Hvað sem annars má segja um gærkvöldið þá var það afar lærdómsríkt. Og gekk, að flestu leyti, býsna vel. Musica ficta er mjög fínn kór, en gæti verið ennþá betri ef Bo væri kröfuharðari á æfingum, og stokkaði upp í bassadeildinni, þar sem meðalaldur og meðalvíbrató eru í hæsta/mesta lagi.
Lærdómsríkast var að syngja Spem tvisvar, í ólíkum uppstillingum. Fyrst stjórnaði Bo okkur þar sem við stóðum í 8 kórum víðsvegar um kirkjuna, síðan stjórnaði Peter þar sem við stóðum í einum risaboga uppi við altarið.
Fimm hlutir varðandi Spem sem ég lærði í gær:
1. Það er erfiðara en maður heldur. Þótt hljómagangurinn sé einfaldur þá er rytminn stundum snúinn og línurnar mjög óeftirminnilegar. Ekki af því að Tallis hafi ekki getað samið góðar línur, heldur af því það er hægara sagt en gert að hafa enga samstígni þegar þú ert kominn með 40 raddir.
2. Maður hefði haldið að það væri erfiðara að syngja verkið dreifð út um allt, en nei. Það fer allt eftir því hvort stjórnandinn getur gefið skýrt slag. Og getiði nú, eða lesið aftur það sem stendur að ofan. Eins og Andrew sagði við danska barítóninn sem var með okkur í kór, þegar allt var á leið í vaskinn á æfingunni: Don't look, just listen....
3. Ef maður kemst í gegnum takta 50-58 getur maður andað töluvert léttar. Synkópurnar í sópran 7 eru svínslegar og geta sett allt úr skorðum. Sérstaklega ef stjórnandinn getur ekki gefið skýrt slag.
4. Taktar 108-109 minna mig óhugnanlega mikið á sjöttu sinfóníu Mahlers.
5. Um leið og maður er kominn yfir í hómófónísku kaflana, creator caeli et terrae etc., getur maður andað mikið, mikið, mikið léttar. Það er fátt sem getur klikkað þar. Jafnvel þótt stjórnandinn geti ekki gefið skýrt slag.
Ég er samt ekki viss um að Spem, jafnstórkostlegt og það nú var, hafi verið hápunktur kvöldsins. Karaoke-barinn með mestu stuðboltunum í TS var a.m.k. eitthvað sem ég gleymi aldrei. Við vorum að til 3 í nótt; Andrew tók m.a. Bohemian Rhapsody, ég tók Grease-dúetta með nýju sópranstelpunni og It's Oh So Quiet með sterkum íslenskum hreim. En nú er best að fara að trítla niður á Árnasafn og grúska dálítið, svo er aldrei að vita nema ég skelli mér á Monteverdi Vespers í kvöld. Já, þetta er indælt líf.