftur með mér á dansgólfinu nema ég taki þetta textamál föstum tökum, og nú er ég með langan lista fyrir framan mig sem ég þarf að vera búinn að klára fyrir laugardaginn. Village People og Gloria Gaynor eru í höfn, næst á dagskrá er Bohemian Rhapsody. Little high, little low, any way the wind blows... Úje.
|

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Fiðlustrumpur verður stór...

Já, hún Helga Þóra er tvítug í dag. Eins og allir vita er hún hörku fiðluleikari, en hún er líka alveg frábær manneskja og æðisleg vinkona. Svo er hún líka gangandi sönnun þess að margur er knár þótt hann sé smár. Til hamingju með afmælið elsku Helgsa, ég hlakka til að heyra hvort þú stækkaðir eitthvað í nótt... ;)

Helga Þóra átti annars að vera fyrsta manneskjan til að vita af þessu bloggi, en vegna tæknilegra örðugleika er hún sú fjórða í röðinni. Það er smá tilraun í gangi hérna, ég hef bara sagt þremur frá blogginu (Brynjari, ES, og Helgu), svo það verður fróðlegt að sjá hvort fiskisagan fer á flug.
|

mánudagur, nóvember 22, 2004

Bloggið er dautt...

Já kæru vinir, bloggið er dautt. Þessu hefur verið marglýst yfir, af áreiðanlegasta fólki sem fylgist betur með dægursveiflum nútímans en ég. Þessi flóðbylgja misjafnlega innihaldsríkra dagbókarfærslna og annarra sjálfhverfra dægurþanka virðist vera um það bil að ganga yfir, enda eru þeir sem hætta að blogga nú til dags mun fleiri en þeir sem byrja. Bloggið er í dauðateygjunum, megi það hvíla í friði.

Þess vegna hef ég ákveðið að byrja að blogga. Eins og allir vita er ég úr öllum takti við nútímann, vil helst ímynda mér að síðustu aldir mannkynssögunnar hafi aldrei átt sér stað; uni mér hvergi betur en í fjallaklaustri með morkið handrit milli fingranna. Tónlistarsmekkur minn hefði helst fundið sér einhverja samsvörun meðal evrópskra aðalsmanna á 16. öld, helst að ég lesi af og til nokkrar bækur rithöfunda sem voru uppi á fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Núna eru þeir samt flestir komnir undir græna torfu.

Og þar sem bloggið er dautt, er kominn tími til að setjast við skriftir. Líftími þessarar síðu er í meira lagi óviss, og sýnist mér þrennt líklegast til að ganga af henni dauðri:
1. Ég flyt í nýtt húsnæði, vafinn skuldum, og á ekki fyrir ADSL.
2. Ég verð yfir mig ástfanginn og ákveð að skammta öðrum tímann sem tekur að skrifa blogg.
3. Ég fæ almenna leið á fyrirbærinu og fer að æfa mig meira í staðinn.

Eins og er sýnast mér nr. 1 og 3 nokkuð líklegar, en þó vil ég ekki útiloka neitt. Góðar stundir.
|