mánudagur, janúar 01, 2007

HÆTTUR

Í bili að minnsta kosti. Það er ekkert framundan næstu mánuðina nema skóli og skriftir, og mér hrýs hugur við því að reyna að finna eitthvað skemmtilegt til að blogga um með reglulegu millibili. Þetta var gaman en nýju ári fylgja nýir siðir, þið verðið þá bara að spyrja mig frétta á förnum vegi í staðinn.

Gleðilegt ár!
|

föstudagur, desember 29, 2006

Aðeins of seinn

Týpískt. Fimm dögum eftir jól finn ég flottustu jólagjöf allra tíma. Jæja, ég slepp þá bara við að gera óskalistann 2007. Það er að segja ef ég verð ekki búinn að gleyma þessu þá.

Eða kaupa mér það sjálfur. Annað eins hefur nú gerst.
|

laugardagur, desember 23, 2006

Saaanctus!

Þið vitið líklega öll hvað mér finnst Bach frábær, svo það ætti varla að koma neinum á óvart að mikið af uppáhaldsjólatónlistinni minni er einmitt eftir hann. Stundum þegar ég hlusta á Bach finnst mér líka gaman að syngja með. Ekkert endilega bassann. Stundum baula ég líka út efri raddirnar með mikilli innlifun, en líklega minna listfengi. Það gerir líka ekkert til.

Þótt mér finnist gaman að baula út gamla Bach myndi ég varla leyfa nokkrum manni að heyra það. Og ég myndi örugglega ekki búa til úr því myndband og setja á Youtube. Þetta er stórkostlega fyndið, átakanlegt og sársaukafullt í senn. Ég verð að viðurkenna að ég dáist að úthaldinu. En ég held að þetta verði seint uppáhaldsútgáfan mín af jóla-Sanctusnum frá 1724. Sem guðs lifandi betur fer.

Gleðileg jól!
|

fimmtudagur, desember 21, 2006

Vesalings tenór

Vesalings Roberto Alagna. Eins og upptökurnar frá La Scala sýna var hann í fantaformi þetta örlagaríka kvöld. Söng eins og engill, svei mér þá. Til dæmis H-ið í lokin á Celeste Aida, rétt áður en allt varð vitlaust. Glansandi fallegt H. Bara alveg fullkomið. Eða eins og tenórinn sagði af sinni einstöku hógværð: Sono stato bravissimo.

Verst að arían skyldi vera í B-dúr. Tæknileg mistök, myndu sumir segja.
|

föstudagur, desember 15, 2006

Á leið heim

Ég mun sakna:
-- Stresslausa lífsins. Það er allt svo miklu afslappaðra hérna. Sem auðvitað kemur líka til af því að ég er ekki að stússast í tíuþúsund hlutum eins og á Íslandi. Og nú veit ég það: tveggja mánaða afslöppun er nóg til að laga jafnvel svæsnustu vöðvabólgu.
-- Óperunnar. Það er bara svo gaman að komast í almennilega óperu. Ég er meira að segja búinn að sjá Elektru tvisvar! Já, ég er sko kaldur kall.
-- Danska útvarpsins. P2 er alveg frábær útvarpsstöð. Bara létt snakk, klassísk tónlist á daginn og djass á kvöldin. Og á sunnudagskvöldum er sniðugur þáttur þar sem eru bornar saman sex útgáfur af sama verkinu og þrír sérfræðingar velja þá bestu í útsláttarkeppni. Af hverju er ekki hægt að hafa svona útvarpsstöð heima?

Ég mun ekki sakna:
-- Rigningarinnar. Það er búið að rigna svolítið mikið hérna, og þið vitið hvað ég HAAATA rigningu!
-- Dönskunnar. Eða réttara sagt fólk sem talar dönsku of hratt. Sem eru eiginlega allir. Annars hef ég ekkert á móti dönsku, hún er bara fín. Nema hún er aðeins of lík þýsku. Það hefur verið stærsti höfuðverkurinn að muna hvað er þýska og hvað er danska. Svo asnaðist ég á þýska bíómynd um daginn (Das Leben der Anderen, mæli með henni) og var marga daga að ná áttum aftur.
-- Sturtunnar minnar. Hún er svo fáránleg að ég þyrfti helst að taka mynd af henni áður en ég fer. En mér skilst að dönsk baðherbergi séu oft frekar skrautleg...

Svo er ég ekki frá því að ég hlakki bara til þess að byrja aftur að kenna. Enda byrjar janúar á Monteverdi og Britten - það gerist nú ekki mikið betra.
|

sunnudagur, desember 10, 2006

Matur og vín, og Yo-Yo

Ég er sæll og glaður. Og saddur, úff hvað ég er saddur. Mamma og amma voru í heimsókn um helgina og við versluðum mikið og borðuðum meira. Ef einhverjir vilja fara fínt út að borða í Kaupmannahöfn mæli ég með Le Sommelier á Bredgade ekki langt frá Amalienborg. Maturinn var algjörlega guðdómlegur og þjónustan fullkomin. Vínlistinn var upp á svona 80 blaðsíður og mörg vínin kostuðu milli 50 og 100.000 krónur. Við létum okkur nú nægja Jasper Hill 2002 sem var töluvert ódýrara, en ótrúlega ljúffengt engu að síður.

Í gær söng ég svo með Stöku á Nordatlantisk julekoncert (ég var auðvitað sjanghæaður í Stöku, sem var mjög gaman), og í dag fórum við á tónleika með Yo-Yo Ma í óperunni. Hann var að fá Leonie Sonnings Musikpris og hélt einhverja þá rosalegustu sellótónleika sem ég hef heyrt. Hann byrjaði á Arpeggione, Sjostakovitsj-sónötunni og Le grand tango. Þetta hefði nú næstum því verið heilt prógramm fyrir aðra sellista, en nei, þetta var allt fyrir hlé. Svo kom nútímastykki og Franck, og 3 aukalög. Maðurinn er ótrúlegur. Þegar hann spilar er hreinlega eins og hann sé tónlistin holdi klædd. Hann spilaði hvern einasta frasa af svo mikilli innlifun og sannfæringu að maður gleymdi stund og stað. Orð eins og tækni eða túlkun eiga bara ekki við þegar maður lýsir svona flutningi. Það er allt gert í þágu tónlistarinnar og flytjandinn hefur enga þörf fyrir að nota tónlistina til að gera sjálfan sig meiri. Tónlistin er stærri en við sjálf, sagði hann í þakkarræðunni og þetta viðhorf skín í gegn þegar hann spilar. Hjá mestu listamönnunum haldast auðmýkt og yfirburðir í hendur.
|

miðvikudagur, desember 06, 2006

Tilvitnun dagsins

Be who you are and say what you feel, because those who mind don´t matter and those who matter don´t mind.
--Dr.Seuss (Theodor Seuss Geisel)
|

sunnudagur, desember 03, 2006

Ég lifði þetta af

Og raunar gott betur, því matarboðið var alveg stórskemmtilegt. Fyrir utan gestgjafahjónin voru þarna saman komin Ole tónlistarfræðingur/kórstjóri og konan hans, Britta sem er með mér í grúskinu og maðurinn hennar, og Trude,sem var einu sinni forstjórafrú í Norræna húsinu í Reykjavík.

Kannski hefði einhverjum fundist meðalaldurinn í þessu matarboði í hæsta lagi, en ekki mér. Þótt ég hafi verið a.m.k. 25 árum yngri en næstyngsti gesturinn. Ég er nefnilega svo gömul sál.

Trude var sérlega fyndin og kunni fullt af skemmtilegum sögum. Hér er ein sem kom upp úr dúrnum þegar við tónlistarfræðingarnir vorum komnir á kaf í nördaskapinn og vorum að tala um transpósisjónir: Þegar átti að setja upp fyrstu óperuna í Þjóðleikhúsinu kom í ljós að það þurfti að transpónera nokkrum aríum niður um heiltón fyrir einn aðalsöngvarann og skrifa viðkomandi hljómsveitarparta upp á nýtt. Þetta kostaði peninga sem GR þjóðleikhússtjóri tímdi ekki að láta í jafn ómerkilegan hlut. En hann var ekki lengi að finna lausn sem hann var viss um að myndi spara 50% af kostnaðinum og sagði sigri hrósandi: Við transpónerum bara niður um hálftón!

Þetta væri samt fyndnara ef það væri ekki ennþá til svona fólk.
|

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Matur og vín

Annað kvöld fer ég í fyrsta matarboðið mitt á dönsku. Með hvorki meira né minna en tveimur tónlistarfræðingum og einhverju fleira fólki sem ég þekki ekkert. Það verður meiriháttar afrek ef ég lifi þetta af.

Var ég nokkuð búinn að segja ykkur að ég bý við hliðina á besta sushi-staðnum í Kaupmannahöfn? Enda er ég orðinn alvarlega háður sushi. Ég lifi varla af daginn án þess að fá mér nigiri, maki og hvað þetta nú heitir allt saman. Þessir nágrannar mínir eru mestu meistarar og gaman að horfa á hröð handtökin þegar þeir búa þetta allt saman til. Haldiði að mamma verði nokkuð pirruð ef ég bið um sushi í staðinn fyrir rjúpu á jólunum?

Ég var ekki heldur búinn að segja ykkur frá því að um daginn buðu Bo og Eva mér í kvöldmat með Peter kórstjóra og Caroline konunni hans. PP er mikill vínmaður og þegar við vorum búin að borða fór hann að gjóa augunum til Bo leyndardómsfullur á svip, og greinilegt að eitthvað mikið var í uppsiglingu. Það endaði með því að Bo fór og sótti þá allra rykföllnustu rauðvínsflösku sem ég hef séð. "Tja, þegar ég var að borða kvöldmat með Peter Lehmann í Ástralíu fyrir nokkrum árum bað ég hann um að gefa mér flösku af 1991 árganginum af (hér nefndi hann einhverja víntegund sem ég man ekki), hann hló bara og sagði að það væri allt búið, en gaf mér '92 árganginn í staðinn". Semsagt, þarna sátum við og drukkum 14 ára gamalt rauðvín sem Peter Lehmann sjálfur gaf honum! Það var verulega ljúffengt. Ekki viss um að það hefði endst mörg ár í viðbót, en já, þetta var óneitanlega nokkuð sérstakt...
|

mánudagur, nóvember 27, 2006

Í reynslubankann

Hvað sem annars má segja um gærkvöldið þá var það afar lærdómsríkt. Og gekk, að flestu leyti, býsna vel. Musica ficta er mjög fínn kór, en gæti verið ennþá betri ef Bo væri kröfuharðari á æfingum, og stokkaði upp í bassadeildinni, þar sem meðalaldur og meðalvíbrató eru í hæsta/mesta lagi.

Lærdómsríkast var að syngja Spem tvisvar, í ólíkum uppstillingum. Fyrst stjórnaði Bo okkur þar sem við stóðum í 8 kórum víðsvegar um kirkjuna, síðan stjórnaði Peter þar sem við stóðum í einum risaboga uppi við altarið.

Fimm hlutir varðandi Spem sem ég lærði í gær:

1. Það er erfiðara en maður heldur. Þótt hljómagangurinn sé einfaldur þá er rytminn stundum snúinn og línurnar mjög óeftirminnilegar. Ekki af því að Tallis hafi ekki getað samið góðar línur, heldur af því það er hægara sagt en gert að hafa enga samstígni þegar þú ert kominn með 40 raddir.

2. Maður hefði haldið að það væri erfiðara að syngja verkið dreifð út um allt, en nei. Það fer allt eftir því hvort stjórnandinn getur gefið skýrt slag. Og getiði nú, eða lesið aftur það sem stendur að ofan. Eins og Andrew sagði við danska barítóninn sem var með okkur í kór, þegar allt var á leið í vaskinn á æfingunni: Don't look, just listen....

3. Ef maður kemst í gegnum takta 50-58 getur maður andað töluvert léttar. Synkópurnar í sópran 7 eru svínslegar og geta sett allt úr skorðum. Sérstaklega ef stjórnandinn getur ekki gefið skýrt slag.

4. Taktar 108-109 minna mig óhugnanlega mikið á sjöttu sinfóníu Mahlers.

5. Um leið og maður er kominn yfir í hómófónísku kaflana, creator caeli et terrae etc., getur maður andað mikið, mikið, mikið léttar. Það er fátt sem getur klikkað þar. Jafnvel þótt stjórnandinn geti ekki gefið skýrt slag.

Ég er samt ekki viss um að Spem, jafnstórkostlegt og það nú var, hafi verið hápunktur kvöldsins. Karaoke-barinn með mestu stuðboltunum í TS var a.m.k. eitthvað sem ég gleymi aldrei. Við vorum að til 3 í nótt; Andrew tók m.a. Bohemian Rhapsody, ég tók Grease-dúetta með nýju sópranstelpunni og It's Oh So Quiet með sterkum íslenskum hreim. En nú er best að fara að trítla niður á Árnasafn og grúska dálítið, svo er aldrei að vita nema ég skelli mér á Monteverdi Vespers í kvöld. Já, þetta er indælt líf.
|

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Uppljóstranir

Við Sólveig erum búin að komast að leyndarmálinu á bak við danskar kvikmyndir. Danir eiga eina formúlu sem virðist vera algjörlega skotheld, a.m.k. að því er þeim finnst. Í fyrsta lagi: það deyr alltaf einhver í danskri kvikmynd. Í öðru lagi: það er alltaf eitt bøssepar. Svona til að sýna umheiminum hvað Danir eru nú líbó. Í þriðja lagi: það er alltaf a.m.k. ein frekar svæsin kynlífssena. Þær geta verið af ýmsum toga, t.d.: framhjáhaldið í fullum gangi (framhjáhöld eru algeng í dönskum myndum); hjónin/parið eftir að þau hafa eða eru um það bil að ná sáttum; eða bøsseparið í fullu fjöri, svona til gamans. Best er samt ef tekst að tvinna þetta allt saman á sem frumlegastan hátt. Nú þegar við höfum uppgötvað leyndarmál danskrar kvikmyndagerðar bjóðum við okkur fram í handritaskrif. Ég meina, þetta getur ekki verið svo flókið, er það nokkuð?

Önnur uppljóstrun: Það eru engir Danir í Kaupmannahöfn. Borgin er full af Svíum og Íslendingum. Maður þekkir þá í sundur með því að labba niður Strikið á sunnudagseftirmiðdegi. Svíarnir ganga rólegir um, haldast í hendur og segja skemmtilegar sögur, en Íslendingarnir hlaupa klyfjaðir milli Illum og Magasin du Nord yfirkomnir af stressi af því þeir þurfa að kaupa aðeins meira áður en þeir fara heim með kvöldvélinni.
|

föstudagur, nóvember 17, 2006

9 dagar

Ég valdi greinilega alveg rétta tímann til að flýja land, ef marka má alla tölvupóstana og sms-in undanfarið um kuldann heima. Í Kaupmannahöfn er þetta fína veður, svolítil rigning stundum, en þá grípur maður bara regnhlífina.

Það er annars útlit fyrir frekar menningarlega helgi. Ég er að spá í að fara á Mozart-ballettinn, og svo ætla ég pottþétt á Elektru. Ég hef alltaf verið hálfhræddur við þessa óperu, enda er söguþráðurinn svona í hressari kantinum. Ég hlustaði á hana einu sinni þegar ég var um tvítugt og lá andvaka í margar nætur á eftir. En maður herðist nú með árunum, er það ekki?

Enda má ég síst við því að missa svefn í næstu viku. Fyrsta kóræfing er í Glyptotekinu á miðvikudag, reyndar æfum við þar daglega fram á sunnudag og fáum bara smá hljóðprufu fyrir DR í kirkjunni fyrir tónleikana. Ég er nett spenntur, nóturnar eru í sjálfu sér ekki erfiðar en þegar maður er einn á rödd er eins gott að vera með sitt á hreinu. Með mér í kór II eru sópran, alt og tenór úr Tallis Scholars og danskur barítón. Mér finnst þetta allt mjög óraunverulegt, en ætla nú samt að reyna að njóta þess í botn...
|

mánudagur, nóvember 13, 2006

Schön sind die Träume...

Ég var að koma heim af alveg frábærum ljóðatónleikum. Vá, hvað ljóðatónleikar geta verið magnaðir. Það var Angelika Kirchschlager sem söng, alveg ótrúlega fallega, Schumann/Schubert prógramm. Og ég þekkti ekki nema nokkur lög, hún söng jú eitthvað úr op. 35 og endaði svo á An die Musik - ok, kannski smá klisja, en samt ekki þegar það er svona vel gert. Herlegheitunum verður útvarpað að hluta á P2 á fimmtudaginn kl. 20 og sunnudaginn kl. 16. Og af hverju hef ég aldrei heyrt Die Löwenbraut eftir Schumann? Skandall. Ekki lengur samt.

Annars er bara gaman að vera hérna. Danir eru fyndnir. Þeir klæða sig púkalega og tala alltof hratt, en annars eru þeir yndislegir. Maðurinn sem sat við hliðina á mér í metroinu í morgun lét sig ekki muna um að klára einn bjór á leiðinni, og í gær sá ég konu sem var úti að skokka með sígarettu í munnvikinu. Hvergi nema í Danmörku...
|

föstudagur, nóvember 10, 2006

The hills are aliiiiiveeee.....

Já, ég er kominn til Salzburg. Gaerdagurinn var ekki sá skemmtilegasti, thví ad ég sat á flugvöllum frá morgni til kvölds. En nú er ég kominn og allt komid á fullt. Á milli thess sem raett er um Bologna-samkomulagid, ECTS-einingar og Quality Assessment hámar fólk í sig Mozart-kúlur og Apfelstrudel. Skipuleggjendur hafa greinilega ákvedid ad thad vaeri besta leidin til ad halda öllum ánaegdum. Sykurbindindid mitt, sem byrjadi svo efnilega, er semsagt farid veg allrar veraldar.
Í kvöld er einhver rosa dinner í Augustinerbräu, og á morgun er veisla hjá borgarstjóranum. En nú aetla ég ad skella mér í nunnubúninginn og hlaupa syngjandi um Mirabell-gardana. Bis später!
|