Magnificat, magnificat!
Nei, þetta blogg á ekki að verða vettvangur tónleikaplöggs í framtíðinni, en það er auðvitað algjör skylda að fara í Háskólabíó á fimmtudaginn að heyra okkur taka gamla Bach í nefið. Reyndar er þetta alveg óþyrmilega mikið af nótum sem maður er látinn syngja, og þar sem ég hef ekki gert annað en að spila á píanó á æfingum undanfarnar vikur veit ég nú ekki hvort allir sextándupartarnir eiga eftir að gera sig hjá mér á hljómsveitaræfingunni í fyrramálið. En það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnandinn á eftir að fíla okkur í kvöld. Ég fór á æfingu í morgun og gaurinn er alveg dúndurhress, mjög flinkur, en með alveg ömurlega lélegan húmor. Einn brandarinn gekk út á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna, og annar var eitthvað með að stinga hendinni ofan í spaghettí... þeir voru of skrýtnir til að ég nenni að rifja þá upp. Og hljómsveitin hló bara að honum, ekki að bröndurunum per se... Þetta verður feikna stuð.
Sem betur fer er farið að saxast svolítið á prófin. Ég held að næsta vika verði bara frekar afslöppuð, og síðan er ég farinn til London að kórstjórast í viku. Peter og Andrew, þessir miklu snillingar (sjá hérna til hægri) voru svo elskulegir að leyfa mér að koma og fylgjast með sér, þ.e. ég fæ að elta þá eins og skugginn í heila viku, fer með þeim á æfingar, tónleika, fer í tíma til þeirra o.s.frv. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri, Peter er bæði að stjórna tónleikum með Tallis Scholars og BBC Singers, og kórinn hans Andrews er með jólatónleika, allt í sömu vikunni. Ég er í rauninni orðinn svona endurreisnarkóra-grúppía, sem sannar enn og aftur að ég á ekkert heima í 21. öldinni; ég lýsi frati á digital sjónvarp og myndasíma, gefið mér bara minn Josquin og Byrd og ég er í himnasælu.